Eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 20:44:16 (4780)

1998-03-17 20:44:16# 122. lþ. 89.7 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv., 561. mál: #A sérákvæði laga um fjármálaeftirlit# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[20:44]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Við jafnaðarmenn höfum um nokkurt skeið talað fyrir því sjónarmiði að skynsamlegt væri að sameina bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið í sérstaka stofnun. Þess vegna fögnum við þessu frv. sem hér er lagt fram af hæstv. viðskrh. Það segir skýrt í frv. að þessi nýja stofnun, Fjármálaeftirlitið, eigi að hafa umsjón með viðskiptabönkum, sparisjóðum, lánastofnunum, vátryggingafélögum, fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu, kauphöllum, verðbréfamiðstöðvum, lífeyrissjóðum og fjárfestingarfélögum svo að nokkur af þeim félögum séu nefnd sem falla undir þetta frv. Hér falla sem sagt aðilar á fjármagnsmarkaði í víðum skilningi, því þarna eru tryggingafélög einnig, undir eftirlitsstarf hins nýja Fjármálaeftirlits. Þetta er af hinu góða að okkar mati. Eftirlitið verður skilvirkara. Það er skynsamlegt að fella starfsemi Vátryggingaeftirlitsins og bankaeftirlitsins saman í eina stofnun einfaldlega vegna þess að hér er um mjög svipaða eftirlitsstarfsemi að ræða og er nú þegar af hálfu bankaeftirlits Seðlabankans.

[20:45]

Starfsemi Vátryggingaeftirlitsins, sem er mjög mikilvæg, fellur mjög vel að þessu hlutverki sem hin nýja stofnun, Fjármálaeftirlitið, mun hafa með höndum. Hér er því lagt upp með góða hugmyndafræði enda hefur hugmyndarinnar verið getið og um hana fjallað af öðrum aðilum þar á meðal af þingmönnum jafnaðarmanna hér á árum áður.

Ég ætla að fara, herra forseti, yfir nokkur atriði í frv. sem eru álitaefni og vekja athygli á þeim. Þau mundu þá væntanlega koma til skoðunar í þingnefnd og hugsanlega verða að einhverju umtalsefni.

Í 3. gr. frv. kemur fram að stofnunin heyri undir viðskrh. Það er vitaskuld mjög eðlilegt að svo sé miðað við núverandi kerfi og núverandi reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Hins vegar finnst mér rétt að vekja athygli á því að það er ekkert sjálfgefið að viðskrn. eða viðskrh. fari með bankamál hér á landi. Þetta hefur ekkert með núv. hæstv. viðskrh. að gera heldur vil ég vekja athygli á því að víða eru fjármálastofnanir og bankastofnanir og seðlabanki undir stjórnsýslulegri umsýslu fjmrn. Það þekkist að vísu annað fyrirkomulag. Sums staðar eru bankamál undir efnhagsráðuneyti en þá í stærra umfangi en núverandi viðskrn. Það ber einnig að hafa í huga að þótt svo við tölum um iðnaðar- og viðskrn. þá eru þetta tvö ráðuneyti. Þau hafa ekki verið sameinuð. Hins vegar væri mjög brýnt, ekki einungis að sameina viðskrn. og iðnrn. heldur sameina sjútvrn., landbrn., iðnrn. og viðskrn. í eitt ráðuneyti, efnahagsráðuneyti. Ég gæti best trúað því að núv. hæstv. viðskrh. yrði mjög ánægður með slíkt ráðuneyti og ég tala nú ekki um ef hann yrði sá ráðherra sem færi með þá málaflokka.

Þetta er hugmynd sem vert er að íhuga vegna þess að þetta er svipað og er mjög víða í nágrannalöndunum, þ.e. að horfið er frá aðgreindum atvinnuvegaráðuneytum eins og við höfum þekkt hér um áratuga skeið.

