Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:04:57 (4924)

1998-03-19 14:04:57# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að verið væri að velja tiltekin ríki og það væri nær að einbeita sér að því að styðja ríki Mið- og Austur-Evrópu með eihverjum öðrum hætti og sérstaklega á grundvelli ÖSE. Ég tek fram sem skoðun mína að það er nauðsynlegt að efla ÖSE en ÖSE getur aldrei komið í staðinn fyrir Atlantshafsbandalagið og ég vil nefna sem dæmi það sem er að gerast í Bosníu núna. ÖSE sér þar um framkvæmd að mjög stórum hluta af borgaralegum ákvæðum Dayton-samkomulagsins, eins og að undirbúa og hafa eftirlit með kosningum. Atlantshafsbandalagið sér um framkvæmd hernaðarlegs hluta Dayton-samkomulagsins sem hefur skapað það öryggi sem þarf til til þess að kosningar geti farið fram og lýðræðið eflist. Í þessu hrjáða landi vinna þessar stofnanir afar vel saman og nauðsynlegt er að efla þær báðar.

Því er haldið fram af hv. þm. að einstök ríki séu skilin eftir. Það er alls ekki svo. Atlantshafsbandalagið hefur hafið samstarf við þessar þjóðir með öðrum hætti, með Samvinnu í þágu friðar, með stofnun Evró-Atlantshafssamvinnuráðsins, með samstarfssamningnum við Rússland, með samstarfssamningnum við Úkraínu. Það er alls ekki rétt að ekki sé verið að vinna á þessum vettvangi.

Það er hins vegar nauðsynlegt að öll þessi vinna fari fram á grundvelli Atlantshafsbandalagsins og þeirrar stofnunar sem þar starfar því að Atlantshafsbandalagið hefur séð til þess að allt þetta samstarf hafi farið í gang. Það er Atlantshafsbandalagið sem er að vinna að þróun lýðræðis og hjálpa til við þróun lýðræðis í öllum þessum heimshluta.