Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:07:33 (4897)

1998-03-19 11:07:33# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:07]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Málið sem hér er á dagskrá er mikilvægt og krefst þess að um það fari fram ítarleg umræða og það var þess vegna sem við í þingflokki Alþb. og óháðra óskuðum eftir því að umræðutíminn yrði lengdur aðeins því að samkvæmt þingsköpum er það svo að ef ekki er beðið um sérstaka umræðu þá er umræðutíminn aðeins átta mínútur og það er allt of knappt miðað við aðstæður og mál af þessu tagi. Þess vegna báðum við um tvöföldun á tímanum þannig að menn hafa 15 mínútna ræðutíma sem er í raun ótrúlega lítið líka miðað við hvað stórt mál er á ferðinni, mál sem markar mikil tímamót í sögu og áherslum öryggis-, afvopnunar- og vígbúnaðarmála í okkar heimshluta núna eftir að múrinn hrundi árið 1989 og þær breytingar sem þar áttu sér stað.

Varðandi spurninguna um stækkun Atlantshafsbandalagsins vakna margar nýjar spurningar. Í fyrsta lagi er á það bent að með því að knýja fram stækkun Atlantshafsbandalagsins á þann hátt sem nú er gert, þá geti það haft í för með sér, m.a. vegna afstöðu Rússa, vaxandi ófriðarhættu og spennu á nýjan leik. Ég held að alveg nauðsynlegt sé að hafa skoðun á því eða a.m.k. fara um það nokkrum orðum hvort að einhverju leyti sé hætt við því að stækkun bandalagsins á þann hátt sem nú er gert ráð fyrir þýði harðari viðbrögð Rússa en ella hefðu þurft að vera. Ég held að nauðsynlegt sé að velta því fyrir sér og þá er ég ekki að tala um Rússland eitt heldur líka nánustu grannríki þess. Þetta hefur auðvitað komið fram í yfirlýsingum Rússa að undanförnu í alls konar greinum og ræðum og líka í stjórnarathöfnum, m.a. í afstöðu þeirra til þess að staðfesta aðild að START-2 samkomulaginu.

Í öðru lagi þurfa menn að spyrja sig þeirrar spurningar hvort stækkun Atlantshafsbandalagsins geti haft í för með sér aukinn vígbúnað í heiminum almennt. Það er alveg greinilegt að hergagnaframleiðendur í Evrópu og Bandaríkjunum líta þessa stækkun Atlantshafsbandalagsins hýru auga. Þeir hafa þegar reynt að koma sér upp tengslum við ríkisstjórnirnar í þeim löndum þremur sem hér er um að ræða í því skyni að hirða sem mest af ávinningnum af stækkun NATO vegna þess að það er vitað að hergögn í þeim löndum sem hér um ræðir eins og í öðrum löndum Austur-Evrópu eru léleg og þau eru talin úrelt af þeim sem þekkja til á þessu sviði. Þess vegna er það niðurstaða allra þeirra sem hafa fjallað um þessi mál að þessi ákvörðun um stækkun Atlantshafsbandalagsins þýði aukinn vígbúnað og aukna hergagnaframleiðslu og þar af leiðandi aukna ófriðarhættu í heiminum frá því sem ella hefði verið.

Í þriðja lagi er það gagnrýnt í tengslum við þessi mál og menn velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið nær að nota þessa milljarða dollara sem hér er um að ræða í annað, hvort það er í samræmi við þær breytingar sem hafa verið að ganga yfir í heiminum að verja öllum þessum fjármunum í vígbúnað. Það er rosalegt að horfa á eftir 1,5 milljörðum dollara í vígbúnaðarframleiðslu, í hergagnauppbyggingu á næstu tíu árum vegna þessarar ákvörðunar sem menn eru að tala um hér og þá er bara verið að tala um kostnað Atlantshafsbandalagsins en ekki um þann kostnað sem hlýst af þessum ákvörðunum í hinum væntanlegu þremur aðildarríkjum. Þannig að þegar upp er staðið þá er hér um að ræða milljarða dollara kostnað og þeir, sem spyrja spurninga eins og ég er að gera hér, í löndum Vestur-Evrópu hinnar gömlu og Austur-Evrópu þar sem í raun er verið að byggja upp ný þjóðfélagskerfi, þeir segja sem svo: Hefði ekki verið nær að nota þessa peninga til að byggja upp lífskjör, m.a. í þessum ríkjum Austur-Evrópu? Hefði ekki verið nær að reyna að byggja upp lífskjör atvinnuleysingjanna í Evrópu um þessar mundir sem eru taldir í tugum milljóna? Hefði það ekki verið nær? Er þetta viðbragð, stækkun NATO, í raun og veru ekki gamaldags kaldastríðsviðbragð af því að menn sjá aldrei aðrar leiðir en þeir hafa farið áður og treysta sér ekki til að takast á við ný verkefni?

