Birting milliríkjasamninga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:10:45 (4991)

1998-03-23 15:10:45# 122. lþ. 92.1 fundur 266#B birting milliríkjasamninga# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson nefndi sérstaklega í þessu sambandi fríverslunarsamninga við Eistland, Lettland og Litháen. Þessir samningar öðluðust fullt gildi þegar ríkin höfðu staðfest þá og eru þeir skuldbindandi fyrir þau, óháð birtingu samninganna þannig að það er a.m.k. nauðsynlegt að hafa þetta í huga. Gildistaka alþjóðasamninga er almennt ekki háð birtingu þeirra. Mér vitanlega hefur enginn skaði orðið vegna þessa máls. Það er mjög erfitt að rannsaka það. Ég tel mig ekki geta látið fara fram sérstaka rannsókn á því og það hefur a.m.k. enginn gefið sig fram sem hefur orðið fyrir skaða.

Það er mín reynsla að ef einhver verður fyrir skaða í okkar samfélagi þá gefur hann sig fljótt fram, ekki síst í ljósi umræðna um málið. Það er gott að þessi umræða fer fram. Ég er a.m.k. ekki að kveinka mér undan henni en mér heyrist hv. þm. vera svona heldur að kveinka sér undan því að eitthvað skuli vera talað við hann.