Vextir, dráttarvextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 22:09:30 (4796)

1998-03-17 22:09:30# 122. lþ. 89.13 fundur 562. mál: #A vextir, dráttarvextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[22:09]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er spurning hvað orðið hefur af ráðherranum, hvort hann er kannski bara sofnaður. Já, mér heyrist það.

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er sammála þeirri tillögu sem hv. 11. þm. Reykn. gerði grein fyrir áðan. Svo ég rifji það kannski upp þá hafa menn um langt árabil flutt svipaðar tillögur, t.d. hv. þm. Eggert Haukdal og Eyjólfur Konráð Jónsson. Ég hygg líka að hv. þm. Steingrímur Hermannsson hafi einu sinni skrifað upp á slíka tillögu eftir að hann varð forsrh.

Hins vegar má halda því fram að aðstæður varðandi verðtryggingu fjárskuldbindinga séu allt aðrar nú en voru þá. Segja mætti að menn hafi haft nokkuð til síns máls þegar þeir á sínum tíma hikuðu við að slá því föstu á að afnema ætti eða banna verðtryggingu fjárskuldbindinga. Hv. 11. þm. Reykn. sagði áðan að aðstæður væru nú orðnar þannig að algjörlega fráleitt væri að halda í þessa verðtryggingu og það væru engin marktæk rök fyrir því lengur.

Rökin sem notuð voru í þessu efni fyrir nokkrum árum þegar aðstæður voru öðruvísi á peningamarkaði voru t.d. þau að það mundi hafa í för með sér hærri vexti ef áhættan væri öll í viðskiptunum og ekki um verðtryggingarbindingu að ræða. Þessi rök geta verið gild undir vissum kringumstæðum en aðstæður eru nú aðrar í þeim efnum þannig að ekki er ástæða til að ætla að afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga hefði í för með sér stórkostlegar vaxtahækkanir. Ég útiloka það þó ekki, herra forseti, að einhverjar vaxtahækkanir gætu orðið til að byrja með en ég sé ekki að neitt bendi til þess að það hefði varanleg áhrif. Ég tek undir orð hv. þm. í þeim efnum.

Ég held að það sé fróðlegt af þessu tilefni, herra forseti, að rifja það upp hvernig verðtryggingarsagan er orðin. Ég hugsa að það hafi fyrst verið 1966 að viðreisnarstjórnin innleiddi verðtryggt sparnaðarform varðandi lántökur fyrir ríkið. Mig minnir að það hafi heitið öðru nafni en spariskírteini á þeim tíma. Eins minnir mig að þáv. hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, hafi beit sér fyrir verðtryggingu á nýjan leik. Menn voru mjög uggandi yfir því að taka upp verðtryggingu hér og vísuðu þá til þess að þá hefði verðtrygging verið heimiluð í örfáum öðrum löndum. Í sumum löndum var verðtrygging fjárskuldbindinga á þeim tíma beinlínis bönnuð með pósitífum lagaákvæðum.

Þegar verðbólgan keyrði um þverbak á árunum eftir 1970, olíukreppan skall yfir og víxlverkanir launa og verðlags urðu sem svakalegastar, þá var auðvitað alveg ljóst að sparifé landsmanna, m.a. eignir lífeyrissjóðanna voru að brenna upp og verða að engu. Það er augljóst mál. Þá voru settar fram um það kröfur af ýmsum aðilum eins og t.d. Alþfl., sem var þá aðili að vinstri stjórninni, 1978--1979, um að taka upp verðtryggingar. Það var í raun og veru mjög hörð krafa frá þáv. hv. þingmönnum Alþfl., ég hygg jafnvel hv. þm. Ágústi Einarssyni á þeim tíma. Við alþýðubandalagsmenn vorum mjög hikandi í þessum efnum en þó varð niðurstaða okkar sú að fallast á að setja verðtryggingarkaflann inn í Ólafslög.

