Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 23:03:22 (4806)

1998-03-17 23:03:22# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[23:03]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil segja það í upphafi, nú þegar halla fer að miðnætti, að nú sannast að Alþingi er mjög fjölskyldufjandsamlegur vinnustaður. Við hófum störf klukkan átta í morgun og höfum staðið 15 tíma á vaktinni. Virðulegur forseti verður því að virða manni það til vorkunnar þó að maður sé hálfframlágur í stólnum.

Mig langar að taka hér til máls vegna þess að ég hef fyrirvara við þetta mál og vil í stuttu máli gera grein fyrir honum. Í athugasemdum við greinar frv. kemur fram að samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands um túlkun á 6. gr. laga nr. 38/1985, um tannlækningar, hafi tannsmiður ekki heimild til að starfa sjálfstætt í munnholi, þ.e. við mótatöku og mátun. Úr þeim heimildaskorti er ætlunin að bæta með sérlögum um tannsmiði á grundvelli lagafrv. þessa. Það eru ástæður þess að þetta mál er fram komið. Þetta eru aðalatriði málsins.

Hér er vísað í hæstaréttardóm og til þess að halda upplýsingum til haga, þá hefði ég viljað gera grein fyrir honum í stuttu máli. Hann er kveðinn upp árið 1995, fimmtudaginn 7. desember í máli nr. 52/1995 og það er Tannlæknafélag Íslands gegn Bryndísi Kristinsdóttur og gagnsök. Mig langar að tæpa aðeins á þessum dómi. Þar kemur fram, með leyfi forseta, í kafla II:

,,Í fyrstu lögunum um tannlækningar, nr. 7/1929, var starfssvið tannlækna skilgreint. Samkvæmt 3. gr. laganna tók það yfir meðferð á alls konar tannsýki sem var nánar útskýrð í dæmaskyni og enn fremur til meðferðar kvilla í slímhimnu munnsins, tannholdi og kjálkum, er af tannsýki stafa. Í 4. gr. laganna var sagt að öllum öðrum en tannlæknum eða þeim sem tannlækningaleyfi hefðu væri óheimilt að setja gervitennur og tanngarða í menn.``

Síðar í þessu skjali segir:

,,Lög nr. 38/1985, um tannlækningar, leystu síðan af hólmi lög nr. 7/1929, með síðari breytingum. Í 6. gr. laganna er verksvið tannlækna nú skilgreint þannig að það taki til ,,varna, greiningar og meðferðar á tannskemmdum, tannskekkju og tannleysi, til sjúkdóma, slysa og galla er þessu tengjast, þar með talið í mjúkvefjum og beinum``. Frumvarp til laganna var að stofni til byggt á því lagafrumvarpi sem var unnið 1973--1974. Átti það m.a. við um ákvæði 6. gr. sem sætti minni háttar orðalagsbreytingum í meðförum þingsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði að skilgreining á starfssviði tannlækna væri ,,efnislega lítið breytt en einfaldari heldur en áður``. Með þessari skýringu var gefið til kynna að ekki væri fyrirhugað að skilja það undan almennu verksviði og einkarétti tannlækna að setja gervitennur og tanngarða í menn eins og verið hafði frá setningu fyrstu laganna.``

