Vinnuklúbburinn

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 13:49:07 (4833)

1998-03-18 13:49:07# 122. lþ. 90.2 fundur 511. mál: #A vinnuklúbburinn# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin og hv. þm. fyrir þátttökuna í umræðunni. Hér hafa komið fram mjög athyglisverðar upplýsingar um að það skuli vera svo hátt hlutfall fólks sem fær atvinnu eftir þátttöku í Vinnuklúbbnum, að það skuli vera 82% þeirra, og aðeins um 9% hafi ekki fengið atvinnu. Þetta er mjög mikill árangur þegar haft er í huga að þarna er um langtímaatvinnulaust fólk að ræða sem er væntanlega þegar búið að reyna ýmsar aðrar leiðir og ekki tekist að fá atvinnu. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að verkefnið sé ekki nægilega vel kynnt meðal langtímaatvinnulausra. Í það minnsta hef ég hitt langtímaatvinnulaust fólk sem ekki hefur haft hugmynd um þetta úrræði. Ég held því að mjög brýnt sé að verkefnið sé kynnt fyrir öllum sem hafa verið atvinnulausir lengur en í þrjá mánuði. Ég vil svo bara láta í ljós þá skoðun mína að ég held að þetta sé starfsemi sem er komin til að vera. Hún hefur sannað ágæti sitt. Því verður að vera alveg ljóst hvernig verður staðið að framhaldinu. Ég vil að lokum þakka hæstv. félmrh. fyrir að tryggja framgang verkefnisins.