Vinna í nefndum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:44:35 (4889)

1998-03-19 10:44:35# 122. lþ. 91.91 fundur 265#B vinna í nefndum# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek það fram vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið að hvorki þessi ríkisstjórn né aðrar ríkisstjórnir líta á Alþingi sem einhverja sjálfsafgreiðslustofnun. Hins vegar er alveg ljóst að ríkisstjórn á hverjum tíma ber skylda til þess að leggja mál fyrir Alþingi sem eru brýn og þurfa að ná fram. Ríkisstjórnin þarf jafnframt að haga málum þannig að það sé hægt að leggja fyrir Alþingi ýmis mál til þess að vinna úr þeim, ekki í öllum tilvikum til þess að afgreiða þau og svo lengi sem ég hef setið hér þá hafa alltaf komið einhver mál fram fremur seint.

[10:45]

Ég er þeirrar skoðunar að þau mál sem nú liggja fyrir séu fæst hver mjög flókin. Það er alveg rétt að húsnæðismálin eru nokkuð flókin mál en það er ekki í fyrsta skipti sem húsnæðismálafrv. kemur fram á Alþingi þar sem ríkisstjórnir ákveða að breyta þar til. (RG: Nokkuð seint.) Já, hv. þm., ég býst við að hv. þm. hafi einhvern tíma staðið að því sem stuðningsmaður ríkisstjórnar að mál hafi komið fram nokkuð seint. Það er búið að vinna þetta mál mjög vel og vinna það í hendur þingsins. Ríkisstjórnin þarf að standa við skuldbindingar sínar bæði gagnvart þinginu og gagnvart sínum stefnumiðum. Ég tel því að hér hafi verið staðið fullkomlega eðlilega að málum. Stjórnarandstaðan á hverjum tíma hefur sínar skyldur jafnframt og ég trúi því og treysti að um þessi mál geti náðst þokkaleg sátt. En þá verður náttúrlega að hafa í huga að ágreiningur er í mörgum málum en það er ekki þar með sagt að stjórnarandstaðan geti reiknað með því að stöðva mál vegna þess að hún sé ekki sammála þeim.