Síðan segir: ,,Kom það og skýrt fram í ræðu þáv. heilbrrh. er hann mælti fyrir frumvarpinu en hann vék þegar í upphafi að umræðunni á Alþingi 1974, um stöðu tannlækna og tannsmiða. Vísaði hann til þess að tannsmíði hefði verið gerð að iðngrein sem væri nú aðallega stunduð á sérhæfðum tannsmíðaverkstæðum en tannlæknar hefðu að sjálfsögðu rétt til að stunda tannsmíði, enda væri það veigamikill þáttur í námi þeirra á lokaprófi. Ráðherrann mælti síðan: ,,Hins vegar hafa flestir þeirra eða allir þann hátt á að senda frá sér tannsmíðaverkefni til tannsmiða sem smíðað þá eftir máli því sem tannlæknir tekur af sjúklingi. Með þessu frumvarpi er ekki ætlunin að breyta á nokkurn hátt réttarstöðu þessara tveggja stétta varðandi tannsmíði frá því sem nú er í gildi, en í dag er það svo að það er tannlæknirinn einn sem hefur leyfi til þess að taka mát og máta gervitennur, festa þær í sjúkling hvort sem um er um heila góma eða parta eða einstakar tennur, krónur eða brýr að ræða. Þar hefur enginn annar leyfi til þess að vinna sjálfstætt við sjúkling, enda er læknisfræðileg þekking á líffærafræði tyggingarfæra undirstaða þess að vel takist til við ísetningu gervitanna.`` Þessi ummæli ráðherra sættu ekki andmælum við þá umræðu sem á eftir fór.``

Ég bendi hæstv. iðnrh. sérstaklega á að viðkomandi ráðherra sagði á sínum tíma að í þessu tilviki væri læknisfræðileg þekking á líffærafræði tyggingarfæra undirstaða þess að vel tækist til. Síðan segir í kafla III í dómnum:

,,Með reglugerð nr. 92/1974, um tannsmíði, sem heilbrigðisráðherra setti í mars 1974, var ákveðið að skipa starfsréttindum tannsmiða eftir þessum lögum [sem er getið fyrr í kaflanum] og gera löggildingu samkvæmt þeim að skilyrði til starfans. Í 5. gr. reglugerðarinnar var sett fram sú almenna takmörkun á starfssviði tannsmiða að þeir mættu ekki vinna við sjúkling, hvorki við mótatöku né mátun, hvort sem þeir væru aðstoðarmenn tannlækna eða stunduðu starf sitt sem sjálfstæða atvinnugrein.``

Seinna var umrædd reglugerð felld úr gildi og í niðurlagi þessa kafla segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þótt reglugerð nr. 92/1974 væri felld úr gildi með fyrrgreindum hætti er ekki unnt að álykta að stöðu tannsmiða gagnvart tannlæknum hafi verið breytt með þeirri ráðstöfun í því tilliti sem hér skiptir máli.``

Í kafla IV segir síðan: ,,Samkvæmt framansögðu verður að telja að frá 1929 hafi tannsmiðir ekki haft lagaheimild til þess að vinna í munnholi manna í því skyni að setja í þá gervitennur eða tanngarða nema samkvæmt undantekningarákvæðum laga nr. 34/1932 og nr. 62/1947, sem áður voru rakin, en þau tóku ekki til gagnáfrýjanda. Verður tannsmiðum að óbreyttum lögum ekki heimiluð þessi vinna.``

Dómsorðið er:

,,Gagnáfrýjanda, Bryndísi Kristinsdóttur, er óheimil vinna í munnholi manna í því skyni að setja í þá gervitennur eða tanngarða.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstrétti felldur niður.``

Þetta voru dómsorðin og niðurstaðan samkvæmt þessum hæstaréttardómi er sú að tannsmiðum sé samkvæmt lögum óheimilt að vinna í munnholi manna. Nú á að breyta lögunum og gera þeim það heimilt.

Eftir að hafa farið stuttlega yfir þennan hæstaréttardóm ætla ég að víkja að sjálfu frv. og lesa upp úr 1. gr. en þar segir:

,,Tannsmiðir geta á eigin ábyrgð smíðað og gert við tanngóma og tannparta og þá m.a. unnið við töku móta og mátun, enda séu ekki sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar.``

Ég vil sérstaklega undirstrika að hér er sagt ,,enda séu ekki sjúklegar breytingar`` o.s.frv. og það er um þetta sem mér finnst málið snúast.

