Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:32:04 (4902)

1998-03-19 11:32:04# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hafa þegar spunnist athyglisverðar umræður um þessa tillögu sem liggur fyrir af hendi ríkisstjórnarinnar. Áður en ég vík mér að efnislegri umræðu um þá tillögu langar mig að segja að mér þótti málflutningur hv. þm. Svavars Gestssonar áðan vera mjög athyglisverður og talsvert í öðrum farvegi en oft hefur verið af hálfu Alþb. þegar umræður um þessi mál hafa verið. Margt sem hann sagði var vel þess virði að skoða ofan í kjölinn. Reyndar var athyglisvert að sjá að ákveðinn samhljómur var í því sem hv. þm. sagði áðan við ræður öldungadeildarþingmanna í Bandaríkjunum sem við höfum m.a. séð í fjölmiðlum síðustu daga, þ.e. öldungadeildarþingmanna harðskeyttra repúblikana.

Mig langar áður en ég vík að tillögunni sjálfri að drepa á eitt atriði í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar. Hann flutti langt mál og tíndi ýmislegt til með hógværum og málefnalegum tilbúnaði sem hneig að þeirri niðurstöðu að hann væri á móti þessari tillögu þótt ekki kæmi það skýrt fram hjá honum. Hann taldi að með því öryggisumhverfi sem við erum að leggja af stað inn í með samþykkt þessarar tillögu í þjóðþingum þeirra landa sem að Atlantshafsbandalaginu standa værum við í rauninni að auka spennu og við kynnum að magna upp nýtt kalt stríð. Þetta sagði hv. þm. og hann spyr: ,,Hvers vegna leggjum við upp í þetta ferðalag?`` Mér þótti sem hv. þm. skjöplaðist vegna þess að honum yfirsást gríðarlega mikilvægt atriði. Atriði sem er sérlega mikilvægt fyrir menn eins og okkur sem tilheyrum smáþjóð og það er sjálfsákvörðunarréttur fullvalda ríkja. Hann er ástæðan fyrir því að þessi stofnun er til sem við störfum í hér dag hvern. Það er sjálfsákvörðunarréttur fullvalda ríkja sem sérstaklega smáríkjum eins og okkur er skylt að hafa í heiðri. Ástæðan fyrir því að þessi þrjú ríki eru núna að verða fullgildir aðilar að NATO og að níu önnur ríki hafa sótt um aðild að NATO og að þrjú smáríki sem hv. þm. nefndi áðan, Eystrasaltslöndin, hafa sett sem forgangsmál númer eitt á sínar utanríkismálastefnuskrár, er auðvitað sú staðreynd að þessi ríki kjósa sjálf að vera innan þessa varnarbandalags.

Ýmislegt fleira sem kom fram í ræðu þingmannsins ætla ég að ræða síðar, herra forseti. Ég vil segja í upphafi að ég og þingflokkur jafnaðarmanna stöndum heils hugar að þessari tillögu. Við munum gera það sem í okkar valdi stendur til að sjá til þess að hún verði samþykkt á þeim skamma tíma sem lifir þessa þings.

Eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði með nokkurri stemmningu í sinni ræðu þá var það heimssögulegur atburður þegar Berlínarmúrinn hrundi og hrun hans var líka um leið táknrænt fall þess einræðisskipulags sem kommúnisminn í Austur-Evrópu hafði komið á fót, og með honum var lagður grundvöllur að gjörbreyttri og nýrri heimsmynd. Í kjölfarið hafa hlutverk ýmissa alþjóðlegra samtaka á borð við Atlantshafsbandalagið að minni hyggju breyst. Ég tel að tilgangur og eðli NATO hafi breyst og ég held að hv. þm. Svavari Gestssyni og þingmönnum Alþb. væri hollt að reyna að skoða hlutverk Atlantshafsbandalagsins með öðrum gleraugum en þeim gömlu sem menn höfðu áður en þessar heimssögulegu breytingar urðu árið 1989. Við höfum t.d. séð og staðið öll andspænis vanmætti Evrópu til að stilla til friðar í ríkjum eins og á Balkanskaga þar sem tundur hefði getað glæðst í alheimsloga. Það hefði getað leitt til gríðarlegs ófriðarbáls á heimsvísu en við gátum ekki leyst þetta sjálf. Við þurftum atbeina Bandaríkjanna í gegnum Atlantshafsbandalagið. Þetta er staðreynd og mér finnst að menn ættu að leyfa sér þann munað að skoða tilgang Atlantshafsbandalagsins út frá henni. Ég vek líka athygli á því, af því hv. þm. Svavar Gestsson talaði um að nauðsynlegt væri að velta fyrir sér Sameinuðu þjóðunum sem friðarbandalagi heimsins, að það var einmitt einn af forustumönnum í Alþb. sem fyrstur manna reifaði þennan möguleika með rökum og gat þess þá að NATO kynni mögulega að eiga þar hlutverki að gegna sem eins konar varnarsamtök eða varnarstoð undir þessu nýja hlutverki og breyttum Sameinuðum þjóðum.

Ég tel, herra forseti, að þessi tillaga sem liggur fyrir sé í rauninni staðfesting á því að nýtt öryggisumhverfi er að skapast í Evrópu. Ég er algjörlega sammála þeirri niðurstöðu sem varð af hálfu forustumanna Atlantshafsbandalagsins og þeim málabúnaði sem forustumenn íslensku ríkisstjórnarinnar sem þar tóku þátt í málum, höfðu í heimanmund. Eins og menn muna sóttu fimm ríki mjög fast eftir að fá aðild að Atlantshafsbandalaginu og það má heita að nánast öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafi líka stutt, fyrir utan Ungverjaland, Tékkland og Pólland, aðild Slóveníu og Rúmeníu. Það var talið mjög líklegt að þessi þrjú ríki myndu ná fulltingi bandalagsins til fullrar aðildar. Bandaríkjamenn lögðust gegn þessu og Íslendingar fylgdu þeim að málum. Sumir lögðu þeim það til lasts og töldu það óhóflega fylgispekt. En ég tel, herra forseti, að þar hafi ríkisstjórnin haldið hárrétt á málum. Ástæðan fyrir því er m.a. sú að við höfum tekist á hendur vissar siðferðilegar skuldbindingar gagnvart öðrum smáþjóðum eins og Eystrasaltsríkjunum. Við höfum gerst málsvarar þeirra á alþjóðlegum vettvangi. Við áttum talsverðan þátt í því að þessar þjóðir náðu þó þeirri stöðu sem þær hafa í dag og þær hafa óskað þess mjög eindregið, allar þrjár, að hljóta fulla aðild að Atlantshafsbandalaginu. Það hefur engin þjóð stutt það jafnríkulega og Íslendingar. Ég tel því að frá sjónarhóli þeirra og þess stuðnings sem við höfum jafnan sýnt þeim hafi það verið mjög farsælt að niðurstaðan varð sú að ákveðið var að taka inn þessar þrjár þjóðir í fyrstu atrennu, en að það var jafnframt nefnt, eins og kemur fram í fylgiskjali, að menn vænta þess að síðan verði önnur lota þar sem tekin verði inn fleiri ríki. Menn nefna þar þá Rúmeníu og Slóveníu en auðvitað skiptir miklu máli að þar voru nefnd Eystrasaltsríkin þrjú og e.t.v. varð það ekki síst fyrir atbeina Íslendinga, að þau hlutu þá stöðu að vissar væntingar voru gefnar um hlutskipti þeirra í framtíðinni. Þess vegna segi ég að ég held að þessi niðurstaða hafi verið mjög góð.

