Ágúst Einarsson (andsvar):
Herra forseti. Það má vel vera að hæstv. viðskrh. telji sérstaka ástæðu til að bera blak af fulltrúa Seðlabankans í þessu nefndarstarfi. Það er þá ákvörðun hans en ég vil vekja athygli á því sem segir á bls. 20 í fskj. I með frv. sem er skýrsla fyrrgreindrar nefndar, með leyfi forseta:
,,Með sameiningu í einni sjálfstæðri stofnun mun Seðlabanki Íslands ekki hafa sjálfkrafa og beinan aðgang að upplýsingum um afkomu fjármálastofnana sem hann hefur haft og þarf að hafa. Því þarf að huga sérstaklega að starfstengslum slíkrar stofnunar við Seðlabanka Íslands. Nauðsynlegt er að tryggja að Seðlabankinn geti í starfsemi sinni nýtt sér þær upplýsingar sem aflað er innan eftirlitsstofnunarinnar og að Seðlabankinn og hún geti nýtt sér með gagnkvæmum hætti þá starfsreynslu og þekkingu sem jafnan verður til innan stofnananna.`` --- Þetta er einmitt það sem fjallað er um í 14. gr. frv. Síðan segir: ,,Því er lagt til að Seðlabanki Íslands tilnefni einn mann í stjórn eftirlitsstofnunar.``
Það er augljóst, herra forseti, að allar þær ábendingar sem fram koma í athugasemdum hjá fulltrúa Seðlabankans eru í fullu gildi þegar skýrslan er skoðuð. Það er ekki hægt að segja eftir á að allt hafi breyst við 14. gr. þar sem 14. gr. stendur í frv. Fulltrúi Seðlabankans gerði samt þessa athugasemd og lagðist gegn frv.
Herra forseti. Það þarf að lesa skýrsluna og lesa út úr skýrslunni viðkomandi lagagreinar. Það er ljóst að fulltrúi Seðlabanka Íslands lagðist gegn þessu frv. og meginatriðum þess eins og þau endurspeglast síðar í lagatextanum. Ég skil ósköp vel að hæstv. viðskrh. vilji sem minnst vita af þessari afstöðu Seðlabanka Íslands hvað þetta mál varðar. Hann vill halda sig við það að Seðlabankinn styðji þetta mál eins og það er lagt fram. Það fer kannski betur á að hafa það þannig og ég efast svo sem ekkert um það. Samt sem áður endurtek ég það, herra forseti: Það er alvörumál þegar skipaður er fulltrúi í nefnd til að gera tillögu um fjármálaeftirlit og menn eiga að starfa þannig að skýrt sé þannig að hægt sé að taka tillit til allra sjónarmiða þegar málin eru lögð fram. Það hefði ekkert verið á móti því þótt frv. hefði komið fram og náð fram að ganga af hálfu hæstv. ráðherra, jafnvel þótt Seðlabankinn væri með athugasemdir við það. Það væri ekkert óeðlilegt við það.