Efni þessa frv. fjallar ekki um þetta en ég tel hins vegar rétt að vekja athygli á því að uppstokkun á ráðuneytum og verkefnum milli þeirra á vitaskuld alltaf að vera í umræðu hjá okkur.

Í 4. gr. frv. er talað um að skipuð verði sérstök stjórn sem viðskrh. skipi til fjögurra ára í senn. Vitaskuld er matsatriði hvort stjórnin eigi að vera þriggja manna eða fjölmennari. Viðskrh. velur í reynd tvo af nefndarmönnum en einn er skipaður eftir tilnefningu frá Seðlabanka Íslands. Það að Seðlabankinn tilnefni sérstaklega mann í stjórn Fjármálaeftirlitsins finnst mér vera álitamál í ljósi þess að með frv. er bankaeftirlitið fært úr Seðlabankanum. Seðlabankainn hefur afmörkuðu hlutverki að gegna fyrst og fremst á sviði peningamála þó svo að menn hafi nú kannski ekki borið þá gæfu til að afmarka löggjöf um seðlabanka með nútímalegum og skýrum hætti, en látum það nú vera. Hins vegar finnst mér það vera álitamál hvort rétt sé að Seðlabankinn tilnefni sérstakan mann í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Mér finnst það ekki sjálfgefið. Ég tel jafnvel að betur færi á því að það yrði ekki gert heldur að ráðherra mundi skipa alla stjórnarmenn. Það er gert ráð fyrir öðrum tengslum við Seðlabankann en hérna finnst mér ekki vera samræmi í upplegg frv. hvað þetta ákvæði varðar, a.m.k. er þetta vert umhugsunar.

Í 6. gr. frv. er fjallað um hæfi stjórnarmanna. Það er sagt að forstjóri skuli ráðinn af stjórn stofnunar. Ég tel það í sjálfu sér vera til bóta að forstjóri sé ekki skipaður af ráðherra. Stjórnarmenn eru faglega skipaðir af ráðherra og þeir ráða forstjóra eftirlitsins, hann annast daglega stjórnun og stjórnin ákveður starfskjör forstjóra, þannig að ekki yrðu nein húsbóndatengsl við viðskrh. eins og er núna gagnvart forstöðumanni bankaeftirlitsins, en hann er skipaður af viðskrh., sem hefur nokkra sérstöðu í skipulagi Seðlabankans. Það er einmitt eitt dæmið um að ýmislegt er þar sem þyrfti að skoða hvað hina lagalegu umgjörð varðar.

Hins vegar segir í 6. gr. varðandi forstjóra:

,,Forstjóri skal hafa menntun á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu og starfsreynslu á fjármagnsmarkaði.``

Það er allt gott og blessað um þetta að segja. Það mætti ef til vill gera meiri kröfur. En látum það vera, alla vega er hægt að vinna út frá þessu. En um stjórnarmenn segir:

,,Stjórnarmenn skulu búa yfir þekkingu á fjármagnsmarkaði og hafa haldgóða menntun sem nýtist á þessu sviði.``

Það er sem sagt ekki gerð krafa um háskólamenntun. Mér finnst það vera mjög mikil spurning hvort ekki eigi að gera kröfur til stjórnarmanna í fjármálaeftirlit landsins um að þeir séu háskólamenntaðir. Mér finnst það satt best að segja sjálfsögð krafa, ég er ekki að gera kröfu til einhverrar sérstakrar háskólamenntunar, en góð menntun manna sem bera ábyrgð á þessum þáttum er vitaskuld af hinu góða.

