Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:53:13 (4937)

1998-03-19 14:53:13# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú tillaga sem við ræðum um staðfestingu viðbótarsamninga vegna stækkunar Atlantshafsbandalagsins hefur orðið tilefni til umræðna sem taka langt út fyrir ramma tillögunnar og er það í rauninni mjög eðlilegt og réttmætt vegna þess að þetta mál tengist öðrum þáttum í sambandi við öryggismál í Evrópu allri. Menn hafa í ræðum farið yfir ýmislegt úr liðinni tíð og það er líka athugunarefni út af fyrir sig þó að mestu skipti það sem varðar framtíðina í þessum efnum.

Ég ætla að koma að nokkrum þáttum sem tengjast þessu máli en hér hafa áður talað af hálfu Alþb. formaður þingflokksins, hv. þm. Svavar Gestsson, og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og tjáð í ræðustól viðhorf sem ég tek undir í öllum atriðum sem fram hefur komið í þeirra máli, þar sem gagnrýnd hefur verið sú stefna sem felst í þeirri tillögu sem við erum að ræða um. Sterkir fyrirvarar eru af hálfu Alþb. sem annaðhvort mun greiða atkvæði gegn þessari tillögu eða sitja hjá við atkvæðagreiðslu hennar en um það eigum við eftir að fjalla nánar í þingflokki okkar.

Það er mjög eðlilegt að menn líti ögn til baka og skyggnist um víðar í sambandi við þetta stóra mál. Það hefur margt gerst frá þeim tíma sem eðlilega er vitnað til sem ákveðin þáttaskil í sambandi við öryggismál í Evrópu, þ.e. árin í kringum 1990 þegar sovétkerfið hrundi ekki aðeins í Sovétríkjunum sjálfum heldur í öðrum ríkjum Austur-Evrópu og mikil bjartsýni ríkti um það að þarna væri hinu kalda stríði lokið og hægt væri að draga strik yfir langa og mjög erfiða sögu í Evrópu þó að hún hefði ekki leitt til styrjaldarátaka eða blóðsúthellinga sem betur fer, þ.e. tímabil hins kalda stríðs.

Miklar væntingar voru um það að nú tækju við aðrir og bjartari tímar bæði í Evrópu og víðar um heiminn þar sem menn legðust á árar um að skapa aðra og traustari framtíð en ógnarjafnvægi kalda stríðsins þar sem oft munaði mjóu og enginn vissi í rauninni hvort af hlytist það allsherjarbál kjarnorkustyrjaldar sem við blasti á áratugum hins kalda stríðs.

Nú sjö til átta árum eftir að þessi bjartsýni ríkti eru allt önnur viðhorf uppi í sambandi við stöðu mála, bæði í Evrópu og í heiminum öllum og sú bjartsýni hefur vikið fyrir efasemdum og sumpart svartsýni varðandi þróun mála. Þessi þróun mála tengist í æ ríkari mæli spurningum sem varða heiminn allan vegna þess að þróun á þessum áratug hefur verið undir merkjum hnattvæðingar sem svo er kölluð eða alþjóðavæðingar sem einnig er kölluð hnattvæðing og kannski nær betur því hugtaki sem oft er vísað til og kallað ,,globalisation`` á erlendu máli. Þar er því miður langt frá því að undirstöður hafi verið að styrkjast í sambandi við efnahagsmál í veröldinni. Andstæður hafa verið að skerpast í sambandi við efnahag bæði innan þjóðríkja í hinum velmegandi hluta heimsins og einnig milli hins velmegandi hluta heimsins og þess sem við höfum kallað þróunarríki eða þriðja heiminn. Það þarf ekki langt að leita til að menn sjái á hve gífurlega tæpu vaði við stöndum í þeim efnum og þá minni ég á hrunið í efnahag Austur-Asíuríkja á síðasta ári og þau skjótu umskipti sem þar urðu í efnahagsmálum sem sýna okkur betur en mörg orð hversu höllum fæti menn standa í að hafa náð einhverju sem heitir viðunandi tökum á undirstöðuþáttum í þróun alþjóðamála. Auðvitað eru efnahagsmál og öryggismál nátengt og umhverfismálin þar á meðal, eins og menn hafa vikið að réttilega í ræðum, sem einn af þeim stóru þáttum sem skapa þjóðum og heimi öllum örlög og eiga eftir að gera það í auknum mæli í framtíðinni.

