Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 23:17:09 (4807)

1998-03-17 23:17:09# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[23:17]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi hvaða framgöngu málið skuli hafa þá er um mál að ræða sem enginn vafi er á að lýtur að starfsréttindum tannsmiða, flutt af iðnrh., og því eðlilegt að Alþingi vísi málinu til iðnn. Ég geri engar athugasemdir við það þó að iðnn. óski síðan eftir áliti heilbr.- og trn. á málinu í vinnu sinni. En kjarni málsins er að á mjög mörgum sviðum heilbrigðisþjónustu sækjum við fyrirmyndir til Danmerkur. Ég tek dæmi af tannfræðingum sem er ekki sambærileg stétt en mjög margir íslenskir tannfræðingar eru menntaðir í Danmörku. Ég held að aðalatriðið sé ef við ætlum að halda áfram að bera okkur saman við þá á þessu sviði sem á mörgum öðrum þá þurfi að fá úr því skorið, en í mínum huga var enginn vafi þegar ég lagði frv. fram að sömu kröfur væru gerðar hér á landi til tannsmiða og í Danmörku.

Eins og ég sagði áðan hafa menn komið til mín eftir að frv. var lagt fram og reynt að færa rök fyrir öðru, þ.e. að minni kröfur séu gerðar hér á landi til tannsmiða en gerðar eru í Danmörku. Þess vegna segi ég: Úr þessu þarf að fást skorið því að það er ekki hugsun mín að gera minni kröfur til íslenskra tannsmiða en til tannsmiða sem starfandi eru í Danmörku. Úr þessu þarf að fást skorið. Ef úr þessu fæst skorið og við erum sannfærðir um að íslenskir tannsmiðir eru jafn vel menntaðir og danskir tannsmiðir þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að íslenskir tannsmiðir hafi sama rétt og danskir tannsmiðir að þessu leyti til, þ.e. geti starfað sjálfstætt við iðngrein sína og það er mergur málsins.

Í Noregi og Svíþjóð er þetta með öðrum hætti en í Danmörku. Í þessu stutta andsvari hef ég því miður ekki tíma til þess að rekja það nákvæmlega. Grundvallaratriðið er þetta: Hér er um iðnstétt að ræða. Við eigum að gera sömu kröfu til hennar hér á landi og í Danmörku og ef við gerum það þá tel ég að þeir eigi líka að hafa sömu réttindi og skyldur og þar eru til staðar.