Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:48:25 (4877)

1998-03-18 15:48:25# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:48]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hef ekki sérstaka skoðun á því hvernig á að leggja veg á umræddu svæði. Það er mál út af fyrir sig sem stjórnvöld hafa verið að fjalla um og kann vel að vera að þar hafi ekki verið haldið á öllu eins og skyldi. En ég kveð mér hér hljóðs til þess að gagnrýna það sem kom fram, sérstaklega hjá hæstv. samgrh., þar sem verið er að hnýta ómaklega að ég tel í yfirvöld skipulagsmála hvernig þau vinna að framkvæmd laga.

Ég hef ekki orðið var við annað en þar sé reynt að fara að lögum af þeirra hálfu og það stendur þá upp á ríkisstjórnina að endurskoða þá löggjöf ef menn telja að leiðsögnin um mat á umhverfisáhrifum sé ekki eins og skynsamlegt er. Í því sambandi bendi ég á að í gildandi lögum er beinlínis gert ráð fyrir því að endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum fari fram jafnhliða endurskoðun skipulagslaga. En við þetta lagaákvæði var ekki staðið af hálfu umhvrn. og ekki unnið að því. Það er fyrst nú að þessi löggjöf er til athugunar.

Almennt séð þurfa stjórnvöld, og það á við Vegagerðina og ráðuneyti, að taka tillit til þess að það þarf allt önnur vinnubrögð en áður fyrr í þessum efnum vegna forskriftar í lögum sem almennt ríkir þokkaleg sátt um að þurfi að fylgja. Það er fyrst og fremst handahófsgangur í sambandi við framkvæmdir og framkvæmdaundirbúning af hálfu þeirra sem leggja á ráðin um þetta að taka ekki nógu snemma til við skipulagsvinnuna, hvort sem það er aðalskipulag eða mat á umhverfisáhrifum. Úr þessu þarf að bæta og þarna þurfa ráðuneytin að taka sér tak, þar á meðal samgrn., en þetta á almennt við. Þetta gildir um skipulag og vinnu samkvæmt nýjum skipulagslögum og menn ættu að fara yfir þessi mál samræmt á vegum Stjórnarráðsins.