Þjónusta geðlækna í fangelsum

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:50:02 (4859)

1998-03-18 14:50:02# 122. lþ. 90.8 fundur 527. mál: #A þjónusta geðlækna í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það hefur löngum verið skortur á því að í fangelsum landsins væri þjónusta geðlækna þótt gert hafi verið ráð fyrir því frá upphafi í lagasetningu, alveg síðan 1974 þegar sett voru lög um ríkisfangelsi. Þar voru sérstök ákvæði um þjónustu við ósakhæfa geðsjúklinga, ósakhæfa afbrotamenn, sem var breytt síðar þegar ný lög voru sett um fangelsi og fangavist 1988. Þegar þau voru sett mátti ekki vista ósakhæfa geðsjúklinga í fangelsum samkvæmt þeim. Jafnframt var kveðið á um það að geðsjúkir fangar sem og aðrir sjúklingar í fangelsum ættu rétt á eðlilegri og sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu. Þar með er talin sérhæfð þjónusta eins og þjónusta geðlækna.

Á þessu hefur verið verulegur misbrestur og reyndar var ekki tekið sérstaklega á málum ósakhæfra geðsjúklinga í töluverðan tíma eftir að þessi lög um fangelsi og fangavist voru sett 1988. Svo var ekki fyrr en réttargeðdeildin að Sogni var stofnsett. Eins og kemur fram í nýlegri skýrslu um starfsemina sem staðið hefur í fimm ár þá hefur réttargeðdeildin á Sogni þjónað sínu hlutverki afar vel.

Fyrir rétt rúmu ári síðan var gerður sérstakur samningur við Sjúkrahús Suðurlands þess efnis að það tæki við rekstri réttargeðdeildarinnar að Sogni. Í yfirlýsingum sem þá voru gefnar var talað um að geðlæknir sem ráðinn yrði að Sogni mundi jafnframt þjóna sem geðlæknir á Suðurlandi og við fangelsið að Litla-Hrauni.

Eftir því sem ég best veit hefur ekki verið gengið frá samningi um að veita slíka þjónustu við fangelsið að Litla-Hrauni. Ég hef þess vegna á þskj. 904 lagt fram fyrirspurn til heilbrrh. hæstv. um þjónustu geðlækna í fangelsum, þar sem spurt er:

1. Hefur verið gengið frá formlegum samstarfssamningi um þjónustu geðlæknis á Sogni, Sjúkrahúsi Suðurlands og í fangelsinu að Litla-Hrauni? Ef svo er, hvað felst í þeim samningi?

2. Hefur verið gerður sérstakur samningur um þjónustu geðlækna í öðrum fangelsum? Ef svo er, hvað felst í þeim samningum?

Þeirri spurningu er beint til hæstv. ráðherra m.a. vegna þess að fyrir ekki löngu síðan var undirritaður samningur milli yfirmanna fangelsismála og heilbrrn. þess efnis að heilbrrn. sæi um að veita ákveðna heilbrigðisþjónustu í fangelsunum.