Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:10:12 (4961)

1998-03-19 17:10:12# 122. lþ. 91.3 fundur 8. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:10]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er einkennileg röksemdafærsla sem hér er höfð uppi af hæstv. utanrrh. Hann segir að vegna tilvistar Atlantshafsbandalagsins sé kommúnisminn svokallaði fallinn. Það liggur fyrir að svo er þó ég viti ekki hvort hæstv. utanrrh. telur Kína með og jafnvel Kúbu sem stundum eru flokkuð undir ríki sem leyfa sér að viðhafa þjóðskipulag svipað og var í Austur-Evrópu, svona að nafninu til, þótt auðvitað sé hægt að deila um hvort það sé af sama toga nákvæmlega. En nú er kommúnisminn fallinn, segir hæstv. utanrrh. og hvað er þá til fyrirstöðu að breyta um stefnu af hálfu hernaðarbandalagsins stóra, NATO, og taka upp aðrar áherslur? Það væri ástæða til að hæstv. ráðherra skýrði það og láti hlutina ríma þokkalega saman. Eða er það bara sannfæring hæstv. utanrrh. að til þess að koma í veg fyrir að eitthvert skipulag komist á einhvers staðar í heiminum þá þurfi NATO að halda fyrir sig réttinum til að beita kjarnorkuvopnum og byggja hernaðarmátt sinn á kjarnorkuvopnum? Svo segir hæstv. ráðherra: ,,Það er þarflaust að samþykkja þetta frv. og lögleiða það því það er yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda.`` Við skulum vænta þess að þær yfirlýsingar hafi verið virtar sem íslensk stjórnvöld hafa krafist að væru virtar í sambandi við þessi mál, m.a. á Alþingi 1985. En reynslan hefur nú sýnt sitt hvað annað, samanber nágrannaríki okkar eins og Danmörku. Þegar til kastanna kom voru þeir pappírar ekki mikils virði. Menn skyldu því hafa vissan vara á. Og hvað er til fyrirstöðu, ef þetta er svona, að setja hér lög af þeim toga sem mælt er fyrir í þessu frv.?