Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):
Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að Steingrímur Hermannsson seðlabankastjóri er enginn venjulegur seðlabankastjóri. Það er hárrétt og þess vegna var það að við tókum sérstaklega tillit til þeirra athugasemda sem bankastjórinn gerði í nefndarstarfinu. Ég sá hins vegar að hv. þm. Svavar Gestsson áttaði sig á því hvernig þetta nefndarstarf hafði gengið fyrir sig, hvernig að þessu máli var staðið. En mér fannst gæta örlítils misskilnings hér í umræðunni hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni áðan og vil ég skýra það nákvæmlega.
Þannig var að ég skipaði nefnd sem hafði það hlutverk að kanna möguleika á því að sameina bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið. Nefndin skilaði af sér þeirri skýrslu sem er fylgiskjal með þessu frv. Nefndin skilaði ekki af sér neinu frv. Þar af leiðandi snúa athugasemdir Steingríms Hermannssonar bankastjóra Seðlabankans ekki að efnisatriðum frv. heldur efnisatriðum skýrslunnar eins og hún lá fyrir á þeim tíma.
En það sem ég hef sagt hér og vil endurtaka enn er að við tókum tillit til allra þeirra athugasemda sem komu frá Seðlabankanum þegar við unnum frv. og undirbjuggum framlagningu þess á Alþingi. Þá ræddum við við fulltrúa Seðlabankans, við ræddum við fulltrúa allra þeirra fyrirtækja sem starfandi eru á fjármagnsmarkaðnum og kynntum málið fyrir þeim til að kanna hvort stuðningur væri við málið eða ekki. Og það var stuðningur við málið frá öllum þessum aðilum. Þessar breytingar birtast m.a. í 14. gr. frv. og 4. gr. frv., þeim athugasemdum sem Seðlabankinn gerði og þeim athugasemdir sem fram koma við skýrsluna hjá Steingrími Hermannssyni.
Við höfum átt mjög náið og gott samstarf við Seðlabankann í að reyna að koma þessu máli áfram og ná sæmilegri sátt um það. Það er of mikið að segja eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sagði áðan, að Seðlabankinn styddi málið. Ég sagði hér og vil ítreka aftur: Seðlabankinn stendur ekki að málinu með stuðningi heldur er það svo að hann gerir ekki athugasemdir við framlagningu frv. Á þessu er nokkur munur.
Það er hins vegar afstaða Seðlabankans, var til skamms tíma og er kannski enn, að nauðsynlegt sé að hafa bankaeftirlitið áfram starfandi innan Seðlabankans. Það varð hins vegar niðurstaða mín og ríkisstjórnarinnar að leggja málið þannig að Fjármálaeftirlitið verður sjálfstætt eftir sameiningu. Á þessu er nokkur munur.
Hv. þm. Svavar Gestsson kom inn á samstarf tryggingafélaganna og var farinn að efast um að skynsamlegt væri að sameinast í einu eftirliti. Ég tel rökin vera einmitt þau að með auknu samstarfi vátryggingafélaga --- tryggingafélaga vil ég nú öllu heldur kalla þetta --- og viðskiptabankanna þá sé mikilvægt að sameina eftirlitið.
Ég tek dæmi af því að það er vel þekkt: Landsbanki Íslands hf. á innan tíðar 50% í Vátryggingafélagi Íslands. Mér fyndist óeðlilegt að bankaeftirlitið þyrfti bæði að skoða Vátryggingafélagið og Landsbankann, og Vátryggingaeftirlitið þyrfti líka að skoða Landsbankann og Vátryggingafélagið. Þess vegna er miklu eðlilegra að hafa þetta undir einu eftirliti, samræmdu eftirliti sem gerir þessa hluti öruggari og tryggari en hefur verið. Þetta finnst mér vera meginrökin fyrir sameiningu.
