Birting milliríkjasamninga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:04:16 (4986)

1998-03-23 15:04:16# 122. lþ. 92.1 fundur 266#B birting milliríkjasamninga# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:04]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í fréttum núna síðustu daga hefur verið skýrt frá ummælum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar sem hann lét falla á ráðstefnu um Norðurlandasamstarf fyrir síðustu helgi þess efnis að útgáfa C-hluta Stjórnartíðinda, sem fjallar um alþjóðlega samninga, hafi dregist úr hömlu og nú um áramót hafi fyrst verið birtir samningar fyrir árið 1995. Það er ljóst af þessu að svo virðist vera að alþjóðlegir samningar hafi ekki hlotið gildi vegna þess að ekki hefur verið staðið eðlilega að birtingu þeirra.

Herra forseti. Hér er um að ræða forkastanleg vinnubrögð utanrrn. en þetta dregur bæði gildistöku viðskiptasamninga svo og samninga um tvísköttun. Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh.:

Í fyrsta lagi: Hvernig stendur á þessu?

Í öðru lagi: Hver ber ábyrgð á þessu sleifarlagi og verður einhver látinn sæta þeirri ábyrgð?

Í þriðja lagi: Mun ráðherra beita sér fyrir úrbótum á þessu sviði?

Í fjórða lagi: Mun hæstv. ráðherra láta skoða hvort einstaklingar eða fyrirtæki hafi orðið fyrir fjárhagstjóni vegna þessa dráttar í utanrrn.?

Í fimmta lagi: Er það rétt sem haldið hefur verið fram að þýðingum á þessum samningum hafi verið ábótavant þegar samningarnir voru upphaflega lagðir fyrir hv. Alþingi?