Eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 21:15:23 (4785)

1998-03-17 21:15:23# 122. lþ. 89.7 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv., 561. mál: #A sérákvæði laga um fjármálaeftirlit# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[21:15]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta mál sem hér er til meðferðar á sér mjög langan aðdraganda. Oft áður hefur verið rætt á Alþingi um nauðsyn þess að styrkja þessar eftirlitsstofnanir sem hér er verið að fjalla um. Það er ekkert nýtt mál. Það er gamalt mál. Ég man ekki betur en það hafi t.d. verið rætt sérstaklega þegar seðlabankalögin voru sett, þau sem nú eru í gildi. Ég man eftir að við fluttum þá, ég og hv. þáv. þm., Jón Baldvin Hannibalsson, tillögu um að bankaeftirlitið yrði styrkt sérstaklega, tekið út úr Seðlabankanum og gert að sjálfstæðri stofnun. Fyrir því voru margvísleg rök því við töldum að bankaeftirlitið gæti miklu betur sinnt sínum skyldum ef það væri sjálfstæð stofnun. Í tengslum við þær miklu breytingar sem síðar hafa orðið á vátryggingastarfseminni ræddu menn um að jafnvel væri eðlilegt að vátryggingastarfsemin eða eftirlit með henni tengdist einnig þessu eftirliti með bönkunum. Hér er því um að ræða gamla umræðu í þessari stofnun sem er út af fyrir sig kunnugleg og þar af leiðandi ekki þess vegna í sjálfu sér ástæða til að hafa um það miklar umræður. Ég vil hins vegar segja fyrir mitt leyti að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það gæti verið skynsamlegt að slík fjármálaeftirlitsstofnun væri til og hún væri bæði með bankana og vátryggingarnar. Ég held ég hafi hreyft því margoft á undanförnum árum á mínum þingferli. Hins vegar verð ég að segja eins og er að ég tek eftir þessum ábendingum bankastjóra Seðlabankans sem hér eru birtar og ég geri ekki lítið úr þeim eins og fram mun koma í máli mínu á eftir. Ég tel að þetta séu algerlega gildar ábendingar sem fram koma hjá Steingrími Hermannssyni og full ástæða til að taka mark á þeim og íhuga þær og ég hvet til þess að hv. efh.- og viðskn. velti því mjög vandlega fyrir sér hvort þær athugasemdir eru gildar þrátt fyrir þær ábendingar, eða breytingar öllu heldur, sem mér sýnist að hafi orðið í ferli málsins, á 14. gr. frv. eða umbúnaði hennar, miðað bæði við texta greinarinnar og greinargerð frv.

Hins vegar verð ég að segja, herra forseti, að við þær sviptingar sem hér eru að verða á fjármálamarkaðnum veltir maður því kannski fyrir sér núna frekar en fyrir tíu árum eða svo, hvort svona stofnun eigi að vera ein. Mér finnst satt að segja að þessi þvælingur bankanna inn á tryggingasviðið sé nokkurt umhugsunarefni og mér finnst kannski að það geti gilt dálítið önnur rök í þessu máli núna en gerðu fyrir 10--12 árum meðan bankarnir voru alfarið ríkisstofnanir. Mér finnst sem sagt að það komi til greina --- a.m.k. vil ég fyrir mitt leyti opna fyrir þá hugsun --- m.a. eftir þessar ábendingar frá Steingrími Hermannssyni, hvort ekki sé í raun skynsamlegt að velta því fyrir sér að hérna verði um tvær eftirlitsstofnanir að ræða fyrst og fremst vegna þess að mikilvægt er að menn rugli ekki saman hagsmunum, annars vegar sparifjáreigenda eða þeirra sem skipta við bankana og skuldara og hins vegar þeirra sem tryggja hjá tryggingafélögunum. Ég held að þetta séu býsna ólíkir hagsmunir að mörgu leyti og menn eigi kannski ekki að grauta því saman meira en brýna nauðsyn ber til.

Nú eru það flutt sem rök með þessu frv. að þetta sé þegar orðið svona víða og ég út af fyrir sig horfi alveg á það, mér finnst það alveg fullgild rök. Ég bendi á að hér er að verða til nokkuð mikil stofnun, 200 millj. kr. stofnun. Þetta er ekkert smáfyrirtæki sem hér er að verða til.