Það er dálítið merkilegt. Ég hef oft hugsað um það síðan að þegar Ólafslögin voru hér til meðferðar þá ræddu menn aldrei um verðtryggingarkaflann. Um verðtryggingarkafla fjárskuldbindinga var aldrei sérstök umræða hér í þinginu. Umræðan var fyrst og fremst um vísitölubæturnar og það hvernig með þær yrði farið á þeim tíma. Umræðan um þá byltingu sem í raun og veru fólst í verðtryggingarkafla Ólafslaga var hverfandi lítil í þessari stofnun.

Ég er sannfærður um að þessi breyting með verðtrygginguna var algerlega óhjákvæmileg á sínum tíma. Hún var óhjákvæmileg og bjargaði lífeyrissjóðunum. Vegna hennar standa lífeyrissjóðirnir jafn vel og þeir standa í dag.

Verðtryggingin, herra forseti, hafði einnig í för með sér hraðari víxlverkun í efnahagskerfinu. Það þýddi meiri verðbólgu til að byrja með. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem vorið 1983 hjó á vísitölu á laun en lét vísitöluna spinna áfram á fjárskuldbindingar, fór mjög illa með skuldara í þessu þjóðfélagi og alveg sérstaklega húsbyggjendur, eins og kunnugt er.

[22:15]

Þá varð til mikil hreyfing húsbyggjenda sem glímdi eitt kjörtímabil eða svo við þáv. hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson.

Það sem tók steininn úr í sambandi við vaxtaþróun hér á landi var auðvitað að vextir voru gefnir algerlega frjálsir þrátt fyrir ákvæði laga. Það gerðist sumarið 1984. Þá var uppi nokkur vandi í sjávarútveginum og mig minnir að verkfall hafi staðið yfir. Að minnsta kosti var það þannig að þáverandi stjórnarflokkar, sem voru þeir sömu og í dag, Framsfl. og Sjálfstfl., gerðu samninga um að það ætti að gera vissar ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Þáv. sjútvrh. var Halldór Ásgrímsson. Jafnframt var vélað um að þáv. forsrh. fjarstöddum, sem var mjög óvenjulegt, að vextir yrðu gefnir frjálsir frá og með í ágúst 1984. Ég man eftir því að þessi forsrh., sem var þá staddur í Bandaríkjunum, taldi að nokkuð væri sérkennilega að hlutunum staðið og lét það koma fram að hann hefði aldrei sjálfur tekið ábyrgð á ákvörðuninni. Þessi forsrh. Íslands kom við sögu fyrr í kvöld í merku máli sem snerti aðeins eftirlit með fjármálastofnunum.

Sú vaxtasprengja sem varð upp úr árinu 1984 kollvarpaði fjárhag heimila og fyrirtækja hér í landinu í stórum stíl. Það væri fróðlegt ef menn fengjust til þess einhvern tíma að skrifa sögu áhrifanna af þessari gífurlegu vaxtasprengju. Allan þann tíma sem í hönd fór frá 1984--1989, í hálfan áratug eða svo, voru menn að ræða um hvort ákveða ætti vexti með handafli eða láta markaðinn um að ákveða þetta.

Að nokkru leyti má segja að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafi sprungið á þessu máli vegna þess hvernig aðstæður voru þá í atvinnulífinu. Það var þá þannig að í þeirri ríkisstjórn beitti hæstv. þáv. utanrrh. sér fyrir því að það var tekið á dagskrá að stjórna vöxtum með handafli. Sú umræða er mjög eftirminnileg vegna þess að í henni fullyrtu ýmsir, þar á meðal við alþýðubandalagsmenn og tókum undir með þessum hæstv. ráðherra, að hægt væri að stýra vöxtum frekar með handafli en gert hafði verið.

