Eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 21:07:47 (4782)

1998-03-17 21:07:47# 122. lþ. 89.7 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv., 561. mál: #A sérákvæði laga um fjármálaeftirlit# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[21:07]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Varðandi afstöðu fulltrúa Seðlabankans í nefndinni er þó einhver misskilningur á ferðinni. Hæstv. ráðherra sagði að málið þannig útbúið að þegar tengslum væri komið á félli Seðlabankinn frá hugmyndum um að koma upp öðru eftirliti. Ég held að ráðherra hafi orðað þetta á svona. Hins vegar segir alveg skýrt í athugasemd fulltrúa Seðlabankans, sem er hluti af nefndarálitinu, þegar búið var að ganga alveg frá frv., með leyfi forseta: ,,Ljóst er, að Seðlabanki Íslands getur ekki uppfyllt ofangreind ákvæði um eftirlit með bankastarfsemi, ef núverandi bankaeftirlit er frá honum tekið, nema með því að koma upp á eigin vegum öðru eftirliti með verðbréfa- og peningaviðskiptum.``

Það er alveg ljóst hvað bankastjóri Seðlabankans er að fara. Hann telur að þetta þurfi að koma fram. Hluti af nefndarálitinu er útfærsla fjármálaeftirlitsins eins og segir hér í frv. Hæstv. ráðherra er náttúrlega að segja að ekkert sé að marka þá athugasemd sem hér er eða þá að seinna hafi verið fallið frá henni. Ég veit þá ekki af hverju hún ætti að fylgja frv. Hins vegar ætla ég ekki að gera athugasemd fulltrúa Seðlabankans að sérstöku umtalsefni. Bankastjórinn er ekki á mínum vegum í þessum ágæta banka.

Hæstv. ráðherra leitar að hinni réttu niðurstöðu gagnvart afstöðu Seðlabankans til þessa frv. Hins vegar vek ég athygli á því að það er alvörumál þegar nefnd er skipuð með fulltrúa Seðlabankans og hann leggst gegn meginatriðum í útfærslunni. Það er alvörumál og ber að taka það þannig. Ég er mjög formfastur hvað þessi mál varðar, alveg burt séð frá þeim einstaklingum sem gegna bankastjórastöðum eða eru fulltrúar. Ég ætla ekki að hafa nein orð um það en mér finnst að hér hafi ekki verið gætt þeirra faglegu vinnubragða sem ég hefði kosið að gæta við gerð slíks frv.