Norrænt samstarf 1996-1997

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 19:11:37 (4978)

1998-03-19 19:11:37# 122. lþ. 91.7 fundur 567. mál: #A norrænt samstarf 1996-1997# skýrsl, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[19:11]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég vildi gera að umtalsefni nokkur atriði sem hafa komið fram í þeim skýrslum sem eru til umræðu.

Fyrst vil ég nefna að í skýrslu Halldórs Ásgrímssonar samstarfsráðherra Norðurlanda kemur fram að óásættanlegt væri ef starfsemi Norrænu eldfjallastöðvarinnar yrði hætt. Undir það vil ég taka og mér finnst raunar ástæða til að árétta það sérstaklega, bæði við samstarfsráðherra og eins líka við okkur þingmenn sem erum í Norðurlandaráði, að við stöndum vörð um þær norrænu stofnanir sem eru hér á landi sem eru ekki nema tvær, þ.e. Norræna eldfjallastöðin og svo Norræna húsið. Þess vegna fagna ég því að tekið sé á málinu eins og er gert í skýrslu samstarfsráðherra.

Ég vildi spyrja sérstaklega um Schengen-samstarfið. Það er alveg ljóst að við Íslendingar höfum verið mjög ánægð með norræna vegabréfasamstarfið og við mundum sjá mjög mikið eftir því ef á því yrði einhver breyting. Það er alveg ljóst að við erum að vinna að því að verða aðilar að Schengen-samstarfinu. Mig langar til að spyrja um stöðu þess máls núna.

Einnig vildi ég nefna norrænt samstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég átti þess kost á síðasta hausti að sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Samstarf Norðurlandanna á þeim vettvangi hefur breyst mjög mikið eftir inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í ESB. Íslenska sendinefndin þar naut mikils styrks af norræna samstarfinu. Þess vegna vil ég spyrja ráðherra með tilliti til þess að breytingar hafa orðið á því, norræna samstarfið er ekki eins mikið og það var áður, hvort ekki þurfi að styrkja fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Hvernig sjáum við starf hennar fyrir okkur í framtíðinni? Ég verð að játa að mér þótti að það hlyti að vera mjög erfitt fyrir þessa fámennu fastanefnd að ná utan um alla þá starfsemi sem fer fram þar.

[19:15]

Ég vil síðan víkja nokkrum orðum að Norðurlandaráði og þeim breytingum sem hafa orðið á starfsemi ráðsins. Nú er komin nokkur reynsla af þessari nýju skipan. Við höfum búið við hana í tvö ár og ég get tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að búið er að gera þessar breytingar. Það fór langur tími í umræður um það hvernig þær ættu að vera og ég tek undir það að jafnvel þó við séum ekki fyllilega sátt við hvernig þær hafa reynst, þá ættum við þó að gefa þeim lengri tíma áður en við förum út í að ræða um breytingar á ný. Það er alveg ljóst í mínum huga að sumt hefur auðvitað reynst vel og annað miður. Það sem mér finnst hafa verið til bóta er áherslan á pólitíska starfið. Umræður hafa orðið snarpari og markvissari hvað það snertir en ýmislegt annað hefði maður kannski viljað sjá svolítið öðruvísi. Auðvitað eru nefndirnar mjög stórar, Norðurlandanefndin sýnu stærst og í henni er allt hefðbundna samstarfið. Það er því ansi strembið að ná utan um það allt fyrir þá sem þar sitja.

Það er hins vegar einn hlutur sem snýr að okkur í Íslandsdeildinni. Við erum mjög fá sem erum í Norðurlandaráði miðað við hin löndin. Við höfum eingöngu sjö þingmenn og þess vegna má kannski segja að við höfum meira á okkar könnu en flestir aðrir þingmenn sem eru í Norðurlandaráði. Ég tel að full ástæða sé til fyrir okkur í Íslandsdeildinni að huga betur að starfi okkar þar og efla það. Ég held að ástæða sé til fyrir okkur að veita hvert öðru meiri upplýsingar. Ég nefni þetta vegna þess að ég tel að það hafi þegar sýnt sig að tilhneiging hafi verið til þess að við höfum færri fundi í Íslandsdeild en voru áður þegar hin fyrri skipan var. Við ættum því að taka það til endurskoðunar að við eflum starfið í Íslandsdeildinni.

Einnig er eitt til viðbótar sem ég held að við gætum líka skoðað. Það er að tengja betur starfsemi Norðurlandaráðs við þjóðþingin eins og var ætlunin eða eitt af markmiðunum þegar menn voru að gera breytingar á starfsemi Norðurlandaráðs. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er e.t.v. erfiðara fyrir okkur en hin Norðurlöndin vegna þess að við íslensku þingmennirnir í Norðurlandaráði erum miklu færri en þingmenn hinna Norðurlandanna.

Það er innihald hins norræna samstarfs sem skiptir öllu máli og að sjálfsögðu ber að einbeita sér að því að styrkja það samstarf. Ég held að óhætt sé að segja að við höfum lagt mikla áherslu á þetta nýja skipulag og það sé kominn tími til þess einmitt núna að beina öllum kröftunum í það að styrkja samstarfið enn frekar, hætta að tala um hvernig skipulagsmálin ættu að vera, sætta okkur við það skipulag sem við höfum ákveðið og styrkja samstarfið innan þess.