Ég held líka að nauðsynlegt sé að skoða það sem hæstv. utanrrh. kallaði nýtt öryggisumhverfi í Evrópu út frá öðrum hlutum líka. Atlantshafsbandalagið leikur þar ekki einungis stórt hlutverk heldur líka Evrópusambandið í vaxandi mæli. Þótt Evrópusambandið hafi ekki neina sérstaka formlega varnarstoð --- menn líta svo á að Vestur-Evrópusambandið sé það öðrum þræði, þótt svo sé ekki formlega --- þá er það samt sem áður svo að Evrópusambandið og það samstarf sem þar hefur verið á síðustu árum, ég tala nú ekki um það samstarf sem þar er að takast á sviði hins sameiginlega gjaldmiðils, eykur stórkostlega að ég tel öryggið í Evrópu. Það er miklu erfiðara fyrir ríki að fara í stríð ef þau hafa t.d. sama gjaldmiðil. Það er miklu erfiðara fyrir þau ef það er að stóru leyti búið að má út tilbúin landamæri millum þeirra.

Ég vek athygli á því að þegar Eystrasaltsríkin stóðu frammi fyrir þeirri staðreynd að þau áttu þess ekki kost að verða hlutar af Atlantshafsbandalaginu þá braust þessi skilningur sem ég er að lýsa á varnareðli Evrópusambandsins einmitt fram í fréttatilkynningu sem Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendi frá sér þar sem hún benti einmitt á þann möguleika að það mundi auka öryggi, hún sagði nú reyndar sérstaklega öryggiskennd borgaranna í þessum þremur ríkjum, ef þeim yrði veitt aðild að Evrópusambandinu.

Í þeirri framtíðarsýn, sem forustumenn Evrópusambandsins hafa sett fram og tekur m.a. til kandídata sem kynnu að verða aðilar að Evrópusambandinu, eru þessi þrjú ríki ekki öll þar inni. Það er einungis Eistland þeirra þriggja en þar er Slóvenía, þó ekki Rúmenía, en þetta gefur líka ákveðin fyrirheit og fyrir utan Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið skiptir Vestur-Evrópusambandið líka í vaxandi mæli nokkru í þessum efnum. Við Íslendingar hljótum auðvitað að horfa á þetta allt saman í einu og það skiptir talsverðu máli fyrir varnarhagsmuni og öryggishagsmuni okkar að þróun Vestur-Evrópusambandsins verði með þeim hætti að ekki verði efldur formlegur burðarás varna Evrópusambandsins. Það kynni að þjóna öðrum hagsmunum en endilega okkar. Ég held líka að það sé mikilvægt, sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði og hefur reyndar oft komið fram í umræðum, að þegar menn eru að velta fyrir sér stækkun NATO þarf auðvitað að reyna að haga því þannig að það skapi ekki aukna ólgu, t.d. innan Rússlands. Ég er sammála því sjónarmiði en um leið hlýt ég að segja að með engu móti má gefa Rússlandi undir fótinn með að það hafi á einhvern hátt neitunarvald. Það er athyglisvert að þrátt fyrir að hv. þm. Svavar Gestsson segði að þetta hefði skapað vaxandi ólgu meðal Rússa hefur sú stækkun sem hér liggur fyrir ekki hlotið harðvítug mótmæli Rússa, ekki þessi stækkun, en þeir hafa hins vegar stappað niður fæti vegna hugmynda um að taka Eystrasaltslöndin þarna inn. En ég vek athygli á því að þessi stækkun hefur farið tiltölulega friðsamlega fram, m.a. vegna þess að Atlantshafsbandalagið hefur gert það sem í valdi þess stendur til að sýna Rússum fram á að það er ekki verið að auka ógnarmátt ríkja gagnvart því. Það skiptir miklu máli.