Síðan varðandi önnur atriði sem hv. þm. Svavar Gestsson kom inn á. Hann spurði hvort þetta væri liður í því að bankastjórum Seðlabankans ætti að fækka. Steingrímur Hermannsson verður sjötugur í júní á þessu ári og lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gera ráð fyrir því að þeir hætti næstu mánaðamót eftir að hafa náð 70 ára aldri. Til þess að gera breytingar á þessu, þ.e. á því hversu margir bankastjórar skuli vera starfandi við Seðlabankann þarfa að breyta lögunum um Seðlabankann. Það er ekki gert ráð fyrir því að þær breytingar verði gerðar þannig að eftir sem áður er gert ráð fyrir því að starfandi verði þrír bankastjórar við Seðlabankanna.
Og af því að hv. þm. Svavar Gestsson orðaði það svo að Steingrímur Hermannsson væri engum líkur sem slíkur, sem bankastjóri og afkastamaður mikill, þá tel ég alls ekki fært að fækka bankastjórunum vegna þess að þar er að standa upp úr stóli mikill afkastamaður til verka. Og þrátt fyrir það að eftirlitið fari út úr bankanum þá þarf sennilega fleiri menn til að taka við af honum í því starfi.
Þegar formbreyting Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og ríkisviðskiptabankana átti sér stað komu m.a. hér í ræðustólinn hv. þm. Svavar Gestsson og fleiri hv. þm. og voru með alls konar spádóma um það hverjir tækju nú við þessum bankastjórastöðum sem þarna væri verið að útbúa fyrir hina og þessa stjórnmálamennina og margir voru til nefndir. Sá sem harðast gekk fram í þessu öllu saman held ég að hafi nú verið hv. þm. Ágúst Einarsson sem var búinn að útbúa bankastjórastöður fyrir, ég held, allflesta ráðherrana í ríkisstjórninni. Hver er nú niðurstaðan af þessu öllu saman þegar upp er staðið og búið er að ganga frá ráðningu á öllum þessum bankastjórum? Enginn einasti stjórnmálamaður hefur verið ráðinn í þessar stöður, en spádómarnir gengu allir út á að í þær ætti að ráða stjórnmálamenn. Þess vegna get ég sagt við hv. þm.: Hafið ekki áhyggjur af þessu, þó þetta valdi ykkur miklum áhyggjum. Þetta mun verða mjög svipað og nú og hefur gerst og reynslan sýnir. Við skulum ekki velta okkur mjög mikið upp úr því við þessa umræðu að þarna sé verið að útbúa stöður fyrir hina og þessa. Það er ekki háttur þessarar ríkisstjórnar að starfa þannig. Það hefur komið í ljós við öll þau mál sem hér hafa komið inn og menn hafa verið með vangaveltur um.
Það hefur bæði komið fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni og Ágústi Einarssyni að hérna sé ekki um nýtt mál að ræða. Það er hárrétt. Hér er ekki um nýtt mál að ræða, ekki nýja hugmynd eða nokkurn skapaðan hlut. Þetta er allt saman vel þekkt og það hefur verið á stefnuskrá margra stjórnmálaflokka að þetta sé skynsamlegt að gera enda hefur umræðan verið slík að ég heyrði það á báðum hv. þm. sem hér hafa talað að þeir styðja málið í grundvallaratriðum. Þeir eru með einstakar athugasemdir sem ég tel rétt að verði skoðaðar í nefnd. Munurinn er hins vegar sá á þessari ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnum að þessi ríkisstjórn er að framkvæma það sem allir hafa verið að tala um, nákvæmlega það sama. Menn töluðu í tíu ár um að sameina ætti fjárfestingarlánasjóði atvinnulífsins. En engin ríkisstjórn gerði það. Það er þessi ríkisstjórn sem gerði það og hefur lokið því starfi. Allir töluðu um að það ætti að breyta formi ríkisviðskiptabankanna, Landsbankans og Búnaðarbankans. Menn töluðu um það í tíu ár líka en enginn gerði það fyrr en þessi ríkisstjórn gerði það. Munurinn á því sem menn hafa verið að ræða um og ekkert hefur gerst í og því sem þessi ríkisstjórn er að gera, er að hún framkvæmir það sem hún talar um að þurfi að gera.