Norræna ráðherranefndin 1997

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 18:26:06 (4975)

1998-03-19 18:26:06# 122. lþ. 91.6 fundur 504. mál: #A norræna ráðherranefndin 1997# skýrsl, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[18:26]

Ráðherra norrænna samstarfsmála (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar sem liggur frammi. Jafnframt liggur frammi venju samkvæmt starfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 1998. Skýrslan er samin á grundvelli upplýsinga frá öllum ráðuneytum auk annarra sem tengjast þessu samstarfi með setu í norrænum nefndum og stjórnum.

Skýrslunni er ætlað að gefa yfirlit yfir norrænt samstarf ríkisstjórnarinnar á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar árið 1997. Það ár höfðu Norðmenn með höndum formennsku í norrænu ráðherranefndinni. Í ár gegna Svíar því hlutverki og næsta ár fellur hlutskiptið Íslendingum í skaut. Undirbúningur er þegar hafinn og vænti ég góðs samstarfs Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um framhald hans.

Norrænar fjárlagatillögur fyrir árið 1998 voru lagðar fyrir 49. þing Norðurlandaráðs í nóvember 1997 í Helsinki og fjárlögin samþykkt af samstarfsráðherrum landanna í kjölfarið. Í þeirri samþykkt var tekið fullt tillit til tilmæla Norðurlandaráðs um skiptingu fjárlaganna. Jafnframt er hafinn undirbúningur að þeirri könnun sem forsætisnefnd Norðurlandaráðs lagði til í nefndaráliti sínu um fjárlögin. Þar var ósk um að kanna möguleika og auka fjármögnun utan norrænu fjárlaganna á starfsemi Norræna iðnaðarsjóðsins og Norrænu eldfjallastöðvarinnar auk nokkurra annarra stofnana með það fyrir augum að flytja síðan stofnanir þessar af norrænu fjárlögunum.

Vegna þess mikilvæga starfs sem unnið er á vegum Norrænu eldfjallastöðvarinar og vegna þess að hún er eina norræna stofnunin á Íslandi ef frá er talið Norræna húsið væri óásættanlagt af okkar hálfu ef starfsemi Norrænu eldfjallastöðvarinnar yrði hætt.

Hlutverk Norræna iðnaðarsjóðsins er ekki síður mikilvægt í vaxandi norrænu efnahagssamstarfi. Þáttur iðnaðarrannsókna í því að bæta samkeppnisstöðu Norðurlanda sem heildar er óvefengjanlegur. Því þarf starfsemi Norræna iðnaðarsjóðsins að eiga sér stað með einum eða öðrum hætti þó ekki sé rétt að útiloka breytingar á þeirri stofnun frekar en öðrum.

Stöðugt er stefnt að nánara samráði við Norðurlandaráð um fjárlögin. Sá háttur hefur nú verið tekinn upp að leita umsagnar Norðurlandaráðs áður en norrænu samstarfsráðherrarnir ákveða fjárveitingar af óráðstöfuðum hluta fjárlaganna. Þýðing þess að halda eftir hluta fjárlaganna óráðstöfuðum við upphaf fjárlagaársins hefur aukist undanfarin ár. Ástæðan er einfaldlega sú að ákvarðanir um ný verkefni vegna formennskuáætlana landanna eru ekki teknar fyrr en eftir að búið er að samþykkja fjárlög viðkomandi árs.

Í fjárlögum ársins 1998 er í fyrsta sinn gefið gróft yfirlit yfir skiptingu norrænu fjárlaganna milli víddanna þriggja, þeirrar norrænu, evrópsku og grannsvæðanna. Leitast verður við að gefa enn betri mynd af þessari skiptingu í fjárlagatillögum ársins 1999 en Norðurlandaráð hefur um nokkurt skeið óskað eftir þessum upplýsingum. Nú þegar er einnig hafinn undirbúningur norrænu fjárlaganna fyrir árið 1999 en rammi þeirra, tæpar 717 millj. danskra króna, var samþykktur af samstarfsráðherrum í lok síðasta mánaðar. Þau verða að raungildi jafnhá fjárlögum þessa árs.

