Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:50:44 (4905)

1998-03-19 11:50:44# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. að ég hef reifað þennan möguleika í ræðum mínum á þingi Vestur-Evrópusambandsins. Ég hef líka gert það hér og það hafa a.m.k. einn ef ekki tveir aðrir þingmenn gert það líka. Það er líka rétt hjá hv. þm. að öðrum þræði byggist afstaða mín á þeirri skoðun að Ísland eigi að vera aðili að Evrópusambandinu.

Á hinn bóginn tel ég líka að mikilvægt sé fyrir hagsmuni Íslands, eins og hefur margsinnis komið fram í ræðum mínum hérna, að Vestur-Evrópusambandið þróist ekki yfir í það að svo stöddu að verða varnarstoð Evrópusambandsins. Mér sýnist hins vegar mjög margt hvata að þeirri þróun. Þess vegna tel ég að ef Ísland væri fullgildur aðili að Vestur-Evrópusambandinu hefðum við aukinn mátt til að seinka þeirri þróun og þar með að vinna hagsmunum Íslands gagn.