Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:58:30 (4882)

1998-03-18 15:58:30# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:58]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í lokaorðum hv. málshefjanda að ég hef út af fyrir sig sem umhvrh. fallist á hvora þessa leið sem um er að ræða sem hafa komið til greina, svokallaða neðri leið eða svokallaða sáttaleið þannig að ekki stendur neitt í veginum hvað varðar lög um mat á umhverfisáhrifum. Ég hef líka staðfest það svæðisskipulag sem ég var beðinn um að staðfesta eins og svæðisskipulagsnefndin gekk frá því. Það er nákvæmlega þannig sem ég hef staðið að málinu og ég get þess vegna ekki, hæstv. forseti, fallist á að málið sé í raun á borði umhvrh. Eins og hv. málshefjandi vitnaði til eftir það sem ég hef áður látið frá mér fara hef ég fallist á þessar leiðir, hvora heldur sem er. Staðfesting svæðisskipulagsins er eins og svæðisskipulagsnefndin bað um og gekk frá og gerð að tillögu Skipulagsstofnunar, nákvæmlega eins og þar var gert ráð fyrir. Ég hef því farið að ráðleggingum þeirra ráðgjafa og þeirrar stofnunar sem um þessi mál fjallar þannig að það stendur í raun það sem ég hef sagt og hv. málshefjandi hafði eftir mér um málið að það væri framkvæmdaraðilanna sjálfra og þeirra sem um slík mál að öðru leyti fjalla að komast að niðurstöðu um það hvor leiðin verður farin eða hvar vegurinn verður lagður því að það er verkefni þeirra.

Aðeins varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að ef það mátti skilja það svo á orðum mínum að ég hafi lagt til að aðalskipulagsvinna yrði nú hafin þegar menn hefðu í góðri trú og góðri von verið að vinna að því að niðurstaða næðist með svæðisskipulaginu þá vitnaði ég til þess að skipulagsstjóri hafði lagt það til fyrir hreppsnefnd fyrir um ári ef ég man rétt að sú vinna yrði hafin fyrir hreppinn af því að svo mikill ágreiningur væri um þessa ákveðnu tilteknu framkvæmd sem yrði e.t.v. ekki náð niðurstöðu um í vinnunni við svæðisskipulag en það var svæðisskipulagstillagan sem ég eins og hv. þm. batt vonir við að kynni að ljúka málinu. Ég gat ekki gert annað samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga minna en að samþykkja svæðisskipulagstillöguna eins og svæðisskipulagsnefnd fimm sveitarfélaga gekk frá henni.