Hv. þm. Svavar Gestsson leiddi getum að því að með þessu væri verið að auka spennu. Hann sagði líka að verið væri að endurnýja hergagnaiðnað heimsins með því að stækka NATO. Þetta held ég, eins og reyndar hæstv. utanrrh. sagði í stuttu andsvari áðan, að sé algerlega rangt. Hv. þm. Svavar Gestsson hefði t.d. haft nokkurn lærdóm af því hefði hann verið með okkur nefndarmönnum í utanrmn. á fundi í fyrradag sem við áttum með tékkneskri sendinefnd sem var hér á ferðinni. Það voru fulltrúar beggja deilda tékkneska þingsins og við ræddum sérstaklega við nefndarmennina kostnaðinn sem Tékkar mundu hafa af því að ganga í NATO, vegna þess að við höfðum jú fyrir okkur þessar stóru tölur. Þeir fullvissuðu okkur um að þeir hefðu sjálfir orðið næsta undrandi þegar búið var að leggja mat á kostnað þeirra, vegna þess að niðurstaðan var þessi: Það mundi hafa í för með sér svolítinn viðbótarkostnað í upphafi, en síðan myndi þátttakan í NATO leiða til sparnaðar. Af hverju, herra forseti? Vegna þess að þeir búa við úreltar varnir, búa að úreltum austur-evrópskum tækjum og fyrir lá að þeir þyrftu að endurnýja varnarmátt sinn. Þeir peningar sem í það hefðu farið eru peningar sem eru notaðir til að geta gerst aðilar að NATO núna. Þeir sögðu líka, sem var afar athyglisvert, að sú staðreynd að þeir væru aðilar að stóru varnarbandalagi mundi í framtíðinni draga úr kostnaði þeirra við varnir síns lands. Það þýðir, herra forseti, að þátttaka í stóru og öflugu varnarbandalagi dregur úr kostnaði einstakra, smárra þátttökuríkja. Það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði hygg ég að sé alls ekki rétt. Er það svo að þetta gæti tafið lýðræðisþróunina í Rússlandi eða Austur-Evrópu? Hv. þm. telur að svo sé og ég á í sjálfu sér erfitt með að færa einhver handtæk rök gegn því.

[11:45]

Skoðun mín er sú að svo sé ekki. Hún byggist á því að það sé yfirgnæfandi vilji þeirra, sem búa í þessum löndum, að þróunin verði með þessu móti. Ef við látum að vilja fjöldans þá finnst mér að við séum að styrkja lýðræðið. Ef við göngum gegn vilja fjöldans þá tel ég að við séum að veikja það. Þá erum við í rauninni að styðja einhvers konar stjórn sem byggir ekki á hinu dreifða valdi.

Þetta eru kannski einu rökin sem ég get fært fram gegn þessu. Hv. þm. sagði að skoðun hæstv. utanrrh. sem ég deili á þessu byggðist ekki á neinum staðreyndum heldur einungis tilfinningum. Ég get ekki fært nein önnur rök en þessi. En það sem skiptir máli er að þetta er það sem þjóðirnar vilja sjálfar. Og drottinn minn dýri, eigum við þá, smáþjóð, sem lifum og höfum lifað í gegnum erfiða tíma einmitt vegna þess að sjálfsákvörðunarréttur fullvalda þjóðar hefur verið virtur, að koma hingað og fara að kvarta undan því að það gerist í þessu tilviki? Mér finnst það algjörlega fráleitt. Ég held að grundvallaratriðið í málinu sé að þetta er ákvörðunarréttur þjóðarinnar.

Þess vegna segi ég: Ég er alveg viss um að Rússar yrðu ekki glaðir, þeir yrðu satt að segja afskaplega óhressir ef Eystrasaltsþjóðirnar þrjár yrðu gerðar að fullgildum aðilum í NATO. Ég er viss um að það mundi tímabundið magna einhverjar viðsjár og spennu. Hins vegar er sjálfsákvörðunarréttur þessara þjóða sem gildir. Ef þær vilja fela hagsmuni sína þessu bandalagi á vald þá tel ég að það sé ekki hægt að standa gegn því. Ég held að þetta skipti meginmáli og þetta er grundvallarpunkturinn í þessu, herra forseti.

Ég segi það svo að lokum að ég er sammála, eins og ég hef sagt áður, meginhugsun þáltill. og tel að utanrrmn. eigi að gera það sem hún getur til að hraða málinu í gegnum þingið.