Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 12:24:42 (4918)

1998-03-19 12:24:42# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[12:24]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fagna þingmáli því sem hér er komið fram. Ég tel að þetta þingmál sé fullkomin birting á sáttmála sem hefur verið undirbúinn á löngum tíma í viðræðum þessara nýju væntanlegu aðildarríkja að Norður-Atlantshafsbandalaginu, þeirra sem fyrir eru og raunar hinna sem Atlantshafsbandalagsríkin hafa þegar tekið upp náið samstarf við. Ég hygg, herra forseti, að við ættum að hafa það í huga þegar við ræðum um hugsanlegar afleiðingar eða áhrif þess að stækka Atlantshafsbandalagið með þessum hætti. Ég tel einnig rétt að við lítum til baka.

Það er merkilegt að stækkun bandalagsins, ef úr verður, sem við erum nú raunar öll viss um, verður um það leyti sem það hefur starfað í fimm áratugi. Þegar það hafði starfað í fjóra áratugi, gafst einnig ástæða til þess að líta til baka og skoða hvers vegna bandalagið var stofnað. Það var vegna ásælni austantjaldsríkjanna, raunar Sovétríkjanna sjálfra undir forustu Rússa, sem fram að stofnun Norður-Atlantshafsbandalagsins lögðu undir sig hvert Mið- og Austur-Evrópuríkið á fætur öðru. Þeir stofnuðu þá til hins sama og nasistar Þýskalands höfðu áður stefnt að, að eiga sér nýlendur í Evrópu og leggja undir sig þjóðir og lönd sem fram að því voru frjáls og sjálfstæð ríki. Hinn mikli arfur Sovétríkjanna er sá að hafa tekið upp fána nasismans.

Með stofnun þessa bandalags tókst að stöðva þessa þróun í Evrópu. Þegar við lítum til baka sjáum við að fjórum áratugum síðar hrundi alræðiskerfi sovétkommúnismans innan frá. Áratug eftir hrun Sovétríkjanna verða nokkur af þeim ríkjum sem hann lagði undir sig, fær um að taka þátt í nánast öllum samtökum vestrænna ríkja. Á þessu tímabili höfðu orðið miklu meiri framfarir á Vesturlöndum en austan járntjaldsins. Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að við höfum þetta í huga.

Það kom berlega í ljós þegar við sáum austur fyrir múrinn og austur fyrir járntjaldið að þar var ástand mála miklu lakara en við þekktum á Vesturlöndum. Ekki aðeins á sviði efnahagsmála heldur einnig mannréttinda. Einhverjum kynni að þykja merkilegt en ástandið var einnig slæmt í umhverfismálum og við vitum að það getur orðið langvarandi verkefni að fást við það ástand. Þetta alræðisstjórnkerfi kommúnistanna hafði aldrei talið ástæðu til að viðhafa mengunarvarnir í sama mæli og talin var ástæða til á Vesturlöndum. Náttúruauðlindir þeirra voru mjög illa á sig komnar, ekki aðeins vegna efnahagslegrar nýtingar heldur líka vegna spillingar sökum mengunar.

Ég hygg, herra forseti, að í tilmælum hinna nýfrjálsu Mið- og Austur-Evrópuríkja í lok síðasta áratugs hafi einmitt falist óskir um að brjótast, ekki aðeins undan ofríki kommúnistanna, heldur einnig um að brjótast undan stöðnun til framfara. Þeir vildu stuðla að álíka framförum og höfðu átt sér stað hjá grannþjóðum þeirra handan múrsins. Auðvitað er það þeirra eigin réttur að taka þá stefnu en það er jafnframt skylda okkar að vega og meta hvort við getum rétt þeim höndina. Ég tel, herra forseti, að við hefðum jafnvel átt að gera það fyrr.

Hið rétta er að þau ríki, sem hér um ræðir, eru öll orðin aðilar að Evrópuráðinu sem þau ekki voru áður. Ég tel mikilvægt að skoða hvers vegna það var ekki. Evrópuráðið er gömul og gróin samstarfsstofnun Vesturlanda. Hún hefur starfað á sviði mannréttinda og að því að byggja upp eðlilegar lýðræðisstjórnarstofnanir innan aðildarríkjanna. Hvers vegna voru þessi ríki ekki aðilar að Evrópuráðinu frá byrjun? Þar voru ekki átök á milli austurs og vestur, milli auðvaldssinna eða alræðisstjórnarsinna. Nei, ástæðan var sú að þeir sem réðu málum þarna eystra vildu og töldu nauðsynlegt að halda þeim í öðrum og harðari greipum. Þeir voru að vísu ekki allir borgarar þeirra ríkja heldur aðkomumenn, leiðtogar í Sovétríkjunum undir forustu Rússa. Þeir völdu sjálfir að taka ekki þátt í samstarfi vestrænna ríkja um að reisa Evrópu úr rústum síðari heimsstyrjaldarinnar. Með því samstarfi hófust framfarir á sviði efnahagsmála og mannréttinda sem við þekkjum í dag og teljum sjálfsögð á Vesturlöndum.

[12:30]

Ég hygg að fáir íbúar þessara ríkja hafi kynnst þeim framförum af eigin raun fyrr en eftir fall múrsins seint á árinu 1989 og einmitt þess vegna hafi þeim þótt ríkari ástæða til að sækja eftir fullgildri aðild að öllum fjölþjóðasamtökum Vesturlanda sem höfðu komið þessum framförum á og gert þau að sjálfsögðum réttindum.

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að samningarnir verði staðfestir sem fyrst af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins. Ég er sannfærður um að þeir munu ekki leiða til vaxandi spennu í Mið- eða Austur-Evrópu, fremur til vaxandi öryggis sem er einmitt það sem þessi ríki sækjast eftir.