Eins og undanfarin þrjú ár hef ég við umfjöllun norrænu samstarfsráðherranna um fjárlögin lýst þeim vilja að verja nokkuð hærri fjárhæð til samstarfsins en niðurstaðan er óbreytt fjárveiting. Verður það að teljast viðunandi, m.a. í ljósi umræðu niðurstöðu um verulegan niðurskurð og sparnaðarkröfur á sviði ríkisfjármála allra landanna.

[18:30]

Á síðasta ári var hafinn undirbúningur að endurskipulagi skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar til að koma til móts við óskir Norðurlandaráðs um að færa skipulag samstarfs norrænu ráðherranefndarinnar nær því skipulagi sem Norðurlandaráð hefur þegar komið á sín störf. Þess er þó gætt að skipulagið endurspegli jafnframt uppbyggingu stjórnsýslunnar í aðildarlöndunum. Jafnframt verður unnið að því á árinu að skýra lagagrundvöll norrænu stofnananna þar sem úrbóta er þörf og ákveða skiptingu ábyrgðar milli viðkomandi aðila.

Samstarf það sem á sér stað innan vébanda norrænu ráðherranefndarinnar er afar fjölbreytt. Ráðherranefndin er samansett á 15 mismunandi vegu og embættismannanefndirnar eru 17 talsins. Auk þess eru að störfum margvíslegir vinnuhópar, sérfræðihópar og stjórnir stofnana. Þá starfa þjóðþing landanna saman sem kunnugt er og eiga samstarf við ráðherranefndina innan vébanda Norðurlandaráðs. Þetta er nefnt hið opinbera norræna samstarf. Auk þess á sér stað fjölbreytt norrænt samstarf milli frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndunum. Mikilvægt er að boðleiðir og upplýsingaflæði milli allra þessara aðila sé sem best. Þannig nærir og styrkir einn þáttur samstarfsins annan og líkur aukast á að góðar hugmyndir verði að veruleika. Því lét norræna ráðherranefndin á kanna árinu 1997 hvert væri umfang og eðli þess norræna samstarfs sem á sér stað milli frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum. Á grundvelli þeirrar könnunar liggja nú fyrir drög að norrænni samstarfsáætlun um aukin tengsl milli norrænu ráðherranefndarinnar og frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum. Ákvörðunar um hana er að vænta á árinu 1998. Samtök norrænu félaganna á Norðurlöndunum hafa þegar tekið ákveðið frumkvæði með því að standa fyrir svokölluðum norrænum þjóðfundum með víðtækri þátttöku fulltrúa frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum. Norræna ráðherranefndin hefur stutt þetta framtak með fjárframlögum.

Á árinu 1997 var ákveðið að starfrækt yrði til reynslu norræn upplýsingaþjónusta sem norræna félagið í Svíþjóð rekur fyrir hönd norrænu ráðherranefndarinnar. Þannig gefst almenningi kostur á því að leita upplýsinga um rétt sinn samkvæmt norrænum milliríkjasamningum sem gerðir hafa verið. Starfsemi þess hefst á þessu ári. Vonir standa til að hún nýtist þeim fjölda Norðurlandabúa sem flyst milli Norðurlanda vegna náms og starfa og að stjórnvöld á Norðurlöndum fái á þennan hátt upplýsingar um hvernig þessir samningar eru framkvæmdir í löndunum og hvar úrbóta sé þörf.

Eins og ég sagði í upphafi er leitast við að gera norræna samstarfsvettvanginn þannig úr garði að hann verði æskilegur vettvangur fyrir þá stjórnmálaumræðu sem hæst ber hverju sinni. Til þess þarf góðan farveg fyrir upplýsingar um gang mála innan Evrópusamstarfsins frá degi til dags með tilliti til samnorrænna hagsmuna. Ég tel okkur hafa náð árangri í þessa veru á starfsárinu. Samstarfsráðherrarnir halda nú árlega fundi með sendiherrum norrænu ríkjanna í Brussel. Einn slíkur fundur var haldinn í fyrradag þar sem rædd voru þau Evrópumál sem hæst ber í dag, þ.e. fjölgun aðildarríkja Evrópusambandsins, svokölluð Dagskrá 2000 og Schengen-samstarfið svo að eitthvað sé nefnt. Samstarfsráðherrarnir gáfu þar yfirlit yfir norræn áherslumál. Tengslin milli norrænu sendiráðanna í Brussel og þeirra sem starfa á norrænum vettvangi hafa styrkst. Með aukinni reynslu læra menn að þekkja betur en fyrr þau Evrópumál sem hafa norræna vídd. Öllum ætti þó að vera ljóst að pólitísk ákvarðanataka hjá ESB er oft, eins og dæmin sanna, slík að ómögulegt er að sjá fyrir í tíma hvernig mál snúast.

