Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:24:10 (4930)

1998-03-19 14:24:10# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:24]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki farið mjög nákvæmlega ofan í það hvaða leið Rússar eiga að fara til að ná þeirri lýðræðislegu uppbyggingu og þeirri velferð sem er í vestrænum ríkjum. Þeir finna það sjálfir og hafa að mínu viti reynt með mjög veiku stjórnkerfi, því að það er náttúrlega staðreynd sem hv. þm. veit jafn vel og ég, að rússneska stjórnkerfið er gamla sovétkerfið sem hefur reynst afskaplega staðnað og erfitt að hreyfa til í átt til frjálsræðis. Þeir haukar sem hafa viljað virkilega taka á og einkavæða fyrirtæki og koma meira frjálsræði í efnahagslífið, skera niður báknið, hafa því að sjálfsögðu lent þar á hverjum sótraftinum upp af öðrum sem hefur náttúrlega viljað verja hagsmuni sína, stöðu sína, starf sitt innan kerfisins. Menn sem hafa verið aldir upp innan sovéska kerfisins til að halda uppi skriffinnskunni og auðvitað tekur langan tíma að breyta slíku kerfi í frjálsræðisátt en ég held þrátt fyrir allt að þá sé að koma í ljós að þetta mun takast, fyrr en menn jafnvel héldu fyrir ári. Ég minni á greinar sem hafa komið fram í hinu gagnmerka blaði, Morgunblaðinu, um það hvernig menn sjá fyrir sér hagkerfi Rússlands blómstra innan örfárra ára sem mun leiða til þess að þetta verði eftirsóttasti fjárfestingarstaðurinn í hinum vestræna heimi eða á jörðunni á næstu árum og ég trúi því að komið sé að því að við eigum að geta farið að trúa því að það sé hægt og í rauninni réttlætanlegt að fjárfesta í Rússlandi þótt það hafi ekki verið hægt fram að þessu.