Þess vegna spyrja menn sig að því í fjórða lagi, herra forseti: Hefði ekki verið skynsamlegra að leita annarra leiða, nýrra leiða í þessum efnum og er ekki nauðsynlegt fyrir land eins og Ísland að setja á dagskrá ný verkefni þó gömul séu í þessum málum? Ég tel t.d., herra forseti, að þær hugmyndir sem uppi voru um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd og yfirlýsingar í þeim efnum verði á dagskrá á ný með þessum ákvörðunum. Ég tel líka í beinu framhaldi af þessu að hugmyndirnar um kjarnorkuvopnalaust belti niður eftir Mið-Evrópu sem var rætt oft áður en hefur lítið verið rætt í seinni tíð, sé mál sem verði að taka á dagskrá ef þessi stækkun Atlantshafsbandalagsins verður að veruleika eins og allt bendir til.

Ég held líka að menn hefðu átt að leggja vinnu og hugsun í eflingu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, frekar en fara þessa leið vegna þess fyrst og fremst að þar eru allir inni. Svörin við þessu eru væntanlega þau að ÖSE eru veik samtök eins og er. Það er mikið til í því. En hvað þarf að gera við þann sem er veikur? Það þarf að styrkja hann. Ég dreg í efa að forráðamenn Atlantshafsbandalagsins hafi haft vilja til þess að styrkja ÖSE eins og þurft hefði að gera til þess að það gæti gegnt því hlutverki sínu að vera sameiningar-, samræmingar- og síðan friðarvettvangur í Evrópu en á því þurfum við að halda miklu frekar en gamaldags stækkun á eldgömlu hernaðarbandalagi.

Ég held líka að við þurfum að hugsa þetta mál út frá því, herra forseti, að öryggisskipan mála í Evrópu geti orðið mikilvægur hluti af öryggisskipan í heiminum öllum og að í staðinn fyrir að menn byggi upp Atlantshafsbandalagið í Evrópu einhliða og dragi jafnvel upp ný tjöld, þá reyni menn að þróa öryggi, samvinnu og friðarviðleitni í Evrópu sem hluta af heimsuppbyggingu í þessum efnum þar sem t.d. Sameinuðu þjóðirnar verði allsherjarfriðar- og öryggissamtök fyrir allan heiminn, fyrir allan hnöttinn.

[11:15]

Í fimmta lagi, herra forseti, tel ég að við eigum að velta mjög alvarlega fyrir okkur því sem fram hefur komið, m.a. í greinum eftir ýmsa ákafa og trúverðuga talsmenn lýðræðisferlisins í Rússlandi. Þeir hafa áhyggjur af því að þetta geti orðið til þess að Rússar verði að verja auknum fjármunum til hernaðaruppbyggingar sem aftur muni tefja lýðræðisferlið í Rússlandi. Ég held að það sé alvarlegt mál og við eigum að horfast í augu við það. Ég vísa í þessu sambandi á greinar, sem menn hafa t.d. ágætan aðgang að á internetinu, eftir Mikhail Gorbatsjov og fleiri mæta menn sem beinlínis hafa varað við því að hernaðaruppbygging hefjist í Evrópu á ný. Það er að gerast sitt hvoru megin við mörkin. Það mun hægja á lýðræðisferlinu á og þar með sjáum við fram á nýtt vígbúnaðarkapphlaup.

George Kennan hefur stundum verið talinn faðir þeirrar stefnu sem Bandaríkin ráku á kaldastríðstímanum. Sumir telja þá stefnu hafa verið ,,árangursríka``, en ég er ekki þeirrar skoðunar. Hann hefur komist þannig að orði að stækkun NATO sé örlagaríkasta vitleysan í amerískri pólitík eftir kalda stríðið. Hann rökstyður það með því að verið sé að setja af stað spennuferli á nýjan leik að óþörfu.

Auðvitað er vert að muna eftir því og tala um að þjóðirnar í Póllandi, Ungverjalandi og í Tékklandi vilja gjarnan treysta stöðu sína með aðild að Atlantshafsbandalaginu. Svo ég segi alveg eins, miðað við það sem þær hafa gengið í gegnum með nábýlið við austrið, þá er ekkert skrýtið að þær skuli vilja þessa leið. Ef þær eiga engan annan kost en þennan, ef ÖSE er meira og minna ónýtt og afskrifað af Bandaríkjamönnum, Bretum og þeim aðilum sem nenna ekki að leggja þá hugsun og peninga í málið sem þyrfti, þá er ekki skrýtið að þessar þjóðir hugsi sem svo: Við verðum að treysta öryggi okkar með einhverjum hætti og þá er þetta betra en ekki neitt. Þær horfast í augu við það að menn ætla að nálgast málin út frá þessum gömlu kaldastríðsaðferðum og halda að vígbúnaður og hergagnauppbygging sé alltaf besta svarið við öllum vanda.