Ég vík því næst í framhaldi af þessum orðum mínum að þeim ábendingum sem fram koma í skjalinu á bls. 21, þar sem Steingrímur Hermannsson bankastjóri segir svo, með leyfi forseta:

,,Ljóst er, að Seðlabanki Íslands getur ekki uppfyllt ofangreind ákvæði um eftirlit með bankastarfsemi, ef núverandi bankaeftirlit er frá honum tekið, nema með því að koma upp á eigin vegum öðru eftirliti með verðbréfa- og peningaviðskiptum.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Einnig vil ég leggja áherslu á að ég dreg í efa að um nokkurn sparnað verði að ræða með sameiningu bankaeftirlits og vátryggingaeftirlits. Hin sameinaða stofnun hlýtur að starfa í tveimur mjög sjálfstæðum deildum,`` --- eða er ekki svo? Ég spyr hæstv. ráðherra að því --- ,,því eftirlitsverkefnin eru að flestu leyti ólík, eins og fram kemur í skýrslunni.``

Skýrslan sem hann er að vitna til er skýrsla ákveðinnar nefndar sem undirbjó þetta frv. Síðan heldur Steingrímur Hermannsson áfram, með leyfi forseta:

,,Bankaeftirlitið nýtur hins vegar verulegs hagræðis af ýmiss konar annarri starfsemi Seðlabanka Íslands. Auk þess hlýst af því viðbótarkostnaður, að Seðlabankanum mun verða nauðsynlegt að koma á fót einhvers konar beinu eftirliti með verðbréfa- og peningastofnunum, eins og fyrr segir.

Með tilvísun til þess, sem hér hefur verið rakið, og annars rökstuðnings gegn sameiningu, sem fram kemur í skýrslunni, er það eindregin niðurstaða mín, að skynsamlegast sé að reka bankaeftirlitið sem deild innan Seðlabanka Íslands.``

Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir að birta síðan skjöl málsins þannig að hægt er að skoða þau nákvæmar. Á bls. 38 og 39 í frv. koma fram þau sjónarmið sem mæla gegn sameiningu núverandi eftirlitsstofnana. Það er í fyrsta lagi það að starfsemi Vátryggingaeftirlitsins er að sumu leyti eðlisólík starfsemi bankaeftirlitsins eins og hér sagði áður og ég ætla ekki að rekja frekar.

Í öðru lagi, með leyfi forseta: ,,Því hefur verið haldið fram að sameinuð eftirlitsstofnun hafi síður möguleika en aðskildar stofnanir til að þróa og búa yfir fjölbreytni og sérþekkingu í eftirlitsstörfum sínum.`` Þetta finnst mér mikilvæg ábending.

Í þriðja lagi, með leyfi forseta: ,,Erlendis hefur þróunin orðið sú að til hafa orðið fyrirtæki sem sinna ýmsum tegundum fjármálaþjónustu, bjóða t.d. vátryggingarsamninga sem bæði fela í sér líftryggingu og fleiri persónutryggingar og að annast ávöxtun á hluta iðgjaldanna í formi sparnaðar, en á áhættu vátryggingartakans, að því er best verður séð.`` Hér er dregið í efa að skynsamlegt sé að fara þessa leið.

Í fjórða lagi segir í upphafi 4. tölul. á bls. 39, með leyfi forseta: ,,Bent hefur verið á að ekkert gjaldþrot hjá frumtryggingafélagi hér á landi hefur átt sér stað frá því að Vátryggingaeftirlitið tók til starfa fyrir rúmum 22 árum.`` Ég verð nú að játa að ég hef bara ekki tekið eftir þessu. Mér finnst þetta stórmerkilegt og meðmæli með Vátryggingaeftirlitinu.

Í fimmta lagi segir, með leyfi forseta: ,,Sú skoðun hefur komið fram að hvorki séu augljós fjárhagsleg rök né hagkvæmnirök fyrir því að sameina eftirlitsstofnanirnar.``

Fleiri rök eru tínd til og niðurstaðan er sem sagt sú að bankastjóri Seðlabankans, sem hefur með þessi mál að gera, leggur til að stofnanirnar verði ekki sameinaðar.