Ég minni á þetta m.a. vegna þess að það er að mínu mati ekki réttmætt, og það stendur a.m.k. á algerum brauðfótum, að ætla að setja jafnaðarmerki á milli lýðræðisþróunar annars vegar og efnahagskerfis hins vegar. Það er ekkert sjálfgefið jafnaðarmerki þar á milli. Það er ekkert sjálfgefið jafnaðarmerki á milli þess að svonefnt þingræði ríki að formi til í löndum og þar sé á ferðinni þróun til jákvæðrar áttar í efnahagslegum skilningi og hvað snertir jafnræði milli þegnanna. Það er eitthvað annað. Þetta segi ég vegna þess að við hljótum að taka mjög eindregið undir nauðsyn þess að treysta lýðræðislega innviði í samfélögum sem víðast um heim, áhrifamátt fjöldans til að ráða ráðum sem hann varðar mestu innan þjóðríkja og í friðsamlegum samskiptum milli þjóðríkja.

[15:00]

En þróunin er því miður ekki í þá áttina. Þar sem drifkarfturinn er, meðal þeirra ríkja sem búa þó við þingræði og lýðræði í vestrænum skilningi, er efnahagsþróunin hraðfara á leið í öfuga átt. Hún er í þá átt að öryggi, raunverulegt efnahagslegt öryggi og undirstöður heimsbúskapar standa æ valtari fæti, vegna hnattvæðingar og frjálsræðis fjármagnsins sem hefur ekkert með lýðræðið að gera. Fjármagnið sem drifkraftur í efnahagslegu tilliti hefur í raun ekkert að gera með lýðræði. Það samkeppnisskipulag, sem nú er reynt að innleiða sem víðast, stefnir í öngstræti eins og það er rekið, eða fram á bjargbrún.

Í raun veit enginn hvenær gerast munu miklu stærri atburðir en við höfum séð í þeim viðvörunarmerkjum sem komið hafa og eru þó nógu tilfinnanleg fyrir umtalsverðan hluta þjóða. Þar mætti nefna hrunið á fjármagnsmörkuðum Austur-Asíu þegar ákveðið var af alþjóðastofnunum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að hlaupa undir bagga, m.a. að boði Bandaríkjanna sem hins sterka aðila þar. Það var ósvipað því sem gerðist 1995 þegar Bandaríkjaforseti var knúinn til þess af hagsmunaaðilum í Bandaríkjunum að dæla inn í efnahagskerfi Mexíkó risavöxnum upphæðum til þess að forða þar gjaldþroti. Þetta nefni ég vegna þess að þetta skiptir miklu máli í umræðunni í dag. Ég undirstrika það, af minni hálfu, að milli lýðræðis annars vegar og þess samkeppnismynsturs fjármagnsins sem er driffjöðurin í heimsbúskapnum nú um stundir, er í raun ekkert samasemmerki. Það ætti að verkefni okkar og annarra þjóða að leita að gangverki, í sambandi við efnahagsmál heimsins, sem í senn tryggi viðunandi aukið jafnræði og skiptingu gæða milli þegna, þjóða og heimshluta, og þokkalegt öryggi.

Hæstv. utanrrh. sagði í upphafi máls síns hér í dag, þegar hann mælti fyrir þessari tillögu, að NATO væri opið lýðræðisríkjum í Evrópu. Hér hefur af sumum verið lögð áhersla á það að NATO væri samnefnari fyrir það sem við köllum lýðræði. Nú gott og vel. Ég tek undir það að halda lýðræðisskipan með sem mestu áhrifavaldi þegnanna, frelsi þegnanna og ákvörðunarvaldi þeirra. Það er ágætt sem almennt markmið. En ætli þetta sé nú aðalmælikvarðinn í stefnu þeirra ríkja sem eru burðarásinn í NATO? Hver er meginburðarásinn? Bandaríki Norður-Ameríku. Er markmið þeirra að efla jafnræði í heiminum og undirstöður raunverulegs lýðræðis sem víðast? Um slíkt verður ekki felldur dómur án þess að menn taki til athugunar það efnahagskerfi og það gangvirki sem haldið er uppi í nafni þessa sama lýðræðis.

