Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 22:55:21 (4805)

1998-03-17 22:55:21# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[22:55]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem er reyndar af svolítið öðrum toga en þau sex mál sem ég er búinn að mæla áður fyrir, en það er frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða sem er á þskj. 788. Markmið með þessu frv., sem samið hefur verið í iðnaðarráðuneytinu, er ætlað að tryggja rétt tannsmiða til að geta starfað sjálfstætt í grein sinni, sem er löggilt iðngrein, við smíði og viðgerðir á tanngómum og tannpörtum og þá unnið á eigin ábyrgð við töku móta og mátun til að geta sinnt starfi sínu.

Samkvæmt hæstaréttardómi um túlkun á tannlæknalögum hafa tannsmiðir ekki heimild til að starfa sjálfstætt við móttöku og mátun í munnholi að óbreyttri löggjöf. Gagnstæð niðurstaða var í héraðsdómi, en nánar er vikið að dómnum í greinargerð frv.

Úr heimildarskortinum tel ég nauðsynlegt að bæta með sérlögum um tannsmiði á grundvelli frv. þess, enda þykir mér óviðunandi að tannsmiðir sem eru ekki heilbrigðisstétt geti ekki sinnt mikilvægum þætti í starfi sínu á eigin ábyrgð en þurfi að treysta á aðra stétt, tannlækna, til að starfa samkvæmt iðnréttindum sínum.

Mótataka og mátun eru nauðsynlegir þættir í tannsmíði og þykja þau störf ekki þess eðlis að tannsmiðir geti ekki unnið þau sjálfstætt eins og önnur störf sem þeir vinna á grundvelli iðnaðarlaga í löggiltri iðngrein sinni. Ég get nefnt að í Danmörku og fleiri löndum geta tannsmiðir unnið slík störf sjálfstætt.

Til að tannsmiður geti sinnt starfi sínu við smíði og viðgerðir á tanngómum og tannpörtum þykir mér sjálfsagt að þeir geti unnið við mótatöku eða við töku móta og mátun hjá viðskiptavini.

Er þá tekið tillit til eðlis þessa starfsþáttar sem tengist heilbrigði manna eins og reyndar aðrir þættir í störfum tannsmiða. Að taka mót af munni viðskiptavinar og mátun á tanngómi eru óhjákvæmilegir þættir í smíði tanngóma eða tannparta. Mótatökunni og mátuninni er nánar lýst í frv.

Til stuðnings því að tannsmiðir geti unnið við mótatöku og mátun vil ég benda á að undanþágur hafa tíðkast frá ákvæðum tannlækningalöggjafar um einkarétt tannlækna til að vinna í munnholi manna og tíðkast enn. Nánar er gerð grein fyrir þessu í frv. en þess vil ég aðeins geta að sérhæft aðstoðarfólk undir stjórn tannlækna getur sinnt þessum verkefnum.

Það skal einnig ítrekað að í dönskum lögum um tannsmiði hafa tannsmiðir, sem eru einnig iðnstétt þar í landi, svipuð réttindi til að vinna við töku móta og mátun og gert er ráð fyrir í frv. þessu. Sama máli gegnir um Finnland og jafnvel fleiri lönd.

Að því er varðar einstakar greinar frv. vil ég bæta eftirfarandi við: Viðvíkjandi 1. mgr. 1. gr. vil ég ítreka að störf við mótatöku og mátun vegna smíða og viðgerða á tanngómum og tannpörtum þykja mér ekki þess eðlis að tannsmiðir geti ekki unnið þau sjálfstætt eins og önnur störf sem þeir vinna á grundvelli iðnaðarlaga í löggiltri starfsgrein sinni. Yrði mótataka og mátun enda minnstur hluti þess starfs þeirra við tanngóma og tannparta.

Ég vil í þessu sambandi taka fram að nám tannsmiða er miklu lengra en nám sérhæfðs aðstoðarfólks tannlækna og er nú fjögur ár auk þess sem meistaraskólanám þarf til að geta öðlast meistararéttindi í iðngreininni. Meistaraskólanám í iðngreinum er nú fjórar annir.

Í 1. mgr. er sleginn sá varnagli, eins og í dönsku lögunum, að ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar. Gera má ráð fyrir að í þessum tilvikum vísi tannsmiðir viðskiptavinum sínum til heimilislækna eða annarra sérfræðinga --- og er þá best að undirstrika að aðrir sérfræðingar geta þá verið tannlæknar --- og afli jafnvel heilbrigðisvottorða í vafatilvikum áður en vinna hefst.

Í 2. gr. eru ákvæði um refsingu við brot á lögunum, svo og réttarfar.

[23:00]

Í 3. gr. er almenn reglugerðarheimild til handa iðnrh. ef setja þarf nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Þá segir þar einnig að iðnrh. geti í reglugerð kveðið á um að tannsmiðum skuli gefinn kostur á þátttöku í námskeiði um mótatöku og mátun.

Eftir að þetta frv. var lagt fram á Alþingi hafa ýmsir komið að máli við mig með athugasemdir við frv. Ég hef átt fundi með einstökum tannlæknum, formanni og varaformanni Tannlæknafélagsins. Það sem upp úr stendur í þeirri umræðu er að deilt er um þær menntunarkröfur sem gerðar eru hér á landi og svo hins vegar í Danmörku. Ég ætla ekki að bera þær menntunarkröfur saman. Ég tel eðlilegt að það verði sérstaklega skoðað af hv. iðnn. Meiningin er ekki sú að gera minni kröfur til tannsmiða á Íslandi en gerðar eru í Danmörku. Samanburður á þeim kröfum þarf því að vera sérstakt athugunarefni iðnn. Það eina sem ég tel umdeilanlegt í þessu frv. eru deilur um menntunarkröfur og þingið þarf að skera úr um þau efni.

Eins og formaður Tannlæknafélagsins sagði þá geta þeir í raun og veru ekki haft athugasemdir við það að tiltekinni starfsstétt séu heimiluð ákveðin starfsréttindi. (SvG: Hefur ráðherrann eitthvert vit á þessum málum? Er þetta seðlabankamál?) Þetta er ekki seðlabankamál. Þetta er á sviði iðnrh. og hefur ekki farið fyrir Seðlabankann til umsagnar. Hins vegar kann vel að vera að Seðlabankinn verði að skera úr um þessi réttindi þegar upp er staðið.

Í kostnaðarumsögn með þessu máli frá fjmrn. kemur fram að það hefur ekki í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Hins vegar er gert ráð fyrir því að þegar fram líða stundir geti þetta leitt til sparnaðar hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna þess að vinna tannsmíðameistara er ódýrari en tannlækna.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja áherslu á að nauðsynlegt séð að tryggja rétt tannsmiða til að geta starfað sjálfstætt í grein sinni sem löggiltri iðngrein. Ég vil undirstrika það að tannsmíði er löggilt iðngrein og þess vegna þurfa þeir sem hana stunda á sjálfstæði að halda við smíðar og viðgerðir á tanngómum og tannpörtum. Þeir ættu að geta unnið á eigin ábyrgð við töku móta og mátun sem yrði lítið brot af þessu starfi.

Ég legg því til að að lokinni umræðu um þetta mál verði því vísað til iðnn. þar sem um er að ræða löggilta iðngrein.