Í greinargerðinni, eins og hæstv. iðnrh. rakti áðan, kemur fram að varðandi slík tilfelli megi gera ráð fyrir því að tannsmiðir vísi viðskiptavinum sínum til heimilislækna eða annarra sérfræðinga. Manni þykir það nokkuð ankannalegt að hér skuli sagt að gera megi ráð fyrir því að þegar um sjúklegar breytingar er að ræða, vísi tannsmiðir viðskiptavinum sínum til heimilislækna eða annarra sérfræðinga. Hér er sérstaklega passað upp á það að tilgreina ekki tannlækna. Reyndar tók hæstv. ráðherra það fram, en ég spyr: Er þetta nægjanlegt og er þetta eðlilegt? Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann sé sannfærður um að eðlilegt sé að breyta fyrirkomulaginu eins og hér segir. Telur hann eðlilegt að tannsmiðir sjálfir meti hvort um sjúklegar breytingar sé að ræða? Þarf ekki læknisfræðilega þekkingu til þess að geta séð hvort um sé að ræða sjúklegar breytingar í munnholi manna? Þurfa ekki tannlæknar að koma þar til? Þetta er fyrsta spurning mín til hæstv. iðnrh. Þarf ekki læknisfræðilega sérþekkingu eins og hæstv. fyrrv. heilbrrh. taldi þegar lögin voru sett? Um þetta finnst mér þetta mál snúast í megindráttum.

Síðar segir í frv., í almennum athugasemdum:

,,Samkvæmt 9. gr. gildandi laga nr. 38/1985, um tannlækningar, getur sérhæft aðstoðarfólk undir stjórn tannlækna sinnt þessum verkefnum.`` --- Ég bendi á að það er undir stjórn og eftirliti tannlækna. Verkefnin eru ekki á þeirra eigin ábyrgð eins og gefið hefur verið í skyn. Síðan segir: ,,Á það skal og bent að í dönskum lögum um tannsmiði (lov om kliniske tandteknikere), nr. 100/1979, með síðari breytingum, hafa tannsmiðir svipaðan rétt til að vinna við töku móta og mátun og gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu og er það ekki eina landið þar sem tannsmiðir mega vinna slík störf sjálfstætt.``

Hér tilgreindi ráðherrann að það sama ætti við um Finnland en ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með Noreg? Hvað með Svíþjóð? Hvernig er þessum málum komið í þessum löndum?

Síðan vil ég að lokum undirstrika að meginátakapunkturinn í þessu frv. lýtur að menntunarkröfunum. Hjá hæstv. iðnrh. kom fram að hann sjálfur gat ekki metið hvort menntunarkröfur tannsmiða væru nægjanlegar til þess að þetta frv. stæðist. Hann ætlar að vísa því til sérstakrar skoðunar í iðnn. Mér þykir það á gráu svæði ef hæstv. ráðherra flytur frv. en telur sjálfur að ekki sé skýrt hvort menntunarkröfurnar séu nægjanlegar, þ.e. þær kröfur sem gera þarf til stéttarinnar svo hún teljist geta metið hvort um sé að ræða sjúklegar breytingar í munnholi. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra og segja það sem mína skoðun að þetta mál ætti að fara í heilbrrn. til sérstakrar skoðunar. Heilbrrn. fjallar um þau mál sem við koma heilbrigðisstéttum og að mínu mati er óeðlilegt að iðnn. ein skoði þetta mál. Heilbrn. þarf að koma að því líka.

Fyrir mér er þetta mál alls ekki iðnaðarmál. Það er heilbrigðismál. Ég vil beina því til þingsins og forsn. að þessu máli verði vísað til heilbrn. en ekki einungis til iðnn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé því mótfallinn að þetta mál komi til sérstakrar skoðunar í heilbr.- og trn. Hér er að mínu mati um heilbrigðismál að ræða og afar mikilvægt að rétt sé að farið. Menntun tannsmiða verður að vera fullnægjandi svo þeir geti metið hvort um sjúklegar breytingar í munnholi sé að ræða og þeir geti tekið sín mát sjálfstætt og á eigin ábyrgð.