Nú verð ég að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst þetta kannski vera miklu frekar tæknilegt úrlausnarefni og að menn eigi bara að reyna að gera þetta eins vel og mögulegt er þannig að það verði almennilegt eftirlit með þessari starfsemi og þá held ég að mikilvægt sé að menn séu ekki að rugla saman tvenns konar hagsmunum. Hitt er annað að Steingrímur Hermannsson bankastjóri er náttúrlega enginn venjulegur bankastjóri vegna þess að hann hefur meiri reynslu í stjórnmálum en nokkur annar maður, a.m.k. nokkur annar maður sem situr á bankastjórastóli. Mér finnst þess vegna full ástæða til að hlusta á hann. Svo er hitt líka mikilvægt að ég veit ekki betur en Steingrímur Hermannsson sé sá bankastjóri sem hefur með að gera bankaeftirlitið og er yfirmaður þess þannig að hann talar hér alveg af aukavigt því hann þekkir vel til þessarar stofnunar. Ég veit ekki betur en bankaeftirlitið sé meginþáttur í starfsemi þessa bankastjóra, að þessi bankastjóri hafi fátt annað sérstaklega á sinni könnu, fyrir utan kannski starfsmannamál, (Gripið fram í: Umhverfismál.) en bankaeftirlitið sjálft og eftirlitið með peningastofnunum. (RG: Hann er að hætta.) Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að velta því fyrir sér í fullri alvöru í fyrsta lagi: Eru þetta réttar ábendingar? Það á auðvitað að skoða það. Nefndin skoðar það. En í öðru lagi: Ef þetta verður tekið út úr Seðlabankanum, er þá nokkur ástæða til að hafa þrjá bankastjóra? Er þá ekki staðan sú að verið sé að leggja niður verkefni þriðja bankastjórans, þ.e. Steingríms Hermannssonar? Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. og viðskrh. hvort þetta sé til marks um að hann ætli ekki að láta endurráða í starf þriðja bankastjórans þegar Steingrímur Hermannsson lætur af því starfi núna á miðju þessu ári? (RG: Góð spurning.) Vegna þess að um leið og það gerist að meiri hluti starfsins er fluttur út, er þá nokkur ástæða til að hafa mann í því?

Nú þekkja sumir hér í salnum miklu betur til í Seðlabankanum en ég, eins og hv. 11. þm. Reykn. sem hefur af þeim málum mikla reynslu þótt hann beri enga ábyrgð á Steingrími Hermannssyni eins og hann sagði áðan --- sem bankastjóra á ég við. --- Það breytir hins vegar ekki því að hér erum við komin að mikilsverðum punkti. Maður veltir því líka fyrir sér út frá texta þessa frv. hvort það sé kannski að einhverju leyti búið að hugsa fyrir því hver eigi að taka að sér yfirstjórn þessarar nýju stofnunar. Ég hef aldrei frétt af nokkurri stofnun eða nefnd, hvorki húsnæðisnefnd eða yfirleitt nokkru, sem flutt eru stjórnarfrv. um hér öðruvísi en að áður sé búið að finna það út hver eigi að fá hvað og að flokkarnir séu búnir að skipta því á milli sín. Hver á að fá þennan bita að vera forstjóri í þessari stofnun? Hæstv. ráðherra getur sagt við mig á eftir að þessi stofnun verði óvenju óháð ráðherranum þannig að hann hafi minni völd yfir henni en oft er með stofnanir af þessu tagi og ég tel að það sé mjög mikilvægt sem fram kemur í greinargerð frv., að þar er aftur og aftur undirstrikuð nauðsyn þess að þessi stofnun sé faglega sjálfstæð og eins, mér liggur við að segja, langt frá armi ráðherrans og mögulegt er því hún verður að geta gegnt sínu eftirlitshlutverki algerlega undanbragðalaust, hvort sem um er að ræða vátryggingastarfsemina eða bankaeftirlitið. En ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Er það hér á ferðinni að þetta frv. boði endurskipulagningu á bankastjórn Seðlabankans? Það var verið að tala um það fyrir nokkrum missirum að skynsamlegt væri að hafa þar bara einn bankastjóra og það var verið að tala um að skynsamlegt væri að hafa bara einn bankastjóra í ríkisbönkunum, hlutafélagabönkunum sem nú eru. En svo lenti það nú eins og menn þekkja. En boðar þetta frv. breytingu á bankastjórn Seðlabankans við það að Steingrímur Hermannsson hættir og við það að verið er að flytja fjármálaeftirlitið út úr stofnuninni? Þýðir það þá að bankastjórarnir verði bara tveir og þessir sem eru þarna núna verði taldir fullfærir um að stjórna þessari ,,sjoppu`` þegar verkefnin verða komin annað?

Ég held að það væri mjög æskilegt að hæstv. viðskrh. svaraði þessum spurningum um leið og ég legg á það áherslu að hv. efh. og viðskn. vandi sig mjög við þetta mál. Mér finnst ekkert einboðið að þetta verði hjá einni stofnun, m.a. vegna þess að ég tel að ekki gildi sömu rök um þessi mál og gerðu fyrir nokkrum árum, aðallega af því að þessar stofnanir eru ekki lengur ríkisstofnanir, bankarnir eins og þeir voru. Ég tel því að menn eigi að velta því mjög alvarlega fyrir sér hvort það sé ekki gömul hugsun að endilega eigi að tengja þessar stofnanir saman í eina og hvort ekki sé hætta á því að menn grauti saman hagsmunum vátryggingartakanna, vátryggingarþeganna annars vegar og sparifjáreigendanna og skuldaranna hins vegar.