Vinna í nefndum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:38:41 (4885)

1998-03-19 10:38:41# 122. lþ. 91.91 fundur 265#B vinna í nefndum# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni og Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Ég er þeirrar skoðunar að verið sé að misnota hinn góða samstarfsvilja stjórnarandstöðunnar. Þegar það kom fyrst upp að menn vildu freista þess að stytta þingtímann var það m.a. rætt með formönnum fastanefnda þar sem ég var. Þar kom fram alveg skýr vilji, a.m.k. af hálfu þeirra stjórnarandstöðuþingmanna sem þar voru, og ég taldi að það væri skilningur á því líka hjá stjórnarliðinu að ef til þessa kæmi mundi stjórnin gera sér grein fyrir því að það þyrfti með einhverjum hætti fallast á að ljúka ekki afgreiðslu ýmissa stóra mála. Ég taldi að skilningur lægi fyrir þessu milli stjórnar og stjórnarandstöðu og það var þess vegna sem stjórnarandstaðan dróst að einhverju leyti á þetta.

En hvað hefur síðan gerst? Eftir að stjórnarandstaðan féllst á þéttingu þingsins með því að teknir voru upp þingfundir á föstudögum sem voru ekki á starfsáætlun og það var jafnframt boðað til nefndafunda á föstudögum sem voru ekki á starfsáætlun, þá hefur það gerst að það er hrúgað inn í þingið gríðarlega yfirgripsmiklum og viðamiklum málum af hálfu stjórnarinnar og það bendir allt til þess að í stað þess að stytta þingið eins og upphaflega var rætt, þá þurfum við að halda því áfram fram í maí. Þetta finnst mér, herra forseti, stappa ansi nærri því að það sé verið að misbeita hinu góða sambandi sem hefur komist á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég segi fyrir mig vegna þess að ég hef látið þessi sjónarmið koma fram gagnvart mínum þingflokksformanni að ég er algerlega andvígur þessu og mér finnst að hérna hafi stjórnarliðið komið aftan að stjórnarandstöðunni. Ég get ekki annað en sagt þetta.