Álit ESA-dómstólsins um lög um ábyrgðasjóð launa

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:14:35 (4993)

1998-03-23 15:14:35# 122. lþ. 92.1 fundur 267#B álit ESA-dómstólsins um lög um ábyrgðasjóð launa# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að hér er um mjög stórt mál að ræða bæði út frá pólitísku sjónarmiði og einnig út frá lagalegu sjónarmiði. Um það er að ræða að Héraðsdómur Reykjavíkur fer þess á leit við EFTA-dómstólinn að hann gefi álit sitt á tilteknu máli þar sem um er að ræða aðila sem telur að íslensk lög gangi skemmra en Evrópurétturinn og þar af leiðandi eigi Evrópurétturinn að gilda í þessu máli.

[15:15]

Utanrrn. hefur unnið að álitsgerð í málinu og hefur vörn í málinu. En það er rétt hjá hv. þm. að það hafa komið álitsgerðir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, einnig frá öðrum þjóðum, a.m.k. Bretum og Norðmönnum, þannig að almennt talið er um mjög stórt mál að ræða. Ég get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um hver niðurstaða málsins verður. Það liggur alveg ljóst fyrir af Íslands hálfu að við föllumst ekki á þessar kröfur, við teljum að íslensk lög eigi að gilda í málinu. Það álit sem kemur væntanlega frá EFTA-dómstólnum er ráðgefandi en hins vegar er rétt að taka fram að í öðrum tilvikum hafa dómstólar almennt farið eftir slíkri álitsgerð. En hún er sem sagt ekki komin en það verður mjög fróðlegt að fylgjast með málinu því það getur haft áhrif bæði hér á landi og í ýmsum öðrum löndum jafnframt.