Norrænt samstarf við grannsvæðin er í jákvæðri þróun. Starfið fer fram samkvæmt árlegum áætlunum sem taka mið af því tvíhliða samstarfi sem á sér stað milli einstakra ríkja Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Norrænu upplýsingaskrifstofurnar sem starfræktar eru í Eystrasaltsríkjunum þremur og í Pétursborg gegna lykilhlutverki í þessu samstarfi. Norrænu samstarfsráðherrarnir eiga nú reglulega fundi með samstarfsráðherrum Eystrasaltsríkjanna um helstu áhersluatriði samstarfsins. Þessir fundir eru afar vel til þess fallnir að gefa grannsvæðasamstarfinu þann pólitíska grunn sem nauðsynlegur er.

Í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands að veita samtökunum American-Scandinavian Foundation styrk að upphæð 250 þús. Bandaríkjadala vegna stofnunar norrænnar menningarmiðstöðvar í New York ákváðu samstarfsráðherrar Norðurlanda að veita tilsvarandi fjárhæð, 1,65 millj. danskra króna af norrænu fjárlögunum til þessa málefnis. Ríkisstjórn Finnlands ákvað síðar að fara að okkar fordæmi. Það er fagnaðarefni að Norðurlönd skuli hafa ákveðið að styrkja þetta verkefni sameiginlega. Stefnt er að því að Norðurlönd komi í framtíðinni sameiginlega að ákvörðunum um nýtingu menningarmiðstöðvarinnar.

Norrænt samstarf um málefni norðurskautssvæðisins er í jákvæðri þróun. Beinar fjárveitingar til starfseminnar af norrænu fjárlögunum eru nú rúmlega 2 millj. danskra króna. Í ár ákváðu norrænu menntamálaráðherrarnir að veita 6 millj. danskra króna til norrænnar rannsóknaráætlunar um málefni norðurskautsins sem nær til þriggja ára. Af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar verður fylgst náið með störfum Norðurskautsráðsins í þeim tilgangi að koma á skynsamlegri verkaskiptingu en Norðurskautsráðinu er ætlað að verða heildarrammi fyrir þá starfsemi sem snýr að málefnum norðurskautssvæðisins, ekki síst þeim er snúa að umhverfisvernd og sjálfbærri auðlindanýtingu.

Velferðarmál eru meðal þeirra þverfaglegu málefna sem heyra undir samstarfsráðherrana og sem náið samráð er haft um við viðkomandi fagráðherranefndir. Á árinu 1997 voru lagðar fram tvær skýrslur um velferðarmál á Norðurlöndunum á breiðum grundvelli. Jafnframt átti sér stað umræða um það efni á þingi Norðurlandaráðs í nóvember 1997. Samstarfsráðherrarnir munu halda áfram að fjalla um velferðarmál bæði með tilliti til þess hvernig fyrirliggjandi upplýsingar geti nýst Eystrasaltsríkjunum og hvernig þær verði kynntar í Evrópusambandinu.

Herra forseti. Ég hef stiklað á nokkrum þeirra fjölmörgu mála sem til umfjöllunar eru á norrænum vettvangi en vísa að öðru leyti til þeirrar umfangsmiklu skýrslu sem lýsir öllum þáttum samstarfsins. Ég vil ítreka þakkir til þeirra þingmanna sem starfa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og öðrum þeim þingmönnum sem hafa sinnt Norðurlandasamstarfinu fyrir ágætt samstarf og óskir um að framhald geti orðið á því.