Ef við lítum á lýðræðismælikvarðann að því er varðar NATO, þá væri vert að skoða aðeins aðildarlistann og muna eftir því að ein af þeim þjóðum sem er undir þessum harða mælikvarða lýðræðisins er Tyrkland. (Gripið fram í: Það eru fleiri.) Tyrkland var tekið inn í NATO fyrir mjög löngu síðan. Ég veit ekki betur en að ástandið í því ríki sé þannig að það þyki ekki tækt samkvæmt mælikvarða Evrópusambandsins vegna mannréttindabrota og vegna þess að það virðir ekki grundvallarreglur lýðræðis. Og það hefur verið í stöðugum útistöðum við Evrópuráðið af þeim sökum. En það hefur þótt sjálfsagður og velkominn þátttakandi í NATO vegna þess að mælikvarði lýðræðisins er ekki virtur ef hernaðarhagsmunir bjóða annað. Þeir hagsmunir réðu því á sínum tíma að Tyrkland var tekið inn og það hefur auðvitað notið þess á sinn hátt að vera aðili að þessum klúbbi, hernaðarbandalaginu NATO.

Ég tel það hafa verið afar afdrifaríkt og tekin hafi verið röng skref eftir 1990, að halda fast við hernaðarbandalagið NATO og breyta í engu um stefnu þess sem hernaðarbandalags. Það er hernaðarbandalag með kjarnorkustefnu að grundvelli, í stað þess að leitast við að þróa öryggiskerfi í Evrópu sem líklegt væri til að styrkja lýðræðisþróun í Evrópu allri og ekki síst í Rússlandi. Þar er þörfin á því að styrkja innviði lýðræðislegs samfélags mjög mikil, eins og raunar í öðrum ríkjum Austur-Evrópu sem bjuggu við annað kerfi sem hrundi 1989. Það var kerfi sem ekki gat staðist og átti ekki að standast. Sem betur fer hrundi það og það er engin tilviljun að það hrundi. Út í þær ástæður væri hægt að fara hér. Ég hef oft rætt það efni í þessum ræðustól en ég ætla ekki að taka tíma í það núna.

Ég held að sú leið sem hér er verið að feta, að safna einni og einni þjóð, þremur þjóðum, undir væng Atlantshafsbandalagsins sem hernaðarbandalags og kjarnorkuveldis sem áskilur sér áframhaldandi rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði, sé röng stefna. Hún er ekki til farsældar fyrir öryggi Evrópu eða heimsins í heild. Það er illa til fundið af Íslendingum að styðja þá þróun í stað þess að leggja sig fram um að leita nýrra leiða til að treysta öryggi í álfunni.

Sagt er að vilji þeirra þjóða sem boðin hefur verið aðild að Atlantshafsbandalaginu sé mikill til að ganga þar inn. Ég skil út af fyrir sig, eins og hér hefur komið fram hjá öðrum talsmönnum Alþb., ástæður þeirra og þeirra sem þar eru í forustu til að vilja í Atlantshafsbandalagið. Miðað við sögu þeirra er það skiljanlegt. Það breytir þó engu um það að við höfum leyfi til þess að meta öryggishagsmuni álfunnar, hér á Íslandi hver fyrir sig, og taka afstöðu til þessarar tillögu út frá slíkum sjónarmiðum. (Forseti hringir.)

Vegna þess að hér hefur verið rætt um svo yfirgnæfandi stuðning þessara landa við inngöngu, hæstv. ráðherra nefndi 80% í því sambandi, virðulegur forseti, minni ég á að í Ungverjalandi var þátttakan í kosningum um spurninguna um inngöngu í Atlantshafsbandalagið eða ekki, þrátt fyrir mikinn eftirrekstur af hálfu stjórnvalda um (Forseti hringir.) þátttöku, 51%. Þátttakan í þeim kosningum rétt marði 50% mörkin og ber ekki vott um að áhuginn hafi verið sá, virðulegur forseti, sem talan 80% ein segir.