Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 23:34:48 (4815)

1998-03-17 23:34:48# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[23:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi held ég að námið sem tannsmiðir ganga í gegnum nægi til þess að þeir geti gert sér grein fyrir því að einhvers konar sjúklegar breytingar kunni að vera í munnholi sjúklinga sinna. Í öðru lagi tel ég að ábyrgðarkennd þeirra sem við þetta starfa hljóti að vera slík að þeir sjái sóma sinn í að kalla til sérfræðiaðstoðar er þarf. Í þriðja lagi, herra forseti, höfum við fordæmi frá Danmörku. Þar má sjá slík lög í framkvæmd. Eru einhverjir annmarkar á framkvæmd þeirra þar? Hæstv. iðnrh. sem leggur málið fyrir segir að svo sé ekki. Hann segir að þar hafi þetta gengið vel. Sömu upplýsingar fengum við á sínum tíma þegar við vorum að velta þessum málum fyrir okkur. Ef Danir hafa fundið upp þetta hjól, getum við þá ekki notað þetta danska hjól einnig á Íslandi eða þurfum við að finna það upp aftur? Eigum við að gera það í heilbr.- og trn.? Hvernig eigum við að fara að því? Eigum við að kalla til danska tannlækna eða tannsmiði sem hafa reynslu af þessu?

Ég er fús til þess sem formaður þessarar nefndar að beita mér fyrir því, þess vegna að fara með hv. varaformanni hv. heilbr.- og trn. til tannlæknis í Danmörku ef það nægir til þess að sannfæra hana. En ég veit að hv. þm. hefur nægjanlega skerpu og greind til að bera svo að þá er um lýkur verði hún orðin sammála okkur um þetta.