Vinna í nefndum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:51:17 (4893)

1998-03-19 10:51:17# 122. lþ. 91.91 fundur 265#B vinna í nefndum# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég taldi mig eiginlega hafa kvittað fyrir þessa umræðu áðan með þökkum mínum til forseta en það er ein athugasemd af minni hálfu. Samkvæmt starfsáætlun eigum við að halda hér áfram nokkuð fram í maí, til 9. maí, ef ég man rétt. Miðað við þann tíma var lokadagur til framlagningar þingmála 1. apríl.

Það er nokkuð langt síðan ákveðið var að reyna að stefna að því að ljúka þingstörfum 22. apríl, þó að það væri ekki í sátt við alla þingflokka. Hins vegar var þessari dagsetningu um síðasta dag framlagningar þingmála ekki breytt. Ég vek athygli á því að eftir miðjan mars hafa a.m.k. komið fram þrjú mál og ég á alveg eins von á því að þau haldi áfram að koma fram. Og ég vek athygli forseta á því að auðvitað hefði verið eðlilegt að breyta dagsetningunni fyrir síðasta dag framlagningar þingmála, a.m.k. þeirra mála sem menn væru að hugsa um að ljúka fyrir 22. apríl. Ég vek athygli á þessum tveimur dagsetningum sem ekki fara saman. Ég vil líka, virðulegi forseti, um leið og ég þakka aftur fyrir undirtektir forseta, segja að ég verð að lýsa því yfir að ræða hæstv. utanrrh. hefur valdið mér mjög miklum vonbrigðum.