Ég hygg að við munum það öll ákaflega vel hvernig heimurinn fagnaði hruni múrsins og hvernig menn upplifðu hrun múrsins sem stórkostleg kaflaskipti í sögu mannkynsins. Ég vona að einhverjir muni eftir því þegar Pink Floyd hélt tónleika við hruninn múrinn. Ég vona að einhverjir hér muni eftir því að þeir fundu að þá voru að gerast tíðindi í heiminum. Þeir fundu að gerst hefðu tíðindi í heiminum. Það voru ný tíðindi um nýjan heim, opinn heim og betri. Evrópa var sameinuð þar sem tjaldinu var rutt til hliðar og menn gátu talað saman. Menn hlupu á harðahlaupum gegnum Brandenborgarhliðið sem þeir höfðu horft á eins og óvinnandi virki um áratuga skeið. Þetta var stórkostleg tilfinning fyrir alla sem fylgdust með alheimsmálum á þessum tíma.

Ég óttast að snúa eigi þessu við og menn séu að smíða nýja veggi og nýja múra. Ég er viss um að aðrir sem munu tala í þessu máli segja: Nei, þetta er ekki svona. Ég er viss um að þeir munu segja: Nei, auðvitað stendur það ekki til. Vandinn er hins vegar sá að þegar á þessa braut er komið, þá taka hin sjálfvirku lögmál oft völdin af skynsamari og vel meinandi mönnum. Hin sjálfvirku lögmál hernaðaruppbyggingarinnar taka völdin af öllum, líka þeim sem mæla með þessum tillögum. Menn ráða ekki neitt við neitt og uppbyggingin og spennan heldur áfram. Hættan fer vaxandi.

Er það ekki eðlilegt, herra forseti, að Rússar spyrji núna þeirra spurninga í blöðum: Af hverju þessi uppbygging og spenna, þegar búið er að leggja niður Varsjárbandalagið? Þegar Rússar hafa í raun tekið upp kapítalisma er ekki lengur hægt að nota hinar hugmyndafræðilegu deilur sem yfirvarp eða ástæðu, hvort heldur sem menn vilja kalla það. Af hverju þetta þegar múrinn er hruninn og Þýskaland er eitt á ný? Af hverju?

Það er eðlilegt að þessara spurninga sé spurt. Það gætir ótta og biturleika í ýmsum þeim greinum sem maður hefur séð í þessum efnum. Við heiminum blasa þá hinir gömlu stórveldishagsmunir þar sem hver er að tryggja sitt. Þegar umræðan um stækkun NATO var sem áköfust í þinginu, í fyrra frekar en hittiðfyrra, þá man ég t.d. eftir því að þeir fulltrúar Sjálfstfl. sem tóku þátt í umræðunni, lögðu gríðarlega áherslu á að Eystrasaltslöndin yrðu að fylgja með. Ég man eftir því að Per Stig Møller, sem nú er formaður danska íhaldsflokksins, sagði einhvers staðar að það versta sem gæti gerst fyrir Eystrasaltslöndin væri að stækkun NATO yrði ákveðin án þeirra. Þannig er stórhættulegt að halda þannig á hlutunum.

Ég held að nákvæmlega það gæti verið að gerast í þessum efnum, herra forseti, að staða Eystrasaltslandanna, miðað við það sem menn töluðu um á þessum tíma, geti í raun og veru verið krítísk og þess vegna séu menn þarna frá öllum bæjardyrum séð, bæði frá mínum sem tala frá almennum vinstri pólitískum sjónarmiðum gjarnan og eins frá sjónarmiðum þeirra sem töluðu fyrir t.d. hægri flokkana í Norðurlandaráði í fyrra og hittiðfyrra. Ég held að það hljóti að vera umhugsunarefni að þetta mál ætli að þróast svona.

Hættan er sú, herra forseti, að kalt stríð gæti hafist að nýju. Það gæti hafist nýtt hernaðarkapphlaup með milljarða dollara óþörfum hernaðarútgjöldum. Hættan er sú að það dragi úr lýðræðisvæðingunni í Austur-Evrópu. Hættan er sú að það tefji friðarþróun í heiminum að fara þá leið sem hér er verið að leggja til.

Herra forseti. Miðað við þessar aðstæður hljóta menn að velta því fyrir sér hvaða afstöðu þingmenn munu taka við afgreiðslu á þessari tillögu þegar hún að lokum kemur til meðferðar. Af máli mínu er auðvitað alveg ljóst að við munum ekki greiða atkvæði með þessari tillögu. Hvort okkur verður gefinn annar kostur en að sitja hjá í málinu skal ósagt látið á þessu stigi. Hér er Alþingi Íslendinga meira og minna stillt upp frammi fyrir gerðum hlut en það er mál sem við munum gera upp á síðari stigum málsins við meðferð þess í utanrmn.