Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:12:07 (4939)

1998-03-19 15:12:07# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:12]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. verður að eiga við sig þær áhyggjur sem hann hefur af þeim sem hafa aðrar skoðanir en hann, Framsfl. eða meiri hluti á Alþingi Íslendinga, á þeim tillögum sem hér liggur fyrir. Það hefur nokkuð lengi legið fyrir, virðulegur forseti, að Alþb. hafi ekki talið að NATO sem hernaðarbandalag væri samkvæmi sem Íslendingar ættu að vera þátttakendur í. Það hefur verið okkar mat. Þetta hernaðarbandalag heldur við sín grundvallaratriði í sambandi við uppbyggingu sína sem kjarnorkuveldi og áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði á sama tíma og Haag-dómstóllinn, að beiðni Sameinuðu þjóðanna, kemst að þeirri niðurstöðu að slík slík stefna sé ólögmæt að alþjóðalögum. Svo er hæstv. utanrrh. undrandi á því að við höfum annað mat á þessu heldur en þeir sem í einu og öllu fylgja þeim siglingarljósum sem hafa ráðið ferðinni í Atlantshafsbandalaginu.

Sögulegu tækifæri hefur verið glatað. Hins vegar er ekki of seint að endurskoða þá stefnu. Það er ekki verið að tryggja öryggi Evrópu til frambúðar með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, með því að taka inn þrjú ríki sem næst liggja Mið-Evrópu inn í Atlantshafsbandalagið og ögra með því hluta þeirra ríkja sem skilin eru eftir. Þar á meðal Rússlandi. Þörfin á að styrkja lýðræðisferlið í Rússlandi er mikil og brýn. Þeirri þörf er ekki þjónað með því að króa Rússa af utan öryggiskerfis í álfunni.