Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):
Herra forseti. Ég sé ástæðu til að koma upp undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að boðaður hefur verið fundur í hv. efh.- og viðskn. á morgun. Það var umtalað að efh.- og viðskn. mundi funda allan daginn á morgun og fram á fimmtudag og var rætt um það mál við forseta þingsins. Síðan sé ég á dagskrá fundarins eins og hún er sett upp, væntanlega af formanni efh.- og viðskn., að fyrstu fjögur málin eru mál sem þegar eru í nefndinni. En síðan koma málin: Tekjuskattur og eignarskattur, tvö mál, 524. mál og 553. mál; 552. mál, Bindandi álit í skattamálum og 547. mál, Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur. Þetta eru mál sem voru til umræðu fyrr í kvöld. Ég vil því spyrja: Verður þá atkvæðagreiðsla í kvöld um að vísa þessum málum til nefndarinnar því það er ófrávíkjanleg regla í störfum efh.- og viðskn. að hún tekur ekki mál til umfjöllunar sem ekki hefur verið vísað til hennar?
Eftir hádegi er síðan gert ráð fyrir því að öll þau mál sem hæstv. ráðherra er að tala fyrir núna og er ekki búinn að tala fyrir, verði til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. Ég er að nefna þetta af því að maður vill greiða fyrir störfum þingsins og vegna þess að umtalað var að efh.- og viðskn. fundaði allan daginn á morgun og spyr því hvort fyrirhuguð sé atkvæðagreiðsla síðar í kvöld þannig að þessi mál --- ég geri ráð fyrir að einhverjum þeirra ljúki, kannski ekki öllum --- komist þá formlega til nefndarinnar og hún geti fjallað um málin.