Kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:19:16 (4844)

1998-03-18 14:19:16# 122. lþ. 90.6 fundur 516. mál: #A kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:19]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þegar sú þáltill. sem til er vísað var samþykkt var verið að vinna að því að samþykkja ný lög um grunnskóla. Síðan hefur Alþingi samþykkt ný lög um framhaldsskóla og einnig samþykkt breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna.

Grunnskólinn hefur verið fluttur frá ríkinu til sveitarfélaganna og ýmsar breytingar hafa orðið á starfsemi grunnskóla, einkum á landsbyggðinni þar sem þeir hafa verið sameinaðir. Sveitarfélögin hafa gripið til annarra úrræða við rekstur grunnskólans heldur en gilti þegar tillagan var samþykkt.

Þetta hefur verið í mótun á undanförnum missirum. Þess vegna ákvað ég að óskynsamlegt væri að fara út í þessa úttekt á stöðu og högum nemenda fyrr en grunnskólalögin, framhaldsskólalögin og þær breytingar sem voru yfirvofandi á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna hefðu komið til framkvæmda. Nú hefur þetta allt gengið eftir og lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna tóku gildi sl. sumar.

Ég sé heldur ekki að í sjálfu sér sé það hlutverk nefndar að vinna að þessari úttekt. Þetta er rannsókn sem vinna þarf af aðilum sem til þess eru búnir. Þess vegna hef ég beitt mér fyrir samningum við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, um að hún taki að sér að semja úttekt eða taka saman gögn um þetta og skila skýrslu til menntmrn. Miðað við framgang málsins eins og hann hefur verið á ég von á að slík skýrsla muni liggja fyrir í maí eða í maílok ef allt gengur samkvæmt áætlun.

Þannig verður að þessu máli staðið. Það á ekki að skipa nefnd en ég tel að engu að síður verði unnt að standa við þau fyrirheit sem gefin voru í þáltill. frá því í febrúar 1995. Þetta tekur einnig mið af þeim meginröksemdum sem hv. þm. vék að í máli sínu sem réttmætt og nauðsynlegt er að hafa í huga þegar mál af þessu tagi er skoðað.

Þannig verður tekið mið af nýju grunnskólalögunum, nýju framhaldsskólalögunum og þeim reglum sem gilda um lánveitingar úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mun semja skýrslu sem að sjálfsögðu verður send alþingismönnum þegar hún liggur fyrir.