Fyrr í umræðunni hefur verið nefnt að við áttum fund í þessari viku með þingmönnum frá tékkneska lýðveldinu. Þeir fengu tækifæri til og voru aðspurðir fúsir til að greina álit sitt á ástandi mála í grannríkjum sínum og frá því hvers vegna þeir sækja eftir aðild að bandalaginu. Það er alveg ljóst að það er vegna gamalgróinnar vantrúar á öryggi milli ríkja og þjóða í Mið- og Austur-Evrópu. Hvers vegna skyldi það vera, herra forseti? Ég tel víst, enda mátti skilja það raunar á orðum þeirra, að þeir sem þeir skelfast eða hafa ekki tiltrú á að þetta muni viðhalda öryggi og friðsamlegri sambúð eru grannþjóðir þeirra, enda kom í ljós þegar stjórnkerfi kommúnista hrundi í austurvegi að eitt af því fyrsta sem nýfrjáls ríki gerðu var að fella úr gildi eigin samning þeirra um Varsjárbandalagið sem svo var kallað. Það var þeirra eigin ákvörðun. Þeir vildu ekki vera saman í öryggisbandalagi. Nánast sömu dagana óskuðu þau öll eftir aðild að samstarfsstofnunum Vesturlanda, þar á meðal að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

Herra forseti. Ég tel að eðlileg aðlögun hafi átt sér stað með því að þessi ríki urðu fyrst aðilar að Evrópuráðinu. Þau hafa síðan gert samninga um fríverslun og annað samstarf á sviði efnahagsmála við Vesturlönd. Þau hafa um nokkurt árabil tekið þátt í samstarfi innan ÖSE og nú er komið að því að þrjú þau fyrstu, ekki þau síðustu, síður en svo, muni gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu.

Menn hafa velt því fyrir sér enn og aftur hvernig viðbrögð Rússa verði. Kannski er skynsamlegt að menn telji þar að leita helstu ástæðnanna til þess að meta og vega vandlega hvort áhrifin verði aukin spenna eða betra öryggi. Þá verðum við að gæta þess, herra forseti, sem er sérkenni Rússa umfram allar aðrar þjóðir sem við heyrum frá, hvernig þeir ræða sín eigin stjórnmál, að hvergi annars staðar og alls ekki meðal Vesturlandaþjóða þykir jafnsjálfsagt að ræða stórveldisdrauma, ástæðu til þess að seilast til ítaka með öðrum þjóðum. Hvergi nokkurs staðar annars staðar er það jafnsjálfsagt og í Rússlandi. Meðan Rússar eru enn þá að ræða viðfangsefni í stjórnmálum sem við teljum okkur sem betur fer vera búna að leysa að mestu leyti og ræðum nú fremur hvernig eigi að takast á við blikur á lofti, til að mynda á sviði efnahagsmála eða mannréttinda, þá telja þeir jafnsjálfsagt að ræða á sama tíma hvernig þeir viðhaldi hagsmunum sínum og ítökum í öðrum löndum, löndum annarra þjóða. Þetta er ástæða þess að þessar grannþjóðir okkar í Austur- og Mið-Evrópu hafa eftir áratugalanga sambúð, ef sambúð skyldi kalla, undir forustu Rússa enn þá fullkomnar áhyggjur af öryggi sínu vegna nágranna sinna.

Nú þekkjum við í gegnum söguna að oft hafa efnahagslegar ástæður reynst vera orsök þess að þjóðir eða ríki ráðast á granna sína. Þar verður að segjast að þeir gestir okkar fyrr í vikunni höfðu þá skoðun, og töldu sig hafa fullkomna ástæðu til, að meðal nokkurra grannríkja þeirra fyrrverandi Sovétríkja, Úkraínu, Hvíta-Rússlands og jafnvel Rússlandi væru framfarir á sviði efnahagsmála ekki enn orðnar traustar í sessi né heldur væru sjáanlegar framfarir nægar til þess að ætla að íbúar þar og stjórnendur og leiðtogar þeirra þjóða teldu sig ekki hafa ástæðu til að ásælast það sem aðrir hafa náð. Það hefur lengst af verið talið, herra forseti, að ástæðan fyrir a.m.k. nokkrum aðgerðum Þýskalands á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar hafi verið ásælni í efnahagsleg gæði annarra, þ.e. íbúa grannlanda þeirra. Það er þetta sem tékkneskir þingmenn véku að í viðræðum við okkur. Þeir telja að þegar til nokkurs tíma verður litið muni ekki verða kostnaður umfram aðrar ástæður af því að þeir verði aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það verði nokkur kostnaður á fyrstu árum en síðar muni sá kostnaður verða lægri en yrði ef þeir hefðu ekki aðild að slíku samstarfi. Það er vegna þess hvernig þeir meta ástandið í grannríkjum sínum og telja sig hafa ástæðu til nokkurs ótta.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það hafi komið fram að mat þeirra sé vel yfirvegað, þeir hafi fullar ástæður til og ég tel skynsamlegt af okkur að beita okkur fyrir aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu. Ég tel líka ljóst að við munum halda áfram að beita okkur fyrir því að Eystrasaltsríkin verði einnig aðilar að því bandalagi innan tíðar. Þannig hefur rödd Íslands ávallt verið haldið fram af þingmönnum, af ráðherrum hvarvetna sem við höfum náð að sýna afstöðu Íslands og láta hana heyrast. Ég tel rétt að við störfum þannig áfram og ég tel þessa samninga einungis skref á þeim vegi.