Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:32:20 (4944)

1998-03-19 15:32:20# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:32]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í umræðum um stækkun NATO hefur það hvað eftir annað komið upp sem hv. þm. minntist á hvort skynsamlegt væri að NATO-ríkin næðu að landamærum Rússlands. Ég hef ekki verið talsmaður þess að taka það skref því að eins og ég kom að í ræðu minni áðan hefði það getað valdið truflun á þeim ferli sem verið hefur í álfunni.

Ég hef ekki heldur verið trúaður á að einstök kjarnorkuvopnalaus svæði leystu öryggismálin með kjarnorkuveldi sitt hvorum megin. Ég tel farsælt að taka fleiri skref hvað þetta varðar og byggja upp samstarf við Rússa jafnframt eins og hefur verið gert á mörgum sviðum þannig að stækkunin verði með þróun en hún fari ekki fram í stóru áhlaupi. Ég hef verið talsmaður þess að fara varlega í þessum efnum til þess að stækkunin valdi ekki truflunum í öryggismálum og ég tel að þetta skref geri það ekki.