Fyrirkomulag meðferðar ósakhæfra geðsjúklinga

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:05:54 (4865)

1998-03-18 15:05:54# 122. lþ. 90.9 fundur 528. mál: #A fyrirkomulag meðferðar ósakhæfra geðsjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:05]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spyr um fyrirkomulag meðferðar ósakhæfra geðsjúklinga. Spurningar þingmannsins eru margar, enda kom fram í máli hennar áðan að hún ætlaði að fá skrifleg svör við þessari fyrirspurn, en ég skal reyna að svara þeim fyrirspurnum sem lagðar eru fyrir mig.

Fyrsta spurning hv. þm. er hvort ráðherra muni beita sér fyrir nauðsynlegri fjölgun fagfólks við réttargeðdeildina að Sogni í ljósi niðurstöðu nýlegrar skýrslu um starfsemi deildarinnar.

Það er rétt að benda á að skýrsla sú sem til er vitnað er greinargerð sem starfsfólk Sogns vann yfir fimm ára starfsemi deildarinnar, sýn starfsfólks á framtíð stofnunarinnar og í henni kemur fram sú skoðun að fjölga þurfi starfsfólki við deildina.

Á síðustu þremur árum hafa fjárveitingar til Sogns hækkað um 12 millj. kr., eru 83,7 millj. á yfirstandandi ári.

Frá upphafi hefur svipaður fjöldi verið í meðferð á Sogni, sex til sjö sjúklingar en fjórir sjúklingar hafa verið útskrifaðir og hefur starfsfólk á Sogni haft með höndum eftirmeðferð þriggja þeirra. Hins vegar er ljóst að með auknum fjölda skjólstæðinga verður að fjölga því fagfólki sem vinnur að þessum málum. Ráðuneytið og landlæknisembættið eru sameiginlega að vinna að því að móta tillögur um með hvaða hætti eftirmeðferð og hliðarþjónustu við skjólstæðinga stofnunarinnar verður fyrir komið og mun ég bíða eftir niðurstöðu þeirrar vinnu.

Önnur spurning hv. þm. er hvernig staðið sé að framkvæmd eftirmeðferðar þeirra sjúklinga sem eru lausir úr öryggisgæslu réttargeðdeildarinnar og hljóta dóm um eftirmeðferð og eftirlit sem innt skal af hendi af fagfólki deildarinnar.

Sjúklingar eru leystir úr öryggisgæslu á Sogni með úrskurði héraðsdóms. Dómstólar hafa í úrskurðum sínum um afléttingu öryggisgæslu sett skilyrði um áframhaldandi meðferð og eftirlit og þannig lagt á herðar stofnunarinnar skyldur gagnvart sjúklingum sem útskrifaðir hafa verið.

Nú hafa þrír sjúklingar sem leystir hafa verið undan öryggisgæsludómi hlotið eftirmeðferð á Reykjavíkursvæðinu. Læknismeðferð þeirra er í höndum yfirlæknis og fyrrverandi yfirlæknis. Hjúkrunarfræðingar Sogns gefa þeim sjúklingum forðalyfjasprautur. Sálfélagslegir þættir eftirmeðferðarinnar eru í umsjá félagsráðgjafa Sogns svo og samskipti við aðstandendur. Svokallaðir kontaktmenn úr hópi gæslumanna heimsækja sjúklingana reglulega til eftirlits og þeim til stuðnings. Einn fyrrverandi sjúklingur frá Sogni nýtur endurhæfingar og eftirlits á vegum yfirlæknis geðdeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, sem hefur tengsl varðandi starfið á Sogni og hefur verið þar í tengslum frá upphafi.

Þriðja spurning hv. þm. er hvort sérstök fjárveiting sé áætluð til eftirmeðferðar og hvernig sú fjárveiting skiptist.

Fjárveitingar til Sogns hafa farið vaxandi, eins og kom fram í upphafi máls míns, allt frá árinu 1993 þegar stofnunin var komin í fullan rekstur. Á síðustu þremur árum hefur fjárveiting til Sogns hækkað um 12 millj. kr. og samkvæmt fjárlögum 1998 er fjárveitingin 83,7 millj. kr. Fjármagn til eftirmeðferðar sjúklinga er innifalin í heildarframlögum til stofnunarinnar en kostnaður við eftirmeðferð hefur að mestu fallið á Sogn en einnig að hluta til á aðrar stofnanir, bæði á Tryggingastofnun ríkisins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Hv. þm. spyr í fjórða lagi hvort ráðherra muni beita sér fyrir uppbyggingu sérhæfðrar göngudeildar og meðferðarheimilis til eftirmeðferðar fyrir þessa sjúklinga.

Í janúar sl. áttu fulltrúar ráðuneytisins og aðstoðarlandlæknir fund með yfirmönnum og fagfólki á Sogni um reynslu þeirra, vandamál og tillögur í framhaldi af fimm ára starfsemi stofnunarinnar. Ráðuneytið og embætti landlæknis eru að vinna tillögur um hvernig unnt er að standa að eftirmeðferð og hvort um verði að ræða tengsl við göngudeildir sjúkrahúsa, sérhæft meðferðarheimili eða eins konar sambýlisform. Í því sambandi verður einnig að tryggja nauðsynlega faglega þjónustu, tengsl við Sogn og félagslega kerfið. Þar eð (Forseti hringir.) slík úrræði kunna að falla undir félagslega kerfið og lög um málefni fatlaðra mun ég leita til félmrh. um að koma að þeirri vinnu.

Ég er ekki nærri búin að svara fyrirspurn hv. þm. en tími minn er búinn.