Kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:16:00 (4843)

1998-03-18 14:16:00# 122. lþ. 90.6 fundur 516. mál: #A kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Þann 24. febrúar 1995 samþykkti Alþingi ályktun um skipan nefndar til að gera úttekt á kjörum og stöðu fólks er stundar nám fjarri heimabyggð. Í ályktuninni er ályktað að menntmrh. verði falið að láta gera úttekt á kjörum og stöðu fólks er stundar nám fjarri heimabyggð. Þar yrði í fyrsta lagi athugað hvort námsfólk er stundar nám fjarri heimabyggð verði af réttindum og félagslegri þjónustu ef það heldur lögheimili í heimabyggð og hvort Lánasjóður ísl. námsmanna taki sérstakt tillit til slíkra aðstæðna. Í öðru lagi átti að kanna hvaða kostnaður hlýst af dvöl nemenda sem stunda nám í grunn- og framhaldsskólum og búa í heimavistum eða leiguhúsnæði fjarri heimabyggð.

Menntmn. mælti einróma með því að þessi athugun yrði gerð og studdist við umsagnir allmargra aðila sem allir voru mjög jákvæðir og mæltu með henni. Meðal þeirra sem hvöttu til þess voru Tækniskóli Íslands, Samband iðnmenntaskóla, stúdentaráð Háskóla Íslands, Bandalag ísl. sérskólanema, Háskólinn á Akureyri, Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda. Allir umsagnaraðilar töldu fyllstu ástæðu til að kanna stöðu fólks er stundar nám fjarri heimabyggð og taldi menntmn. mikilvægt að nemendum yrðu tryggðar jafnar aðstæður til náms svo sem kostur væri. Menntamn. lagði því til að sú tillaga sem nefndin hafði haft til umfjöllunar yrði samþykkt með þeirri breytingu sem hún lagði til. Tillagan sem þar er vitnað til var flutt af þremur hv. þingmönnum á 117. löggjafarþingi, Gunnlaugi Stefánssyni, Gísla S. Einarssyni og Sigbirni Gunnarssyni.

Í greinargerð með þeirri tillögu eru raktar röksemdir flutningsmanna fyrir málinu og óþarft að endurtaka það hér.

Í framhaldi af þessari ályktun sem gerð var fyrir þremur árum og liðlega það hef ég því ákveðið að bera fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntmrh. og grennslast fyrir um framvindu málsins. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Hver var niðurstaða úttektar á kjörum og stöðu fólks er stundar nám fjarri heimabyggð sem Alþingi samþykkti 24. febrúar 1995 að fela menntamálaráðherra að láta gera?