Síðan segir: ,,Gæta skal þess við skipun stjórnar að starfsreynsla og menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust.``

Nú þarf ég eiginlega skýringar. Hvað er hér á ferðinni? Er verið að opna möguleika fyrir hæstv. ráðherra að fara í pólitískar skipanir, taka tillit til hagsmuna hinnar dreifðu byggða eða hvað er þetta? Starfsreynslu á hvaða sviði og með hvaða hætti? Mér finnst, herra forseti, að hér sé verið að setja sérstakt ákvæði inn í lögin sem kallar hugsanlega á, ég vil ekki segja misbeitingu, heldur ef til vill óheppilegar skipanir við tilteknar aðstæður. Mér finnst að það eigi að vera alveg ljóst hvað löggjafinn ætlar sér með hæfi stjórnarmanna. Ég set menntunarkröfur ofar en gert er ráð fyrir í frv., mér finnst það eðlilegt að svara kalli tímans. En ég kýs ekki að í frv. sé einhver fjallabaksleið gagnvart skipunum út frá einhverjum sérkennilegum sjónarmiðum, því að talað er um að við skipun eigi starfsreynsla og menntun stjórnarmanna að vera sem fjölbreyttust. Hvað hefur það eiginlega í sjálfu sér með fjármálaeftirlit að gera? Þetta er fyrst og fremst mjög fagleg stofnun sem er á ferðinni, mörkuð af þeirri löggjöf sem hér er. Það er ekki verið að skipa bankastjóra. Þetta væri hefðbundið ákvæði og farið eftir því þegar menn eru að skipa bankastjóra í íslensku umhverfi en mér finnst þessi málsliður ekki eiga vel við.

Í 7. gr. er rætt um sérstaka ráðgjafarnefnd. Ég held að það sé af hinu góða, að sett sé ráðgjafarnefnd til hliðar við stjórn sem hægt er að kalla til. Hún hefur ekki ákvörðunarvald en er samráðsaðili. Hægt er að kalla til sérhæfða aðila því að vitaskuld er aðalatriðið við fjármálaeftirlit að viðhöfð séu góð vinnubrögð og þau séu hafin yfir allan efa. Það er aðalatriðið í sambandi við fjármálaeftirlit.

Þriðji kafli frv. sem fjallar um starfsemina, þ.e. eftirlit, athugun og aðgang, fullnustuúrræði og tilkynningaskyldu. Mér sýnist í fljótu bragði að hér sé vel að verki staðið. Vitaskuld hafa menn löggjöf bæði um bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið, og mér sýnist þessi ákvæði vera í meginatriðum sniðin að þeim verkþáttum og ekkert í fljótu bragði sem er athugavert við það en vissulega mun þingnefnd fara betur yfir þann þátt.

Í 14. gr. er gert ráð fyrir alveg sérstöku samráði við fulltrúa Seðlabankans. Þar segir:

,,Forstjóri Fjármálaeftirlitsins skal eiga reglulega samráðsfundi með fulltrúum Seðlabankans. Þar skal hann veita upplýsingar um starfsemi Fjármálaeftirlitsins sem nauðsynlegar eru starfsemi Seðlabankans.``

Hér tel ég, herra forseti, að menn séu heldur ekki á réttri leið. Þarna hafa nú greinilega einhverjir aðilar úr Seðlabankanum talið rétt að þeir hefðu mjög mikla umsjón með hinni nýju stofnun og kæmu að henni með formlegri hætti þó svo að eftirlitið yrði fært í hina sérstöku stofnun. Það sést bæði í stjórnarskipuninni og við þessa reglulegu samráðsfundi.

Ég endurtek aftur: Seðlabankinn sér um tiltekna starfsemi á sviði peningamála, banki bankanna og viðskiptabanki ríkissjóðs. Eftirlitshlutverkið er farið úr bankanum með stofnun þessa eftirlits, Fjármálaeftirlitsins. Ég tel því einhverja sérstaka aðkomu Seðlabankans að fjármálaeftirlitinu ekki skynsamlega. Það er þá alveg eins hægt að hugsa sér einhverja aðra aðila, eiga þeir með reglubundnum hætti að vera á samráðfundum, t.d. viðskiptabankar, kauphallir o.s.frv.? Vitaskuld er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kalla til og hafa samráð við alla þá menn sem það hefur eftirlit með eða tengjast fjármálamarkaðnum. Ég held að hin nýja uppbygging sem á að lögfesta sé ekki alveg fullhugsuð.

