Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:14:23 (4940)

1998-03-19 15:14:23# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef vanist því á alllöngum tíma, rúmum tveimur áratugum, að hv. þm. og margir aðrir hv. þingmenn Alþb. hafi afar miklar áhyggjur af Framsfl. og stefnu Framsfl. í ýmsum málum. Það hefur út af fyrir sig verið ánægjulegt að hv. þm. og aðrir hv. þm. Alþb. skuli hafa haft þessar gífurlegu áhyggjur af stefnu Framsfl., sérstaklega í utanríkismálum.

[15:15]

Ég verð að segja það alveg eins og er, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson að ég hef mjög miklar áhyggjur af þeim áherslum sem þingmaðurinn kom fram með í sinni ræðu. Ég ætla ekki að fara inn á það en hann sagði að ekkert samhengi væri milli efnahagskerfis og lýðræðisþróunar. Er það nú staðreynd að ekkert samhengi sé þar á milli? Er ekki alveg ljóst að kerfi kommúnismans kallaði fram alræði? Er ekki alveg ljóst að ástæðan fyrir því hruni sem nú er í Asíu er sú staðreynd að efnahagskerfið er ekki nægilega frjálst? Er ekki ljóst að mesta vonin til að framhald verði á lýðræði í Kína er að efnahagskerfið verði frjálsara og er ekki alveg ljóst að ástæðan fyrir lýðræðisþróuninni í Mið- og Austur-Evrópu er ekki síst meira frjálsræði í efnahagsmálum? Að mínu mati er þarna beint samhengi á milli. En þær áherslur sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson setti fram lýsa mjög miklum hugmyndafræðilegum ágreiningi á Alþingi og það er í sjálfu sér ekkert við því að gera. Ég virði skoðanir annarra og ég virði hans skoðanir. Ég er mjög ósammála þeim en ég vænti þess að hann virði okkar skoðanir í þessu máli. En sérstaklega vænti ég þess að hann virði vilja þessarar þjóðar og þess fólks sem þar býr.