Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:48:56 (4904)

1998-03-19 11:48:56# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:48]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki tækifæri til að taka á mörgu á einni mínútu. Ég mun ræða þetta mál e.t.v. síðar í umræðunni. En það er eitt atriði í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem ég vildi koma að og það snýr að Vestur-Evrópusambandinu. Ég tek eftir því að hv. þm. mælir með því á vettvangi Vestur-Evrópusambandsins að athugað væri að Ísland yrði þar fullgildur aðili. Um þetta má lesa í skýrslu sem liggur fyrir þinginu, Vestur-Evrópusambandið. Ég tel athyglisvert að þessi stefna skuli liggja fyrir af hálfu Alþfl. eða þingmanna jafnaðarmanna á Alþingi, að þetta eigi að athuga.

Ég tel að Vestur-Evrópusambandið sé einn þátturinn í þróun Evrópusambandsins til fullgilds ríkjasambands og þó að formlega hafi ekki verið stigið skref með Amsterdam-sáttmálanum um að gera Vestur-Evrópusambandið að hernaðararmi Evrópusambandsins, þá stefnir í þá áttina og mjög sterkir kraftar vinna að því. Ég lít svo til að þetta sé liður í þeirri stefnu þingflokks jafnaðarmanna að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, að við eigum einnig að fara formlega inn í þennan hernaðarklúbb, væntanlegan hernaðararm Evrópusambandsins og gerast þar fullgildir aðilar. Það er óhjákvæmilegt að ræða þennan þátt samhliða því sem við erum að ræða um stækkun NATO. Þess vegna tek ég þetta upp.