Í 16. gr. frv. er mjög ítarlegur kafli um greiðslu eftirlitskostnaðar. Það liggur fyrir að bankaeftirlitið hefur kostað u.þ.b. 100 milljónir, Vátryggingaeftirlitið um 50. Það virðist vera gert ráð fyrir í þessari útfærslu að ná inn þessum peningum af þeim aðilum sem haft er eftirlit með, og sett upp á mjög nákvæman hátt. Ég veit ekki --- það er út frá ,,eignum samtals`` og öðru slíku, þetta hefur nú á sér yfirbragð skattlagningar. Ég held að menn yrðu að skoða það vel hvort þetta yrði útfært með þessu móti eins og hér er, en vitaskuld þarf einhvers staðar að ná inn fjármagni til reksturs þessa Fjármálaeftirlits. Það eru rök fyrir því að sá aðili sem eftirlitið beinist að greiði fyrir það.

Talað er um sérstaka kærunefnd og ég held að það þurfi að vera. Samkvæmt stjórnsýslulögum þarf náttúrlega að vera einhver leið, áfrýjunarleið. Hér er gert ráð fyrir kærunefnd sem viðskrh. skipar, þó þannig að Hæstiréttur tilnefnir nefndarmenn og formann nefndarinnar. Hann er samt skipaður af viðskrh. Það þarf hins vegar að setja ákvæði í annað hvort 17. gr. eða aðrar greinar hvað kærunefndin hefur langan tíma til úrvinnslu mála. Skoða þyrfti í nefnd hvort það væri ekki skynsamlegt svo að mál lægju ekki of lengi. Það þarf náttúrlega að vera alveg ljóst, af því að tekið er fram að úrskurði verður ekki skotið til viðskrh., að vitaskuld hljóta menn að hafa möguleika á að fara fyrir almenna dómstóla ef þeim líkar ekki niðurstaða kærunefndar.

Áfrýjunargjald upp á 120 þúsund kr. er aðgangseyririnn að réttlætinu. Þetta er alltaf stór spurning hvort hafa eigi áfrýjunargjald. Mig minnir að í nýlegri löggjöf, ég man nú ekki alveg um hvað það var, þá hefðum við fellt niður í efh.- og viðskn. ákvæði um að setja sérstakt gjald í sambandi við áfrýjun. (Gripið fram í: Samkeppnislög.) Já, það var í sambandi við samkeppnislöggjöf, áfrýjunarnefnd samkeppnislaga. Við töldum ekki rétt að menn þyrftu að greiða sérstakan aðgang fyrir æðra dómstig. Það er stór spurning og yrði að skoða það, því að eðli málsins er að við viljum að þetta standi nokkurn veginn undir sér en það eru náttúrlega ákveðin grundvallaratriði í þessu máli. Hins vegar þarf að hafa skýrt í huga að við erum náttúrlega að tala um mjög mikilvægt eftirlit og ef ákvarðanir Fjármálaeftirlits, sem eru byggðar á ströngum lögum, orka tvímælis, að það verði að skjóta þeim til kærunefndar þá er náttúrlega um að ræða mjög stór mál og mikla hagsmuni þannig að vissulega má segja að einhverjar 120 þúsund kr. í því samhengi mundu væntanlega ekki skipta máli. Eftirlitið beinist jú að mjög fjársterkum aðilum að öðru jöfnu. Það væri fróðlegt að vita, herra forseti, um fjölda starfsmanna Vátryggingaeftirlits og bankaeftirlits. Það kemur ekki fram eða ég sé það ekki í fljótu bragði.

