Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 23:19:37 (4808)

1998-03-17 23:19:37# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[23:19]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir mér er ekki einungis um iðnaðarmál að ræða og iðnstétt. Fyrir mig skiptir máli að læknisfræðileg þekking sé til staðar. Því ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra: Er það ekki skoðun hans að læknisfræðileg þekking þurfi að vera til staðar hjá þeirri stétt sem metur hvort um sjúklegar breytingar sé að ræða í munnholi eða ekki? Þarf sú þekking ekki að vera til staðar?

Síðan náði ég ekki alveg svarinu hvernig þetta er gert í Noregi og Svíþjóð en það er rétt að við beinum sjónum okkar mikið til Danmerkur varðandi heilbrigðiskerfið en við gerum það ekkert síður til Noregs og Svíþjóðar.

Varðandi það að hæstv. ráðherra gerir ekki athugasemd við það að málið farið til skoðunar í heilbr.- og trn. þá vil ég spyrja: Þykir hæstv. ráðherra það ekki æskilegt og reyndar bráðnauðsynlegt þar sem um heilbrigðismál er að ræða?