Samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 18:20:20 (4974)

1998-03-19 18:20:20# 122. lþ. 91.5 fundur 402. mál: #A samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[18:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég byrja á að taka það fram að ég krefst engrar viðveru hv. þm. ef þingmaðurinn þarf að hverfa til annarra verkefna. Ég ætla hins vegar aðeins að taka undir að um mikið hagsmunamál að er ræða fyrir okkur Íslendinga og nágranna okkar í þeim tilgangi að auka samkennd og samvinnu þessara þjóða sem eiga allar mikið undir sjávarútvegi.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að löndin hafi skynsamlegt samstarf um veiðistjórnun úr stofnum sem eru sameiginlegir þannig að sameiginleg ásjóna landanna beri vitni um ábyrga fiskveiðistjórnun en ekki rányrkju. Hvort við getum orðið sammála nákvæmlega um það hvernig fiskveiðistjórninni skuli háttað er annað mál og þar er alllangt í land en mikilvægast af öllu að markmiðið sé ábyrg fiskveiðistjórnun og skynsamleg nýting auðlindanna.

Ég tel jafnframt mikilvægt að þessi lönd hafi samráð um hvernig eigi að bregðast við andsnúnum áróðri um hvers konar sjávarnytjar á erlendum vettvangi. Vegna þess sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði um verndunarsamtök og umhverfisverndarsamtök þá tel ég mig ekki hafa ofsagt neitt í þeim efnum. Ég gerði sterkar athugasemdir við framkomu World Wildlife Fund í garð okkar Íslendinga. Það varð til þess að samtökin sendu fulltrúa sína hingað til lands til að útskýra sjónarmið sín og þeir báðust reyndar afsökunar á því hvernig þeir höfðu komið fram gagnvart okkur.

Við höfðum gert athugasemdir við aðild umhverfissamtaka að Norðurskautsráðinu og teljum nauðsynlegt að hægt sé að víkja þeim þar frá ef þau sýna óábyrga afstöðu gagnvart þeim þjóðum sem þar starfa. Það er mjög erfitt að fá einhverja fullvissu fyrir því frá þessum samtökum að þau beiti sér ekki ósæmilega gegn fiskveiðiþjóðum. Þessi samtök starfa í mörgum deildum og eru í reynd ekki lýðræðisleg í fyllstu merkingu orðsins. Ég get hins vegar tekið undir að málflutningurinn er misjafn eins og hjá Greenpeace. Ég hef verið mjög óánægður með ýmsar yfirlýsingar hjá Greenpeace en það vildi svo til á ráðstefnu sem við vorum báðir á, hv. þm. og ég, í Gautaborg fyrir stuttu að ég átti ágætar viðræður við fulltrúa Greenpeace á þeirri ráðstefnu og það kom í ljós að hann hafði fullan skilning á þeim málflutningi sem ég hafði þar í frammi og var í reynd sammála honum en það sama er ekki hægt að segja um hv. þm. Hann var ósáttur við málflutning minn þar. Ég vil alls ekki halda því fram að það sé allt slæmt sem kemur frá þeim sem starfa innan þessara samtaka. Það á líka við mengunarmál, mengun hafsins og mörg önnur ágæt mál sem þeir hafa barist fyrir.

Samstarf við Færeyinga hefur verið ágætt um árabil og okkur hefur tekist að bæta samskiptin við Grænland. Unnið er að gerð tvíhliða samninga við nágranna okkar auk þess sem þríhliða samstarfssamningur um sameiginlega karfa- og grálúðustofna hefur verið til umræðu meðal þessara þjóða. Við höfum reynt að nota hvert tækifæri til að bæta samstarf við þessar þjóðir, bæði með þríhliða viðræðum og tvíhliða viðræðum og ég mun m.a. í næstu viku eiga viðræður við lögmann Færeyinga í Þórshöfn um sameiginleg mál Íslands og Færeyja.

Síðast en ekki síst er rétt að geta þess að þrátt fyrir allt er mikilvægt fyrir okkur að eiga gott samstarf við Norðmenn á sjávarútvegssviðinu en það er nauðsynlegt að vinda bráðan bug á ágreiningsefnum þjóðanna síðustu árin, m.a. í þeim tilgangi að hægt sé að snúa sér af alefli að sameiginlegum baráttumálum allra þessara þjóða á vettvangi sjávarútvegsmála.