Birting milliríkjasamninga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:05:50 (4987)

1998-03-23 15:05:50# 122. lþ. 92.1 fundur 266#B birting milliríkjasamninga# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er að hluta til einhver misskilningur í þessu máli, þ.e. þarna séu fyrir hendi samningar sem ekki hafa hlotið gildi af þessum ástæðum. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef í utanrrn. hafa flestir þessara samninga öðlast lagalegt gildi þannig að þeir eru skuldbindandi þrátt fyrir að þeir hafi ekki verið birtir í C-deild Stjórnartíðinda.

Ég skal ekki fullyrða hvort það á við um þá alla, en a.m.k. marga þeirra, þannig að ummæli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar er að hluta til byggð á misskilningi. Utanrrn. mun senda frá sér fréttatilkynningu þar sem þetta mál er útskýrt.

Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega mannekla í þeirri deild ráðuneytisins sem hefur með þetta mál að gera. Á síðasta ári var ráðinn starfsmaður til þess að fara sérstaklega í þessi mál en hann hætti störfum af persónulegum ástæðum og þar af leiðandi hefur ekki verið sá kraftur í málinu sem við ætluðum að setja það. Hins vegar er verið að bæta úr því núna og ég vænti þess að verulegar lagfæringar muni verða í þessu máli. En mér vitanlega hefur ekki hlotist neinn skaði af þessum drætti.