Álit ESA-dómstólsins um lög um ábyrgðasjóð launa

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:12:14 (4992)

1998-03-23 15:12:14# 122. lþ. 92.1 fundur 267#B álit ESA-dómstólsins um lög um ábyrgðasjóð launa# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:12]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Í hádegisfréttatíma Ríkisútvarpsins fjallaði fréttaritari Ríkisútvarpsins í Brussel um það að Eftirlitsstofnun EFTA hefði komist að þeirri niðurstöðu að íslensk lög verði að víkja fyrir lögum og reglum sem Evrópusambandið hefur sett og, svo vitnað sé til orða fréttamannsins, sé þessi niðurstaða rétt veki það upp spurningu um hvort Alþingi hafi framselt yfirþjóðlegum stofnunum sambandsins lagasetningarvald þegar það samþykkti EES-samninginn á sínum tíma.

Mál þetta snýst um málsókn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna greiðslna úr ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota og var rekið af lögmanni viðkomandi starfsmanns á þeim grundvelli að vísa til tilskipunar Evrópusambandsins um rétt starfsmanna við gjaldþrot.

Nú hefur ekki fallið dómur í EFTA-dómstólnum um þetta mál en álitsgerðir hafa verið sendar þangað bæði af hálfu opinberra aðila hér sem og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA sem hefur veitt álit og í það álit er verið að vísa. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann þekki þetta mál og hvernig hann meti þessa stöðu, hvort hann geti upplýst hér hvort samstaða hafi verið hjá Eftirlitsstofnun EFTA í þessu efni og hvaða ályktanir megi af þessu draga. Ég vil ekki vera með neinar getsakir um það hver niðurstaða EFTA-dómstólsins verður en afstaðan sem kemur fram er mjög athyglisverð. Það var raunar haft eftir íslenskum fulltrúa í Eftirlitsstofnun EFTA, Hannesi Hafstein, að álit stofnunarinnar væri mjög djarft. Ég vil út af fyrir sig ekki leggja neitt mat á það en vænti þess að heyra túlkun ráðherra á þessari stöðu.