Vextir, dráttarvextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 22:21:49 (4797)

1998-03-17 22:21:49# 122. lþ. 89.13 fundur 562. mál: #A vextir, dráttarvextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[22:21]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson boðar við umræðuna að hann muni flytja tillögu og kynna hana fyrst í efh.- og viðskn. um bann við verðtryggingu útlána. Ég held að menn þurfi að hugsa sig mjög vel um í þeim efnum, hvernig að slíkum tillöguflutningi skuli staðið og hvernig slíkt bann yrði framkvæmt.

Hv. þm. gerði mikið úr því hér áðan við umræðu um Fjármálaeftirlitið að mikil alvara fylgdi því þegar Seðlabanki Íslands gerði mönnum viðvart í efnahagsmálum og menn þyrftu að hlusta grannt þegar Seðlabankinn væri að ráðleggja ríkisstjórnum og öðrum í þeim efnum. Það veit ég að er rétt hjá hv. þm. enda er hv. þm. Ágúst Einarsson fyrrv. formaður bankaráðs Seðlabankans.

Nú vil ég ekki útiloka að sú leið verði farin að verðtrygging útlána verði bönnuð í framtíðinni. Við þurfum að vanda okkur mjög í þeim efnum. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við 1995 hafa menn verið að þoka sér út úr verðtryggingunni hægt og bítandi.

Hv. þm. Ágúst Einarsson gerði örlitla grein fyrir því áðan hvernig að því hefði verið staðið og þar eru menn kannski ekki komnir enn nema hálfa leið vegna þess að lokapunkturinn í þessum áfanga er árið 2000. Þess vegna ætla ég, með leyfi forseta, að vitna örlítið í þá skýrslu sem ég fékk í hendur frá Seðlabankanum frá svokallaðri vaxtamyndunarnefnd sem tillögur um afnám verðtryggingarinnar eru byggðar á. Upp úr þessari skýrslu vil ég lesa, með leyfi forseta, út af orðum hv. þm. Ágústs Einarssonar hér og ekki síst í ljósi þess sem hann telur vera mikilvægt að það sé tekið tillit til ábendinga Seðlabankans í þessum efnum:

,,Seðlabankinn leggur til að stefnt verði að því að framboð óverðtryggðra fjárskuldbindinga verði aukið þannig að í byrjun árs 2000 verði verðtrygging aðeins notuð á verðbréfum með minnst sjö ára binditíma. Mikilvægt er að aðlögun að þessu markmiði feli ekki í sér hættur fyrir fjármálalífið þannig að lánastofnunum sé gert erfitt að halda viðunandi jafnvægi milli verðtryggingar á eigna- og skuldahlið. Því er nauðsynlegt að gefa rúman aðlögunartíma að því markiði sem að ofan er sett.

Seðlabankinn leggur til að innlánsstofnunum og öðrum aðilum á markaði verði gefið svigrúm til að draga úr notkun verðtryggingar án þess að vera til þess þvingaðar af ströngum reglum eða skömmum aðlögunartíma. Á tímabilinu fram til ársins 2000 verði heimild vaxtalaga til þess að takmarka notkun verðtryggingar aðeins beitt tvívegis, þ.e. í ársbyrjun 1996 og í ársbyrjun 1998.`` Aðlögunin er tilgreind nánar en ég ætla ekki að rekja það nákvæmlega.

Fyrra skrefið var tekið 1. jan. 1996 þegar lágmarkstími verðtryggðra skuldabréfa var hækkaður í þrjú ár. Næsta skref var tekið um síðustu áramót þegar lágmarksbinditími verðtryggðra innstæðna hækkaði í þrjú ár og lágmarkstími verðtryggðra skuldabréfa hækkaði í fimm ár. Lokaáfanginn er eftir, árið 2000. Þá verður verðtrygging innstæðna óheimil en lágmarksbinditími verðtryggðra skuldabréfa hækki í sjö ár. Þá er verðtrygging allra skammtímalána bönnuð.

Að tillögu Seðlabankans, af því hv. þm. gerði það að umtalsefni hér fyrr í kvöld, ekki í þessari umræðu heldur umræðu um Fjármálaeftirlitið, að það væri mikilvægt að taka tillit til ábendinga Seðlabankans í þessum efnum, að þá tel ég það vera og tek undir það með hv. þm. Þess vegna mega menn ekki rasa um ráð fram í þeim efnum. Ég tel þess vegna dálítið fljótfærnislegt að henda því inn í umræðuna akkúrat núna og segja: Það ber bara að afnema þetta í hvelli. Menn þurfa að stíga hægt til jarðar og örugg skref í þessum efnum eins og ég tel að þessi ríkisstjórn og tillögur Seðlabankans hafi verið að fikra sig áfram við að gera. Annað getur valdið röskun á þessum markaði.

Það sem skiptir líka auðvitað mjög miklu máli og hv. þm. Svavar Gestsson kom hér inn á: Til hvers getur þetta leitt ef menn gæta ekki að sér? Þetta getur hugsanlega leitt til þess að vextir verði hærri hér en þeir annars þyrftu að vera. Ef við berum saman þá verðtryggðu vexti sem hafa verið frá árinu 1990 til ársins 1996, og það eru líka upplýsingar frá Seðlabankanum, annars vegar meðalraunávöxtun skuldabréfa, óverðtryggðra skuldabréfa, og svo hins vegar verðtryggðra lána, og veltum því fyrir okkur: Ef við hefðum tekið ákvörðunina 1990 og sagt: Við ætlum að banna þetta, til hvers hefði það leitt?