[21:00]

Sömuleiðis væri forvitnilegt að vita hvort ákvæði varðandi biðlaun tengjast eitthvað þessu máli. Í frv. segir að þeir sem starfa hjá bankaeftirlitinu eigi rétt á stöðu hjá nýja eftirlitinu. Fróðlegt væri að vita hvaða rétt forstöðumenn bankaeftirlitsins og Vátryggingaeftirlitsins eiga. Eiga þeir rétt á sambærilegri stöðu? Ekki er sagt til um hvort það er sambærilegt en eitthvað hlýtur að hafa verið hugsað fyrir því hvernig taka skuli á, væntanlega er þarna um nokkra tugi starfsmanna að ræða. Ég held það væri fróðlegt ef hæstv. viðskrh. gæti lýst svolítið betur afkomu starfsmanna og breytingu á högum þeirra við þessa lögfestingu.

Varðandi refsiákvæði er talað um að refsa skuli með sektum eða fangelsi allt að einu ári nema þyngri ákvæði liggi við fyrir brot á öðrum lögum. Ég veit ekki hvort þetta tengist öðrum refsiákvæðum í fjármagnslöggjöf hér. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem skoða yrði og samræma gagnvart annarri löggjöf á fjármagnsmarkaði.

Herra forseti. Hjá hæstv. ráðherra kom fram að frv. byggist á vinnu sérstakrar fagnefndar sem hann skipaði. Hér er álit og greinargerð nefndarinnar birt eins og vera ber í svona frv. Hugsanlega hefur ráðuneytið gert einhverjar breytingar í lokaútfærslu, það kemur reyndar ekki fram svo ég geri ráð fyrir að þetta sé frv. eins og nefndin skilaði af sér.

Í áliti nefndarinnar vekur það hins vegar athygli að nefndarmenn eru ekki samhljóða. Fimm menn voru skipaðir í nefndina og fulltrúi Seðlabankans, einn af bankastjórum Seðlabankans, leggst gegn þessu frv. Hann leggst gegn því að bankaeftirlitið sé flutt úr bankanum. Svo ég vísi til athugasemdar fulltrúa Seðlabankans, þá segir, með leyfi forseta:

,,Með tilvísun til þess, sem hér hefur verið rakið, og annars rökstuðnings gegn sameiningu, sem fram kemur í skýrslunni, er það eindregin niðurstaða mín, að skynsamlegast sé að reka bankaeftirlitið sem deild innan Seðlabanka Íslands.``

Áður hefur verið rakið að hér sé ekki talið að um sparnað verði að ræða og þetta þrengi að starfsemi Seðlabankans. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann sé sammála þessu. Hvað segir hann um þetta álit fulltrúa Seðlabankans í nefndinni? Ég geri ekki ráð fyrir því að hann sé sammála þar sem hann leggur fram frv. Ég vildi þó mjög gjarnan að hæstv. ráðherra svaraði þeim röksemdum sem fram koma hjá bankastjóra Seðlabankans. Það er ekki síst þar sem um er að ræða flokksbróður hæstv. viðskrh. Ég geri vitaskuld ráð því fyrir að afstaða fulltrúa Seðlabankans í þessari nefnd sé byggð á faglegu mati og athugun á þeirri stöðu sem bankaeftirlitsmál þurfa að hafa hverju sinni. Því væri mjög athyglisvert að vita sjónarmið hæstv. viðskrh. varðandi þann þátt.

Að lokum, herra forseti, vil ég lýsa yfir stuðningi við frv. Ég hef vakið athygli á nokkrum atriðum sem þurfa betri skoðunar við. Frv. er vitaskuld ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk og ekki frekar fullkomið en önnur frv. hæstv. ríkisstjórnar. Ég sé þó ekki fram á annað en að með farsælli vinnu í viðkomandi þingnefnd geti menn sniðið agnúana af málinu þannig að þetta næði fram að ganga. Það yrði mikil bót í íslensku fjármálalífi.