Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:54:05 (4948)

1998-03-19 15:54:05# 122. lþ. 91.2 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og þeim þingmönnum sem flytja þessa tillögu fyrir þann áhuga sem þeir sýna þróunarmálum. Það er vissulega mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga sinni þeim málum og taki þátt í umræðum um þau. Þau eru mjög mikilvægur málaflokkur sem skiptir samstarf okkar á alþjóðavettvangi mjög miklu máli.

Það er því miður alkunna að framlag Íslands til þróunarsamvinnu hefur verið miklu lægra en annarra þróaðra landa, eins og hv. þm. rakti, og þá einkum lægra en annarra Norðurlanda. Upphaflega var sett fram sem stefnumið í lögum frá árinu 1971 að framlagið skyldi nema 0,7% af þjóðarframleiðslu í samræmi við samþykkt allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem þá hafði verið gerð. Með þingsályktun frá 1985 var stefnumiðið áréttað og gert ráð fyrir að þessu yrði náð á sjö árum. Segja má því að ekki skorti á ályktanir Alþingis í þessu efni. Í áliti nefndar og starfshóps um þróunarmál frá árinu 1992 var hvatt til þess að stefnumiðinu yrðu gerð betri skil og að hlutfallinu, 0,3--0,4% yrði náð um aldamót. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að framlagið hefur komist hæst í 0,12% árin 1992 og 1993, og er um 0,1% á yfirstandandi ári, þ.e. árinu 1997. Í framhaldi af þeim staðreyndum ákvað ég að fá Jónas H. Haralz, sem lengi hefur starfað að þessum málum á vettvangi Alþjóðabankans og er gjörkunnugur íslenskum þjóðmálum og efnahagsmálum, til að gera skýrslu um þessi mál og í skýrslu sem hann skilaði þann 16. apríl 1977 fyrir utanrrn. og var þá lögð fram í ríkisstjórn, er á það bent (Gripið fram í: ... ´98) 16. apríl 1997, þ.e. fyrir nálægt einu ári síðan skilaði hann þessari skýrslu og hv. þm. getur að sjálfsögðu fengið aðgang að og aðrir þeir þingmenn sem hafa áhuga á. Þar tekur hann fram að rétt sé að gera glögg skil í umræðum um framlög til þróunarmála á milli framlaga til marghliða samvinnu annars vegar og tvíhliða samvinnu hins vegar. Fyrri liðurinn ákvarðast af þátttöku í alþjóðastofnunum en við þær skuldbindingar hefur Ísland staðið að öllu leyti. Nýjasta dæmi um slíka samvinnu er þáltill. sem hefur verið lögð eða verður lögð fram á Alþingi alveg næstu daga um þátttöku okkar í MICA, sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem tekur ábyrgð á fjárfestingum í þróunarlöndunum. Það hefur ekki verið mjög mikill áhugi hjá íslenskum fyrirtækjum að við tækjum þátt í þessari stofnun vegna þeirra eigin fjárfestinga. Sá áhugi fer vaxandi en það sem skiptir meginmáli að mínu mati er að við erum að styðja þróunarlöndin með þátttöku í slíkri stofnun því það skiptir þessi þróunarlönd afar miklu máli að alþjóðasamfélagið og frjáls fyrirtæki í heiminum leggi út í að stofna til atvinnurekstrar og fjárfesta í þessum löndum. Þess vegna er það að mínu mati mikilvægt framlag til þróunarmála að við tökum þátt í því.

Íslendingar taka þátt um þessar mundir í þróunarnefnd Alþjóðabankans og við gegnum þar forustu fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Forusta okkar í þeim hópi minnir okkur mjög á að við þurfum að standa okkur á þessu sviði eins og aðrar þjóðir og það má segja að það reki nokkuð á eftir okkur en við höfum tekið fullan þátt í þessu starfi og Wolfensohn, bankastjóri Alþjóðabankans, er væntanlegur hingað í vor til að vera á fundi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um m.a. þessi málefni. Við höfum því reynt að auka þátttöku okkar í þessum málum á alþjóðlegum vettvangi. Það er sem sagt aðallega í framlögum til tvíhliða samvinnu sem Ísland er eftirbátur annarra. Það er ekki í hinni marghliða samvinnu og ég vil líka, kannski síðar, geta um framlag okkar í öðrum verkefnum sem ekki beint tengjast þessum eins og t.d. í Bosníu, sem ekki var gert að umtalsefni í þessari skýrslu.

Í skýrslunni er enn fremur bent á að snögg breyting geti ekki orðið á tvíhliða samvinnu þar sem vandlegur undirbúningur verði að fara fram. Opinber stefnumörkun til nokkurra ára ásamt nægilegum fjárveitingum til leitar að verkefnum og frágangs þeirra þurfi því að koma til sögunnar. Það má kannski segja að þetta hafi skort á. Það er ekki nóg að segja sem svo: Við skulum auka þetta um nokkur hundruð millj. Við verðum að finna góð verkefni og tryggja að með slíkum verkefnum náum við árangri, því það hefur átt sér stað mjög mikil sóun og jafnvel spilling í þróunaraðstoð margra ríkja og það hefur ekki náðst sá árangur sem menn væntu.

[16:00]

Það stefnumið var sett fram í þessari skýrslu að útgjöld Þróunarsamvinnustofnunar Íslands aukist úr 172 millj. árið 1997, en þessi framlög endurspegla okkar tvíhliða aðstoð, í 285 millj. árið 2000 og 495 millj. kr. árið 2003 reiknað á föstu verðlagi 1997. Þetta mundi fela í sér að tvíhliða þróunaraðstoð Íslands hækkaði úr 0,035% af þjóðarframleiðslu árið 1997 í 0,08% árið 2003, en þróunaraðstoð í heild úr 0,1% í 0,15% á sama tímabili. Þetta mundi þó enn vera langt undir tilsvarandi framlögum allflestra iðnríkja sem voru að meðaltali tæp 0,3% vegna tvíhliða aðstoðar og rúm 0,4% í heild á árinu 1995. Ég tel að þau markmið sem sett voru fram í þessari skýrslu Jónasar Haralz séu bæði varleg og raunsæ.

Ég lagði þetta mál fyrir ríkisstjórn þann 17. október 1997 og þar var lagt til að ríkisstjórnin fallist á ofangreind markmið og heimili ÞSSÍ eða Þróunarsamvinnustofnuninni að haga störfum sínum í samræmi við það. Nauðsynlegar fjárveitingar voru tryggðar í ár til þess að tryggja þennan undirbúning og við erum farin að vinna á þessum grundvelli. Við það er miðað að fjárveitingar til ÞSSÍ verði 250--300 millj. árið 2000 og 400--500 millj. árið 2003. Auðvitað er það ekki tryggt fyrir fram að Alþingi Íslendinga samþykki þessar fjárveitingar en þetta er miðað við það og háð þeim fyrirvara að við finnum nægilega góð verkefni til þess að framkvæma þetta á þennan hátt. En undirbúningurinn hefur þegar verið við það miðaður og þess vegna tel ég að þetta hafi verið undirbúið nú miklu betur en oft áður því að þar hafi fyrst og fremst verið um yfirlýsingar að ræða en ekki verið unnið að undirbúningi á þeim grundvelli.