Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):
Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að það er alvörumál þegar Seðlabankinn gerir athugasemdir eins og þær sem gerðar eru í fylgiskjali með þessu frv. Þegar skýrslan er skoðuð og borin saman við frv. ætti hv. þm. að sjá að það er nokkur breyting á því hvernig frv. er lagt fram á Alþingi og þeirra tillagna sem fyrir lágu í nefndarstarfinu. Í nefndarstarfinu er gert ráð fyrir að fjármálaeftirlitið verði algjörlega sjálfstætt, á engan hátt háð Seðlabankanum eða í tengslum við Seðlabankann. Meginathugasemdir bankastjóra Seðlabankans, Steingríms Hermannssonar, gengu út á þetta, og hann varaði við því að þarna yrði algerlega skorið á tengslin. Hann benti um leið á það að bankinn þyrfti hugsanlega að koma sér upp eftirliti til að hafa eftirlit með fjármálastofnunum eins og innlánsstofnunum. Þegar frv. er skoðað og breytingar frá skýrslunni metnar, kemur það hins vegar í ljós í 14. gr. frv. sem fjallar um samskipti við Seðlabanka Íslands, ég vitna þar í 2. mgr., með leyfi forseta: ,,Fjármálaeftirlitið skal veita Seðlabankanum allar upplýsingar sem stofnunin býr yfir og nýtast í starfsemi bankans. Komi í ljós grunsemdir um bresti í fjárhagslegri stöðu eftirlitsskyldra aðila, sem eru í viðskiptum við Seðlabankann, skal Fjármálaeftirlitið tafarlaust gera bankastjórn Seðlabankans viðvart.``
Auk þessa segir í 3. mgr.: ,,Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessari grein eru háðar þagnarskyldu samkvæmt þessum lögum og lögum um Seðlabanka Íslands.``
Þessar tvær málsgreinar tryggja, ásamt mörgum öðrum smávægilegum og tæknilegum athugasemdum sem Seðlabankinn gerði við frv. í vinnslu, að Seðlabankinn leggst ekki gegn málinu eins og það er nú. Vegna 14. gr. er talið tryggt að bankinn þurfi ekki að koma upp eigin eftirliti, sem væri tvíverknaður. Þar af leiðandi get ég fullyrt að Seðlabankinn, eins og ég hef sagt áður, leggst ekki gegn málinu og í frv. kristallast það sem lagt var til í skýrslunni.