Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:53:32 (4896)

1998-03-19 10:53:32# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda þrjá viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands frá 16. des. 1997.

Samkvæmt 1. gr. samninganna skal framkvæmdastjóri Norður-Atlantshafsbandalagsins bjóða ríkisstjórnum ríkjanna þriggja að gerast aðilar að Norður-Atlants\-hafs\-samningnum þegar viðbótarsamningarnir hafa öðlast gildi. Kveðið er á um að ríkin verði aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum þann dag sem þau afhenda ríkisstjórn Bandaríkjanna aðildarskjöl sín.

Í 2. gr. viðbótarsamninganna er kveðið á um að þeir öðlist gildi þegar allir aðilar Norður-Atlantshafssamningsins hafa tilkynnt ríkisstjórn Bandaríkjanna um samþykki sitt á þeim.

Í 10. gr. Norður-Atlantshafssamningsins, sem undirritaður var í Washington 4. apríl 1949, segir m.a. að aðildarríki geti samhljóða samþykkt að bjóða öðrum ríkjum í Evrópu aðild að samningnum, enda stuðli það að framgangi meginreglna samningsins og eflingu öryggis á gildissvæði hans. Það var á grundvelli þessa ákvæðis að Grikklandi og Tyrklandi var veitt aðild að bandalaginu árið 1951, Sambandslýðveldinu Þýskalandi árið 1954 og síðan Spáni árið 1982.

Í kjölfar þeirra miklu breytinga, sem áttu sér stað í evrópskum öryggismálum með upplausn Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins og sameiningar Þýskalands, hófst hröð aðlögun Atlantshafsbandalagsins að breyttum aðstæðum og fjölþættari viðfangsefnum. Bandalagið stofnaði m.a. Norður-Atlantshafssamstarfsráðið og Friðarsamstarfið sem fljótlega leiddi til víðtæks samstarfs við Evrópuríki utan bandalagsins. Þessi þróun varð til þess að stjórnvöld í tólf ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu lýstu yfir vilja til að fá aðild að bandalaginu.

Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel árið 1994 var áréttað að bandalagið stæði opið nýjum aðildarríkjum og í kjölfar þess gerði bandalagið úttekt á forsendum og markmiðum hugsanlegrar fjölgunar aðildarríkja sem var samþykkt árið 1995. Um svipað leyti hófu fulltrúar bandalagsins viðræður við stjórnvöld í umsóknarríkjum til að meta pólitískar og hernaðarlegar aðstæður í einstökum ríkjum.

Af hálfu Atlantshafsbandalagsins hefur ávallt verið lögð áhersla á að fyrirhuguð stækkun leiði til aukins stöðugleika og öryggis í Evrópu. Jafnframt að hún komi til með að styrkja enn frekar þá lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í ríkjunum þremur, en ríkin verða að hafa komið á borgaralegri stjórn heraflans og leyst tvíhliða deilumál við nágrannaríki sín.

Þrátt fyrir mjög jákvæða þróun undanfarinna ára ríkir enn óvissa í öryggismálum í Mið- og Austur-Evrópu. Er þá skemmst að minnast þeirra hræringa sem nú eiga sér stað í Kosovo og viðkvæman frið í Bosníu-Hersegóvínu. Með þetta í huga þarf að virða stöðumat og grundvallarrétt allra fullvalda Evrópuríkja að haga landvörnum að eigin vild. Í þessu felst m.a. að ákveða upp á eigin spýtur að hvaða alþjóðastofnunum þau vilja eiga aðild.

Atlantshafsbandalagið barðist ávallt gegn skiptingu Evrópu og getur hvorki fallist á nýskiptingu álfunnar í áhrifasvæði né að fullvalda lýðræðisríkjum sé meinað að nýta þann rétt sem felst í fullveldi þeirra. Bandalagið hefur ítrekað að stækkunin sé eingöngu einn liður í margþættri viðleitni þess að stuðla að auknum stöðugleika og öryggi í Evrópu. Í samræmi við það var ákveðið á vormánuðum 1997 að efla friðarsamstarfið og stofna Evró-Atlantshafssamvinnuráðið, sem kom í stað Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins.

Stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands var undirritaður og þar var lagður grunnur að samstarfsráði þess við Rússland. Jafnframt hefur verið stofnuð samstarfsnefnd Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu. Til viðbótar skal nefna friðargæsluverkefni bandalagsins í Bosníu, sem hefur verið grundvallarforsenda þess að hægt væri að ná fram friði í landinu og er grundvallarforsenda áframhaldandi friðar í Bosníu.

Atlantshafstengslin sem halda áfram að vera hornsteinn öryggis í Evrópu, raunveruleg aðlögun Atlantshafsbandalagsins að nýju öryggisumhverfi og árangursrík frammistaða þess í Bosníu hefur haft víðtæk áhrif á viðhorf fólks til bandalagsins í álfunni. Þetta kemur ekki eingöngu fram í vilja ríkja til að gerast aðilar heldur einnig í því að þjóðir leita til bandalagsins þegar hættuástand skapast. Besta dæmið er nýleg beiðni Albaníu um fund með fastaráði bandalagsins á grundvelli friðarsamstarfsins til að ræða Kósóvó og afleiðingar þess fyrir Albani. Á sama tíma mátti sjá á kröfuspjöldum mótmælenda í Kosovo að þeir biðluðu til bandalagsins um aðstoð. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að fólk, hvort sem er innan aðildarríkja bandalagsins eða utan þess, lítur svo á að áframhaldandi tilvist bandalagsins og starfsemi þess stuðli að friði í Evrópu.

