Vinna í nefndum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:42:24 (4888)

1998-03-19 10:42:24# 122. lþ. 91.91 fundur 265#B vinna í nefndum# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:42]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Rétt er að árétta það í þessu samhengi að það er alveg ljóst hvar vandinn liggur í þessum efnum sem hér eru til umræðu. Hann er ekki fyrst og síðast í þinginu hjá þingmönnum eða stjórn þingsins heldur liggur hann hjá ríkisstjórninni. Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi engan skilning á því eða kæri sig ekki um það að vita um þau áform og það skipulag sem er til staðar og menn hafa verið að ræða. Þessar nýju sendingar frá ríkisstjórninni, ný stjórnarfrv. sem hafa hrúgast inn á síðustu dögum, bera þess merki að stjórnin virðist ekki kæra sig um það að fylgjast með eða taka mið af þeirri stefnumörkun sem hefur verið mótuð í nokkuð góðu samstarfi stjórnenda í þinginu og þingflokksformanna. Það er alveg ljóst að það eitt dugir ekki að gott samstarf sé á milli þingflokksformanna og forsætisnefndar ef ríkisstjórnin spilar síðan allt annað lag.

Menn hafa með réttu nefnt örfá stórmál sem koma til kasta þingsins á vordögum, húsnæðismál, vegamál, skattamál, auðlindamál svo að ég nefni bara fjögur stór mál sem munu taka marga daga hvert um sig í almennri umræðu í þinginu. Á sama tíma og þetta liggur fyrir eru að renna inn dag eftir dag smámál, en samt dálítið flókin mál, frá ríkisstjórninni og það er alveg ljóst að ríkisstjórnin verður að fara að taka sér tak.

Ég vil segja það hér að lyktum, virðulegi forseti, að ég neita að trúa því að formenn nefnda og stjórnarliðar í þinginu ætli sér að láta ríkisstjórnina nota sig sem sjálfsafgreiðslustofnun enn og aftur og taka hér í gegn með látum einhver mál sem geta þess vegna með góðu beðið haustsins. Þessu vildi ég koma mjög skýrt á framfæri.