Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:25:59 (4899)

1998-03-19 11:25:59# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:25]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að það er ekki samkvæmt þingsköpum en ég segi það samt: Mikil er trú þín hæstv. utanrrh.

Ég er ekki alveg viss um að þetta sé eins og hæstv. utanrrh. lýsti. Ég held að málið sé þannig að þessi þróun geti haft í för með sér aukna spennu eins og ég rökstuddi áðan. Þeir geta haft það í för með sér að það dragi úr þeim lýðræðislegu breytingum sem þurfa að verða í hinni gömlu Vestur-Evrópu. Þau geti haft í för með sér milljarða útgjöld til hernaðar á og þar með vaxandi ófriðarhættu í heiminum. Öll þessi atriði tel ég að eigi tvímælalaust rétt á sér í þessu máli. Ég tel að það hefði verið skynsamlegra að þróa ÖSE í þá átt að þau samtök yrðu samnefnari og samvinnuvettvangur fyrir alla Evrópu. Þar með hefðu þau verið grundvöllur að víðtækari öryggis- og friðarsamtökum heimsins alls. Þau gætu jafnvel orðið hornsteinn slíkra samtaka.

Ég tel að það að ætla sér að svara öllu með stækkun Atlantshafsbandalagsins tryggi í raun og veru ekki lausn á nokkru máli. Mér finnst viðbrögð hæstv. utanrrh. og svar hans hafi ekki byggst á neinu öðru en því sem honum finnst. Ég ber fulla virðingu fyrir því en það dugir mér ekki vegna þess að spurningarnar vaka áfram eins og ég rakti hér í ræðu minni.