Á grundvelli þess voru sett lög í ríkisstjórninni 1988--1991 um breytingu á seðlabankalögum þar sem var um mjög merkilegt ákvæði að ræða en frá því segir á bls. 6 í þessu þingskjali sem við erum að ræða. Það segir svo, með leyfi forseta:

,,Árið 1989 var bætt við lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, ákvæði sem heimilar bankanum að fengnu samþykki viðskiptaráðherra að hlutast til um vexti banka og sparisjóða í því skyni að tryggja að raunvextir útlána verði hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana.``

Eins og menn sjá af þessum texta þá er hann býsna hlaðinn merkingu. Þáverandi stjórnarandstaða Sjálfstfl. nýtti sér þennan texta til ótrúlegra ræðuhalda í báðum deildum þingsins á þeim tíma.

Hér segir síðan í framhaldi í greinargerð viðskrh. hæstv. um þetta mál:

,,Þrátt fyrir mikla umræðu um vaxtamál af og til á liðnum árum og fullyrðingar um að vextir hér á landi séu mun hærri en í útlöndum hefur ekki verið talin ástæða til að beita þessu lagaákvæði.``

Staðreyndin er sú, herra forseti, að þetta lagaákvæði 1989 var sett í bullandi ágreiningi við Seðlabankann. Seðlabankinn var fullkomlega andvígur þeirri stefnu sem þáv. ríkisstjórn mótaði í vaxtamálum. Aftur og aftur var knúið á um það að þessu ákvæði yrði beitt en Seðlabankinn setti sig raunverulega þversum í þeim efnum.

Menn hafa stundum talað um að Seðlabankinn væri ósjálfstæður og hann væri undir hælnum á ríkisstjórninni. Það er ekki að öllu leyti rétt. Það kom fyrir aftur og aftur á þessum verðbólgutímum, verðbólguáratugum, að Seðlabankinn beitti sér hvað eftir annað gegn því að þessu nýja ákvæði laganna frá 1989 yrði beitt.

Síðan gerist það í framhaldi af þjóðarsáttinni miklu að það tekst að lækka verðbólguna, almenningur í landinu tekur á sig launalækkun með samningum sem gerðir eru og við stöndum frammi fyrir nýju verðbólgustigi og viðráðanlegu efnhagsumhverfi að þessu leytinu til. Þess vegna er það 100% rétt hjá hv. 11. þm. Reykn. að það á að banna verðtryggingu fjárskuldbindinga héðan í frá, það eru engin rök fyrir henni framar. Það eru engin rök fyrir því að orða það þannig eins og gert er hér í 15. gr. Það er eiginlega verra en ekkert. Vegna þess að hér stendur, með leyfi forseta:

,,Seðlabankanum er heimilt að fengnu samþykki ráðherra að ákveða að óheimilt sé að verðtryggja innlánsfé og hvers konar lánsfé samkvæmt samningum um lánveitingu sem stofnað er til eftir nánar tiltekinn tíma eða ef lán er afhent eftir hinn tiltekna tíma.``

Ég segi eins og er, herra forseti, ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. viðskrh. greini okkur frá því hvaða afstöðu hann hefur í þessu efni núna við umræðuna. Er hann eða ríkisstjórnin tilbúin til þess að taka þátt í því ásamt stjórnarandstöðunni að banna verðtryggingu fjárskuldbindingu frá og með einhverjum degi sem yrði tiltekinn eftir nánara samkomulagi? Er hann tilbúinn til þess að gera það? Ég held að það væri langæskilegast að málið yrði tekið upp í hv. efh.- og viðskn. Mér heyrðist á hv. 11. þm. Reykn. að hann ætlaði að flytja þessa hugmynd þar og ég teldi eðlilegt að málið yrði fært þar í búning. Þetta er auðvitað flókið mál, það er ekki einfalt að orða þetta og koma þessu í lagabúning. En ég hlýt að taka undir þá spurningu sem kom áðan fram til hæstv. viðskrh.: Hver er skoðun hans á þessu mikilvæga máli?