Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:30:02 (4901)

1998-03-19 11:30:02# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:30]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þetta sé allt saman athyglisvert sem hæstv. ráðherra sagði en mér finnst hann setja málið alltaf þannig upp að ekki hafi verið neitt val í þessu máli, þ.e. annað hvort stækkun NATO, uppbygging NATO eða í raun og veru ekki neitt. Eða það að þessar þjóðir væru þá dæmdar til að búa til nýtt og sitt eigið hernaðarbandalag. Ég hef ekki sett málið þannig upp. Ég hef sagt sem svo: Hér hefðu menn átt að leggja meiri vinnu, hugsun og peninga í að þróa nýtt öryggiskerfi fyrir Evrópu á grundvelli ÖSE frekar en að fara þessa leið.

Ég viðurkenni líka að það mjög mikilvæga sjónarmið sem hæstv. utanrrh. nefndi í andsvari sínu og ég mjög rækilega í ræðu minni áðan, að það er mikilvægt að hlusta á þetta fólk. Ég geri ekki lítið úr viðhorfum þess eins og ég gerði grein fyrir í ræðu minni áðan. En við skulum gera okkur grein fyrir því að um leið og menn eru að horfa til þessara 80% sem auðvitað styðja þessa hluti eins og þeir eru núna af því að enginn annar valkostur er settur fram þá kjósa menn þennan. Og um leið og það er þannig þá eru menn að neita öllum hinum, því það er ljóst að fjöldinn allur af öðrum aðilum, öðrum ríkjum, m.a. Eystrasaltsríkjunum vilja sækja um aðild að þessu bandalagi. En menn hafa neitað þeim. Ég tel líka að stórkostlegur tvískinnungur sé vaðandi uppi í þessu máli. En látum það allt vera. Grundvöllur ræðu minnar var fyrst og fremst sá að þetta gæti haft í för með sér aukna spennu, það gæti haft í för með sér að menn væru að hefja nýtt kalt stríð, það gæti haft í för með sér að menn væru að eyða milljörðum dollara í vígbúnað sem menn hefðu ekki þurft að nota annars og gæti haft það í för með sér að það hægði á lýðræðisþróuninni í Austur-Evrópu. Þetta er ekkert lítið og engin gild rök hafa komið fram sem segja: ,,Allt þetta er rangt.``