Það hefði leitt til þess að vextir eða meðalraunávöxtun skuldabréfa, óverðtryggðra skuldabréfa, hefði verið 1--1,5% hærri. Hefði þetta verið skynsamlegt? Nei, það hefði verið óskynsamlegt að gera þetta nákvæmlega á þessum tíma. Árið 1990 hefði verið 1,3% hærri. Og árið 1996 var meðalraun\-ávöxtun óverðtryggðu bréfanna 10,4% á meðan verðtryggðu lánin voru í 8,9%. Allan tímann er raunávöxtun óverðtryggðu skuldabréfanna hærri. Með þessu er ég að segja að ég tel ekki útilokað að við fikrum okkur út úr verðtryggingunni og ég segi að við höfum verið að því. En förum varlega í þeim efnum og vöndum okkur í þeim efnum.

Svo er heldur alls ekki rétt að allar þjóðir séu að fara út úr verðtryggingunni. Það er akkúrat hið gagnstæða. Svíar og Bretar hafa verið með verðtrygginguna undanfarin ár eins og við Íslendingar. Kanadamenn, Ástralíumenn og Bandaríkjamenn eru í auknum mæli að taka upp verðtryggingu. --- Nú er hv. þm. hlaupinn úr salnum og erfitt að tala við hann vegna þess að --- (Gripið fram í). Ja, það er nú þannig, hv. þm., með leyfi forseta, að ég gat að mörgu leyti algjörlega fallist á það sem kom fram í ræðu þinni og ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum. En það var fyrst og fremst hv. þm. Ágúst Einarsson sem ég vildi tala við vegna þess að ég var með nokkrar athugasemdir við ræðu hans.

Þetta hefur leitt til þess, hv. þingmaður, að vextir, eins og ég sagði áðan, hafa verið þetta einu til einu og hálfu prósenti hærri á þessum tíma. Ástæðan fyrir því að vextir á Íslandi eru hærri en í nágrannalöndunum er að mínu viti ekki það að verðtrygging sé meiri hér en í nágrannalöndunum heldur fyrst og fremst það, og hv. þm. kom reyndar inn á það fyrr í kvöld í ágætri umræðu um skattamál, og hefur mikið með samkeppni fyrirtækja að gera, að fjármagnsmarkaðurinn hér er ófullkomnari en fjármagnsmarkaðurinn í löndunum í kringum okkur.

[22:30]

Samkeppni er minni á fjármagnsmarkaði hér en í löndunum í kringum okkur. Það er slíku sem þessi ríkisstjórn er að breyta. Hún er að auka samkeppnina á fjármagnsmarkaðnum og sennilega hefur ekkert fyrirtæki á íslenskum fjármagnsmarkaði í seinni tíð valdið annarri eins samkeppni á þeim markaði og þegar Fjárfestingarbanki atvinnulífsins tók til starfa um sl. áramót. En ef ég man rétt, þá barðist hv. þm. Ágúst Einarsson með oddi og egg gegn því í fyrra á Alþingi að slíkur banki kæmist á fæturna. En það hefur sýnt sig að það er kannski engin fjármálastofnun sem veitir viðskiptabönkunum aðra eins samkeppni og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins er að gera. Og það er samkeppni númer eitt, tvö og þrjú sem getur leitt það af sér að vextir lækki á Íslandi. Að því er stefnt og að því er unnið.

Svo er það ekki rétt, og kem ég þá aftur að því --- ég held að hv. þm. hafi verið farinn úr salnum --- að aðrar þjóðir séu að fara út úr verðtryggingunni. Bandaríkjamenn eru að auka sína verðtryggingu og margt bendir til þess að þeir muni halda því áfram. Kanadamenn eru að taka hana upp en það þýðir ekki endilega að við þurfum að fara sömu leið. Ég tel rétt að skoða það hjá okkur hvort ekki sé hægt að stíga fleiri skref til þess að fikra sig út úr verðtryggingunni, ég get tekið undir það með hv. þm., en förum varlega í þeim efnum. Vegna þess að við erum með fjöregg margra fyrirtækja og heimila í höndunum þegar við erum að gera miklar breytingar á fjármagnsmarkaðnum sem geta leitt til þess að vextir hækki hér stórkostlega.

Ég þarf einnig að leiðrétta hv. þm. vegna þess að hann hélt því fram í ræðu sinni áðan að skuldir heimilanna væru að hækka. Þetta er líka rangt. Það sem gerist núna í fyrsta skipti, sennilega í áratug a.m.k. ef ekki tvo áratugi, ég þori ekki að fullyrða hvort það eru tveir áratugir, en í a.m.k. áratug gerist það í fyrsta skipti árið 1997 að eignamyndun hjá heimilunum er meiri en skuldaaukningin. Það hefur ekki gerst, ekki í tíð nokkurrar ríkisstjórnar fyrr en þessarar ríkisstjórnar. Það er afrek og er í samræmi við það m.a. sem minn flokkur hélt fram í kosningabaráttunni að bæri að stefna að, þ.e. að draga úr skuldaaukningu heimilanna. Það hefur tekist og hv. þm. getur fengið þessar tölur staðfestar.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir umræðuna um það mál sem hér er til umfjöllunar. Ég átti von á að umræðan snerist kannski fyrst og fremst um dráttarvextina. Við þau ákvæði voru ekki gerðar neinar sérstakar athugasemdir í umræðunni og verð ég þá að líta svo á að menn séu tiltölulega sáttir við þá útfærslu sem þar fékkst.