Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 16:15:01 (4953)

1998-03-19 16:15:01# 122. lþ. 91.2 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[16:15]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins fáein orð. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þátttöku í umræðunni og jákvæð viðbrögð síðast í svari við spurningu sem hv. þm. Svavar Gestsson ítrekaði frá mér. Ég held að það séu allar aðstæður til þess að hæstv. utanrmn. taki þessa tillögu til meðferðar og jafnframt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Þar ber í sjálfu sér ekki mjög mikið á milli, hvort tveggja vísar í sömu átt þótt nokkur munur sé á í tölum og að hluta til hvað aðferðir snertir að tillagan gangi út á sjálfstæða tekjuöflun. En ég hef skilið það svo að samþykkt ríkisstjórnarinnar gangi fyrst og fremst út á að hækka framlög á fjárlögum án sérstakrar tekjuöflunar.

Mér er í sjálfu sér eyrnamerktur tekjustofn eða sérstök tekjuöflun ekkert sáluhjálparatriði í þessu sambandi nema síður sé. Ástæðan fyrir því að það er hins vegar lagt til er ósköp einfaldlega hin bitra reynsla sem m.a. hæstv. utanrrh. vitnaði til, að mjög illa hefur gengið að fá menn til að taka alvarlega eða efna jafnvel fögur fyrirheit í þessum efnum. Ég vona að hæstv. utanrmn. sýni þessu máli þann sóma eða þá athygli að afgreiða það. Satt best að segja held ég að sú ágæta nefnd, með fullri virðingu fyrir henni, megi gera meira af því að vinna hlutina þannig og í samræmi við mikilvægi þeirra mála sem utanrmn. fer með, að vera virkari í þeim efnum að móta stefnuna og veita leiðsögn um það hvernig farið sé með stærri utanríkispólitísk mál.

Ég vil einnig, herra forseti, taka undir með hæstv. utanrrh. varðandi stjórnskipulega stöðu Þróunarsamvinnustofnunar. Ég er sammála hæstv. ráðherra um það að engin tilefni eru til að fara þar að gera breytingar á. Ég held einmitt að mjög mikilvægt sé að hafa alla með og reyna að draga alla með til þátttöku og ábyrgðar í að móta stefnuna í þessu verkefni og reyna að efla skilning á því að við þurfum að leggja okkar af mörkum með því móti að fullur sómi sé að, og við getum kinnroðalaust á alþjóðavettvangi gengist við frammistöðu okkar í þessum efnum en þurfum ekki að vera í hálfgerðum feluleik með það hvar við erum á vegi stödd eins og átakanleg vöntun okkar inn á skrár OECD er til marks um.

Það er einnig alveg hárrétt sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. að Ísland hefur að því leyti til staðið við þær skuldbindingar sínar að við höfum yfirleitt verið til fyrirmyndar hvað varðar að greiða okkar reglubundnu og samningsbundnu framlög til alþjóðastofnana. Við erum í hópi fárra þjóða sem hafa alltaf, að mér skilst, verið t.d. í skilum með framlög sín til Sameinuðu þjóðanna og að sjálfsögðu er það jákvætt. En það er á hina hliðina hvað varðar tvíhliða samstarf og sjálfstæð þróunarverkefni á okkar vegum og þá hvað varðar beinlínis bara peningaframlög sem að sjálfsögðu er einnig í talsverðum mæli þörf á í þessum efnum, sem við liggjum eftir.

Varðandi það að ekki sé hægt að auka slík verkefni mjög skyndilega þá er það alveg rétt. Það er ekki farsælt að standa í einhverjum stórkostlegum sviptingum í þessum efnum. Og þess vegna gengur tillagan einmitt út á að það sé ákveðinn undirbúningsferill og framlögin séu aukin í áföngum, reyndar með mjög svipuðum hætti og stefnumótun ríkisstjórnarinnar frá því í október á síðasta ári og hæstv. utanrrh. greindi frá gerir ráð fyrir. Hins vegar er það ekki svo að neinn skortur sé á brýnum, þörfum og viðurkenndum verkefnum á þessu sviði sem út af fyrir sig geta tekið við fjárframlögum ef við viljum ákveða að auka t.d. framlög af okkar hálfu hraðar en Þróunarsamvinnustofnun er tilbúin til að taka við sjálf. Þá æpir þörfin alls staðar á og ýmis samtök og stofnanir eru að reyna á sjálfstæðum forsendum að byggja upp þróunarstarf í framhaldi af og í tengslum við neyðaraðstoð og hjálparstarf þar sem ég tel að peningum væri mjög vel varið, t.d. í gegnum starf út frá Hjálparstofnun kirkjunnar eða Rauða krossinum. Einnig má benda á hið öfluga þróunarstarf á hinum Norðurlöndunum og samvinnuverkefni okkar og hinna Norðurlandanna sem við gætum að sjálfsögðu tímabundið lagt meira en okkar hlutfall í ef við vildum auka þessa aðstoð hraðar en menn teldu að Þróunarsamvinnustofnun væri tilbúin til að taka við í formi tvíhliða verkefna. Með öðrum orðum, það er ekki skortur á verkefnum sem þarna þarf að standa því fyrir þrifum að menn auki þessa aðstoð nokkuð snöggt.

Ég vil einnig að lokum, herra forseti, taka undir það sem hér var komið inn á af hv. 4. þm. Reykn., Siv Friðleifsdóttur. Það er alveg hárrétt að menn hafa verið að endurmeta m.a. í ljósi reynslunnar sem betur fer hvernig fjármunum á þessu sviði sé best og skynsamlegast varið. Og þá hefur það komið í ljós, og hefði svo sem ekki átt að þurfa að koma neinum á óvart, að einn afar skynsamlegur farvegur fyrir það er að fá það konum í hendur í þróunarríkjunum, að hafa stjórn á eða halda utan um þá fjármuni eða þau verkefni sem þarna er lagt í. Af því að það hefur ósköp einfaldlega sýnt sig og ætti ekki að þurfa að vera mikil speki, að þá er yfirleitt haldið utan um þá hluti af ráðdeildarsemi og þær þekkja mjög vel til þess hvar vandinn brennur á.

Það eru líka ýmis ný verkefni sem hafa hlotið meiri athygli á undanförnum árum en áður var. Menn hafa á nýjan leik farið að leggja meira beinlínis í undirstöðuþætti eins og lestrarkennslu og uppbyggingu menntunar eða skóla, vatnsöflun og skógrækt. Skógrækt er t.d. verkefni sem ekki nokkur vafi er á að þarf að stórefla í þróunarríkjunum. Þar hefur víða gengið alveg skelfilega á skóga og í kjölfarið rýrna landgæði mjög. Við skulum ekki gleyma því að í þriðja heiminum er það ósköp einfaldlega svo því miður að timbur er enn þá einn mikilvægasti orkugjafinn, t.d. til matseldar, þannig að eyðing skóga hefur víða skapað skelfileg vandamál einfaldlega hvað frumþarfir af því tagi snertir að hægt sé að elda mat.

Herra forseti. Að lokum ítreka ég þá ósk mína að hv. utanrmn. í samræmi við það sem hér hefur komið fram í umræðunni taki þessa tillögu til skoðunar og stefnumótun ríkisstjórnarinnar. Ég bind vonir við að á þessu vori gætum við á einhvern hátt undirstrikað vilja Alþingis til að taka á í þessum efnum á komandi árum.