[11:00]

Sumir hafa lýst yfir áhyggjum um að stækkun bandalagsins verði til þess að draga úr mætti þess sem varnarbandalags. Við þessa aðila er rétt að segja að hinar sameiginlegu varnarskuldbindingar verða áfram hornsteinn Atlantshafsbandalagsins. Þær skapa í sjálfu sér öryggi og stöðugleika í Evrópu í heild. Stækkunin hingað til hefur ekki dregið úr varnarmætti bandalagsins né veikt vinnulag þess sem byggir á því að ná ætíð samhljóða samkomulagi allra aðildarríkjanna um allar ákvarðanir.

Aðrir hafa lýst yfir áhyggjum um hvaða áhrif stækkun bandalagsins kemur til með að hafa á öryggi í álfunni vegna neikvæðra viðbragða Rússlands. Hér vil ég fyrst og fremst undirstrika að Rússland er og verður fullgildur aðili að hinu nýja öryggisfyrirkomulagi Evrópu og er fullgildur aðili að mörgum þeim stofnunum og samtökum sem koma þar við sögu, eins og Sameinuðu þjóðunum, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuráðinu, samskiptahópnum og síðan með samstarfi við þær stofnanir sem það er ekki aðili að eins og við Atlantshafsbandalagið. En NATO og Rússland eiga margþætt og náið samstarf á vettvangi samstarfsráðs þessara aðila og starfa einnig að friðarframkvæmdinni í Bosníu í góðu samstarfi.

Atlantshafsbandalagið hefur einnig komið til móts við áhyggjur stjórnvalda í Rússlandi vegna stækkunarinnar með einhliða yfirlýsingu um að bandalagið hafi hvorki þörf fyrir né áform um varanlega staðsetningu herliðs eða kjarnavopna í nýjum aðildarríkjum.

Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madrid 8. og 9. júlí 1997 var ákveðið að bjóða Póllandi, Ungverjalandi og Tékklandi að hefja aðildarviðræður við bandalagið. Jafnframt var ítrekað að bandalagið yrði áfram opið lýðræðisríkjum í Evrópu sem gætu stuðlað að framkvæmd markmiða Norður-Atlantshafssamningsins óháð landfræðilegri legu.

Hvað varðar önnur umsóknarríki var sérstaklega getið þróunar í átt til lýðræðis og réttarríkis í Rúmeníu og Slóveníu og árangurs í eflingu stöðugleika og samvinnu ríkja á Eystrasaltssvæðinu og þar fyrst og fremst hugsað um Eistland, Lettland og Litháen. Þessi ákvörðun var mjög í samræmi við afstöðu Íslands sem sett hafði verið fram á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Sintra þá um vorið um að bjóða eingöngu þremur ríkjum í þessari stækkunarlotu til aðildarviðræðna. Tilvísunin til Eystrasaltsríkjanna var að mínu mati mikill sigur hafandi í huga þann stuðning sem við höfum sýnt aðild þessara ríkja og verulegri andstöðu við það að þessi ríki yrðu sérstaklega nefnd í sambandi við þessar ákvarðanir.

Í Madrid var einnig samþykkt að efla tvíhliða skoðanaskipti við ríki sem lýst hafa áhuga á aðild að bandalaginu. Stjórnvöld í nokkrum þessara ríkja hafa síðan haldið tvíhliða fundi með fastaráði bandalagsins eða fulltrúum alþjóðastarfsliðs höfuðstöðva þess til að ræða hvernig þau geti best undirbúið aðild að bandalaginu.

Aðildarviðræður fulltrúa Póllands, Tékklands og Ungverjalands við fulltrúa Atlantshafsbandalagsins fóru fram á haustmánuðum 1997 og lauk með því að ríkisstjórnir ríkjanna þriggja óskuðu eftir aðild að Norður-Atlantshafssamningnum og hétu því að virða þær skuldbindingar sem aðild fylgdu. Utanríkisráðherrar aðildarríkja bandalagsins undirrituðu svo viðbótarsamninga um aðild ríkjanna þriggja 16. des. 1997 með fyrirvara um samþykkt þjóðþinga landanna.

Áður en viðbótarsamningarnir um aðild ríkjanna þriggja voru undirritaðir lét Atlantshafsbandalagið gera kostnaðar\-áætlun vegna fyrirhugaðrar fjölgunar aðildarríkja. Niðurstöður þessarar áætlunar benda til þess að sameiginleg útgjöld bandalagsins muni aukast um um það bil 1,5 milljarða Bandaríkjadala á næstu tíu árum og þar af fari um 1,3 milljarðar til mannvirkjagerðar í nýju aðildarríkjunum. Ríkin þrjú munu sjálf þurfa að greiða kostnað vegna aðlögunar vegna eigin varna í samræmdu varnarkerfi bandalagsins og ekki er gert ráð fyrir að núverandi aðildarríki þurfi að breyta eigin varnaráætlunum eða auka útgjöld til varnarmála vegna fjölgunar aðildarríkja. Með þetta í huga má ljóst vera að viðbótarútgjöld Íslands vegna þessarar stækkunar eru ekki umtalsverð m.a. vegna þess að við greiðum ekki í Mannvirkjasjóð bandalagsins þannig að af þessari áætlun þurfum við einungis að greiða hlutdeild í 200 millj. bandaríkjadala en þátttaka okkar í kostnaði Atlantshafsbandalagsins er 0,05%. Þar að auki er ljóst að hin nýju ríki munu að sjálfsögðu taka þátt í þessum kostnaði þannig að kostnaður Íslands verður ekki umtalsverður. En ljóst er að við þurfum að styrkja starf okkar í Brussel og þegar hefur verið ákveðið að fjölga þar um eitt stöðugildi vegna aukinna umsvifa Atlantshafsbandalagsins á mörgum sviðum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.